03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5463 í B-deild Alþingistíðinda. (3654)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í fyrsta lagi til þess að halda fiskiflotanum og sjávarútveginum gangandi. Ég hygg að það verði ekki til þess að bjarga á neinn hátt iðnaðinum að öðru leyti en því sem þessi 6% gengisfelling kemur honum að vísu í bili til einhverrar hjálpar. Ég held að það sé alveg ljóst að þó það sé nú verið að brjóta upp fjárlög og lánsfjárlög tveimur mánuðum eftir að gengið var frá þeim á hv. Alþingi muni varla líða langur tími þangað til það þurfi að brjóta þau upp á ný, ekki síst vegna þess að það er alveg sýnilegt að þeir kjarasamningar sem gerðir voru munu ekki fá samþykki þannig að öll kjaramálin eru í óvissu og þar af leiðir að erfitt er að spá í spilin.

Ég ætla mér ekki að fara svo nákvæmlega út í efnisatriði þessa frv. Það hefur verið gert af tveimur ræðumönnum sem hér hafa talað. Þó mun ég fara ofan í örfá atriði. En ég mun reyna að sýna fram á að við þá stöðu sem upp er komin er fastgengisstefnan ekki lengur fyrir hendi, það sjálfskaparvíti þeirrar ríkisstjórnar sem settist í valdastóla 8. júlí sl. Að vísu má kenna þeirri ríkisstjórn sem sat fram yfir kosningarnar um hluta af þessu og mun ég koma að því síðar.

Það hefur verið mikið rætt um það og hæstv. fjmrh. notaði nokkuð stóran hluta af sinni ræðu til að ræða um hlut sveitarfélaganna, þ.e. að hæstv. ríkisstjórn hefur horfið frá því að láta það frv. sem við höfum fjallað um um verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga taka gildi á þessu ári. Hann réttlætir það með því að það sé mikil óánægja og andstaða hjá mörgum þm. við þetta frv. eins og það er að svipta sveitarfélögin stórum hluta af því jöfnunargjaldi sem þeim ber samkvæmt lögum. Ég bendi hæstv. ráðherra á að það eru 2/3 af þessu gjaldi sem er útbýtt eftir höfðatölureglunni og ef ríkisstjórnin mundi vilja sýna einhvern þess vott að jafna aðstöðu sveitarfélaganna var vel hægt að breyta þessu ákvæði. Það verður heldur ekki hægt að réttlæta það að hverfa frá því að borga svona stóran hluta til sveitarfélaganna af lögbundnu gjaldi vegna þess að þetta frv. hafi strandað í þinginu, en það reyndi aldrei á það í þinginu. Það er rétt að það voru margir andvígir því. En hvers vegna voru þeir andvígir því? Hvers vegna, hæstv. ráðherra? Það var vegna þess að það voru ekki jöfn skipti. Það átti ekki að færa frá sveitarfélögunum eins mikið og átti að færa til sveitarfélaganna og sveitarstjórnarmenn um land allt treysta ekki þessari ríkisstjórn. Það er svo einfalt. Það var fyrst og fremst ástæðan. Ef því hefði verið treyst að staðið yrði við það sem um var rætt hygg ég að hefði komið allt annað upp á teninginn. En þannig er þetta því miður, enda var frv. breytt verulega frá því að sú nefnd sem gerði tillögur um þessa skiptingu skilaði því. Það varð til þess að auka þá tortryggni sem ríkir í garð þessarar ríkisstjórnar, enda eru svo mörg atriði, sem hún lofaði þegar hún settist á valdastóla, sem hún hefur ekki efnt og blátt áfram svikið.

Það er nú fátt í salnum og ég ætlaði að spyrja hæstv. heilbrmrh. að einu atriði sem kemur hér fram en er engin skýring á. Að vísu sagði hv. 4. þm. Norðurl. e. að það mundi eiga að hækka hlutdeild sjúklinga í kostnaði við sérfræðiþjónustu og lyfjakostnað frá því sem er, enda liggur það í augum uppi þegar á að taka 30 millj. af þeim lið miðað við þær tillögur sem hér liggja fyrir. Þar sem hæstv. heilbrmrh. er ekki hér beini ég þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Er það rétt skilið að það eigi að hækka gjald sjúklinga vegna sérfræðiþjónustu og lyfjakostnaðar frá því sem er til þess að brúa þetta bil, 30 millj.?

