03.03.1988
Sameinað þing: 54. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5408 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

306. mál, umsóknir erlendra manna um landvist

Fyrirspyrjandi (Unnur Sólrún Bragadóttir):

Herra forseti. Ástandið í heiminum er okkur stöðug áminning þess að í fjölmörgum ríkjum eru grundvallarmannréttindi fótum troðin. Milljónir manna búa í útlegð, eru í felum, í fangelsum vegna skoðana sinna. Auk þess líður ekki sá dagur að einhver sé ekki líflátinn fyrir þá sök eina að vera ósammála ríkjandi öflum í heimalandi sínu. Nánast öll lýðræðisríki hafa tekið á sig einhverja ábyrgð gagnvart þessu fólki, fólki sem á yfir höfði sér dauðadóm eða pyndingar einræðisstjórnar síns heimalands fái það ekki einhvers staðar hæli.

Ef frá eru taldir Víetnamar og örfáir Austur-Evrópumenn virðast hér engir leita hælis eða þá þeim er vísað frá. Þegar Íslendingar eiga í erfiðleikum, svo sem landhelgisdeilum, ætlast þeir til að þeir eigi vísan stuðning víða um heim. Á sama hátt tel ég okkur skylt að hjálpa þar sem þess er þörf. Ég legg ekki til að við opnum landamæri okkar upp á gátt fyrir pólitísku flóttafólki, en við gætum þó tekið við nokkrum pólitískum flóttamönnum árlega, ekki aðeins af mannúðarástæðum heldur líka sem stuðning gegn kúgun og misrétti í heiminum. Ég tel tíma til kominn að taka þessa stefnu okkar til endurskoðunar og því spyr ég hæstv. dómsmrh. og vona nú að nógu skýrt sé spurt:

„1. Hvaða reglum beita stjórnvöld varðandi þá menn er hingað koma og leita hælis?

2. Hvaða reglur gilda um skráningu á þeim umsóknum og hve mörgum hefur verið synjað um að koma inn í landið á árunum 1985–1987?

3. Hvert er ríkisfang þeirra manna er komið hafa hingað 1985–1987, hvaðan komu þeir og hve margir voru þeir?

4. Hvað er vitað um afdrif þeirra sem komu til landsins en var meinuð landvist?"