Það var sérkennileg umræða sem fór hér fram þegar tilkynning hæstv. ríkisstjórnar var á dagskrá um daginn. Þá lagði ég þá spurningu fyrir hæstv. félmrh. hvort það væri ekki rétt skilið um þær 100 millj., sem eru teknar af því sem ætlað var í Byggingarsjóð ríkisins, að þeim hefði verið lofað, þeim hefði verið ráðstafað. Ég sagði við hæstv. ráðherra að hún leiðrétti mig ef það væri rangur skilningur hjá mér. Að vísu vissi ég þetta. Ég var búinn að ræða við þá sem eru í húsnæðismálastjórn og þeir voru búnir að segja mér að það væri búið að ráðstafa öllu þessu fé. Ég hef einnig hlerað það, þó ég kæri mig ekki um hér og nú að nefna heimildarmann, að það hafi ekki einu sinni verið rætt um það við ráðherrann áður en ákveðið var að skerða þetta framlag um 100 millj. Þetta eru vinnubrögð sem ég veit hvernig eru í flokkunum, en það er langt gengið ef það er ekki einu sinni talað við ráðherrana sem eiga að fjalla um það mál áður en það er ákveðið.

Það verður að koma einhvers staðar niður þegar svona ráðstafanir eru gerðar, það vitum við, en hvernig stendur á því að þessi staða er komin upp? Það stendur þannig á því að ríkisstjórnin gekk á undan, gerði ráðstafanir til að minnka framboð á fjármagni og gerði blátt áfram sjálf ráðstafanir til að hækka vexti. Það gefur auga leið að útflutningsatvinnuvegirnir eiga erfitt að keppa ef þeir þurfa að borga af sínu fjármagni margfalt á við það sem er í samkeppnislöndunum.

Það var í apríl 1985 sem afurðalánin voru færð frá Seðlabankanum til viðskiptabankanna. Þá var bindiskyldan 28%. Áður hafði því verið haldið fram að bindiskyldan væri eingöngu til að standa undir þessum lánum. Þessi bindiskylda var lækkuð ofan í 18%. Í mars í fyrra, 1987, gaf sú ríkisstjórn sem þá sat að völdum fyrirmæli um að bankarnir ykju bindinguna um 10%, þ.e. í ríkisvíxlum og á reikningi í Seðlabankanum. Ef ég man rétt borgaði á þeim tíma Seðlabankinn 15% vexti af þessu fé til að byrja með. En 18% bindingin færðist niður í 13%, ég man ekki nákvæmlega hvenær, þannig að þá var bindingin orðin aftur 23%. Síðan gerist það að Seðlabankinn borgar enga vexti af þessum 13% heldur verðbætur og viðskipti Seðlabankans við viðskiptabankana eru þau að vaxtamunurinn verður rúmlega 2% meiri þess vegna en annars þyrfti að vera.

Þegar var komið fram í október á sl. ári var almenningi til viðbótar þessu gefinn kostur á að kaupa ríkisvíxla sem náttúrlega þýddi að það var verið að þrengja að bönkunum. Síðan gerist það 21. nóv. að ríkissjóður býður 39,6% ársávöxtun miðað við 90 daga víxla og tíu dögum seinna 41,3%. Þetta varð til þess að útflutningsatvinnuvegirnir og aðrir urðu að borga þessa vexti. Þetta varð blátt áfram til að magna verðbólguna þvert ofan í hagfræðikenningar hagspekinga og reynslu allra manna. Um leið og var farið þannig með útflutningsframleiðsluna kom strax krafa um að fella gengið. Og um leið og krafan kom um að fella gengið, og auðvitað þekkja menn þessa sögu, fóru að vaxa kaup á ýmsum tækjum, bílum og öðru sem hlaut að leiða af sér að gengið var sjálffallið. Sem sagt: sú staða sem upp kom í þjóðfélaginu er verk ríkisstjórnarinnar algerlega hreint.

Það voru miklar umræður á Alþingi út af þessum vöxtum og sumir menn höfðu stór orð. Utanrrh. lýsti því yfir að þetta væri svipað og þegar Róm brann og fleiri lýsingarorð voru notuð. Eftir þessa umræðu, sem fram fór, var loksins farið að þrýsta á banka að lækka vexti. Það er mikið sagt frá því í blöðum að það sé ekki lítil vaxtalækkunin. En hvernig er hún í raun og veru? Er það almenningur, sem hefur verið samið fyrir um kaup og kjör, sem hagnast? Nei. Þó ég geti ekki sagt nákvæmlega um hvernig hlutföllin eru í bönkunum hygg ég að það sé nálægt því að það séu 20% sem eru ekki verðtryggð af heildarútlánum. Almenningur á ekki kost á öðru en verðtryggðum bréfum með 91/2% vöxtum. Ef menn eru í vandræðum og verða að skuldbreyta verða menn að borga a.m.k. 111/2% og svo á gráa markaðnum langtum meira eftir því sem Seðlabankinn auglýsir í dag.

Hverjir eru vextir sem ríkissjóður býður nú? Þar er ársávöxtun 1. mars 34,36%.

Ég gat áðan um viðskiptin við Seðlabankann. Hann hækkaði, að mig minnir, úr 15%, sem var í mars, upp í 26 í ágúst. 21. febr. borgar hann af reikningum í Seðlabankanum, sem bankastofnanir eiga, 21% og núna 1. mars 19%. Ef viðskiptakjör bankanna við Seðlabankann væru eðlileg væri hægt að lækka vextina um meira en 2%. Ef þessi vaxtavitleysa heldur áfram gengur hvorki né rekur. Ég heyrði ekki betur en forsrh. segði á sínum tíma að það væri reiknað með 15% verðbólgu, en ríkisvíxlarnir eru með 34,36 á þessum degi. Ég held að það fari ekkert á milli mála að þessar tölur sýna að ráðherrarnir hafa sjálfir ekki trú á að náist niður þessi verðbólga. Þegar verðbólgunni var náð niður í tíð fyrrv. ríkisstjórnar var það m.a. og fyrst og fremst vegna þess að vextirnir voru látnir lækka miðað við spá um verðbólguþróunina eins og menn töldu að hún mundi verða. Nú er langt frá því.

Ég sé ekki betur en stefnan sé lík og hefur verið. Þrátt fyrir reynsluna virðast menn lítið hafa lært. Það er ekkert undarlegt, miðað við vexti, miðað við húsaleigu, miðað við verðlag í landinu, að fólk sætti sig ekki við 31 500 kr. í lágmarkslaun. Það er engin leið fyrir hæstv. ríkisstjórn að komast út úr þessu dæmi nema snúa sér að því að sýna eitthvert réttlæti. Á árinu 1988 sættir fólk sig ekki við að hafa ekki fyrir mat. Sæmileg útkoma hjá fólki hefur byggst á því að það hefur verið hægt að fá yfirvinnu eins og hver hefur viljað, en nú horfir þannig að vegna þess hvernig fyrirtækin standa muni verða minna um atvinnu en hefur verið.

Eins og hv. þm. vita stendur yfir búnaðarþing. Ég talaði við nokkra af þeim hér um kvöldið sem þar sitja. Þeir fóru í ferð hér í bænum og sögðust hafa heyrt að vísu að hér væri mikil þensla, miklar framkvæmdir, en þeir hefðu aldrei látið sér detta í hug að það væri neitt í samanburði við það sem þeir sæju þegar þeir ækju um borgina. Og þeir fóru að hafa orð á því að þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar töluðu um að það væri ein þjóð sem byggi í þessu landi kæmust þeir að annarri niðurstöðu með því að aka um þessa borg.

Það væri hægt að fara frekar ofan í þessi mál, en ég ætla ekki að gera það. Ég ætla aðeins að endurtaka það, af því að hæstv. bankamálaráðherra var að koma inn, að ég sagði áðan að staðan sem upp væri komin, þ.e. að nú væri búið að fella gengið sem var búið að marglofa að gera ekki, væri uppskeran vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur sáð á sínum ferli þó að eitt megi kenna fyrrv. stjórn um, þ.e. aukna bindingu í Seðlabankanum í mars 1987. Ég sagði, hæstv. ráðherra, að af því að vextirnir fóru svona upp, sem er fyrst og fremst vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, hafi samkeppnismöguleikar fyrir útflutningsframleiðsluna brostið og þess vegna hafi gengið verið fallið áður en það var viðurkennt. Af því að svona stóð töluðu sumir hv. þm. og ekki síður ráðherrar um á mannamótum að það yrði að fella gengið. Það orkaði þannig á þjóðina að hún fór að auka sín kaup. Það verkar, eins og hæstv. ráðherra veit, þannig að það er ekki hægt að koma í veg fyrir einhvers konar aðgerðir eins og ríkisstjórnin gerði nú. Því miður er ég hræddur um, ef ekki verða lækkaðir vextir nú eins og var gert í tíð fyrrv. ríkisstjórnar, þegar vextirnir voru lækkaðir miðað við spá efnahagsmálanna, hvernig þróunin yrði, að þá mundu verða fáir mánuðir þangað til yrði að rífa upp fjárlög í annað sinn. Ég held því að það sé eðlilegt hvernig staða mála er orðin. Ég veit nokkuð um hvernig staða ýmissa fyrirtækja í sjávarútvegi er og ef vextir verða ekki lækkaðir meira en orðið er verður mikill brestur í mörgum þessum fyrirtækjum.

Að endingu vil ég segja að í þessum fyrirhugðu breytingum er það að leggja skatt á stofnlánasjóðina sem auðvitað þýðir að þeir geta minna gert fyrir sína viðskiptamenn. Það kann að vera að hæstv. ráðherrum og stjórnarþm. finnist staðan vera þannig t.d. í landbúnaði að vextir þar megi hækka frá því sem er. En ég vil alvarlega vara þá við slíkri breytingu og a.m.k. að kynna sér hvernig staðan er áður en slíkt skref er stigið.