03.03.1988
Neðri deild: 65. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5472 í B-deild Alþingistíðinda. (3656)

317. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum 1988

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu óþarft að taka fram að við framsóknarmenn berum ábyrgð á þeim aðgerðum sem boðaðar eru í frv. sem er til umræðu í hv. deild, þ.e. að til þess að bæta starfsskilyrði útflutningsatvinnuveganna er að sjálfsögðu ljóst að ríkisstjórnin varð að grípa til aðgerða, þótt fyrr hefði verið, segja margir, þar sem við blasti geigvænlegt ástand og stöðvun þessara undirstöðugreina í okkar þjóðfélagi sem skapa þann grundvöll sem allt efnahagslíf þjóðarinnar byggir á. Þessu ætti að sjálfsögðu ekki að þurfa að lýsa hér, enda væntanlega öllum hv. alþm. ljóst.

Mér finnst ástæða til í þessu sambandi að lýsa því yfir hér að það kom greinilega í ljós í sambandi við umræður um vandamál atvinnuveganna á undanförnum vikum og mánuðum hvernig er orðið brenglað viðhorf almennings, og ekki aðeins almennings, eins og við tölum um venjulegt fólk, heldur einnig stjórnvalda og opinberra stofnana, til þessara undirstöðugreina í okkar þjóðfélagi. Það vakti oft furðu mína þegar maður hlustaði á viðtöl í fjölmiðlum og las greinar í blöðum hvernig þessi skoðun er orðin brengluð að mínu mati, að skynsamt fólk skuli ekki lengur átta sig á því á hverju þessi þjóð lifir og hvað það er sem leggur grunn að því velferðarþjóðfélagi sem við erum sjálfsagt öll, þessi blessuð þjóð, sammála um að þurfi að vera hér. Mér finnst nauðsynlegt að rifja þetta upp nú þegar við erum að ræða sérstaklega um aðgerðir sem eiga að gera að verkum að atvinnuvegirnir stöðvist ekki og þjóðin geti haldið áfram að lifa því lífi sem hún þarf miðað við að þær undirstöðugreinar geti starfað áfram.

Ég skal ekkert segja um hvort þessar aðgerðir nægja í þeim tilgangi sem á að nást með þeim, það verður tíminn að leiða í ljós, en að sjálfsögðu hef ég mínar efasemdir þar um.

Það voru aðallega tvö atriði sem urðu til þess að mér fannst nauðsynlegt að taka aðeins þátt í þessum umræðum í hv. deild og raunar var það hæstv. fjmrh. sem gaf mér tilefni til þess. En það eru einkum tvö atriði sem mér finnst ástæða til að koma aðeins inn á. Hið fyrra er skerðing á framlagi til byggingarsjóða ríkisins um 100 millj. kr. Ég ætla ekki að deila um réttmæti þessa við þessar aðstæður, enda orðið að þola og taka þátt í slíkum aðgerðum sem þátttakandi í ríkisstjórn fyrr, en ég vil láta í ljós þá skoðun mína að þessa skerðingu verður að taka af því fjármagni sem áætlað var til byggingar kaupleiguíbúða 1988 skv. lánsfjárlögum, þ.e. um 273 millj. kr. Að öðrum kosti yrði þessi skerðing bein riftun á þegar gerðum samningum Húsnæðisstofnunar ríkisins við fjölda húsbyggjenda sem eiga að fá þessi lán afgreidd á þessu ári. Á þetta bendi ég sérstaklega við þetta tækifæri og árétta að framkvæmd verði með þessum hætti til að forða óþægindum á þessu sviði sem eru sjálfsagt næg fyrir. Mér finnst ástæða til að undirstrika þetta atriði. Þetta á að vera vel hægt. Hvað sem líður afgreiðslu frv. sem nú er í höndum Alþingis er ljóst að þessi fjárhæð sem þarna er tilgreind í lánsfjárlögum og fjárlögum verður ekki nýtt að fullu á þessu ári og þess vegna er þarna möguleiki á að varast hitt slysið sem er hálfu verra.

Hitt atriðið sem ég vil gera hér að umræðuefni er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að fresta tilflutningi verkefna til sveitarfélaga samkvæmt frv. sem er til meðferðar hér á hv. Alþingi og taka til baka það fjármagn sem Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er ætlað vegna þessa sem er þó um leið að hluta til leiðrétting á lögformlegu framlagi til Jöfnunarsjóðs. Ég tel, og það er mín persónulega skoðun, vægast sagt að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé ekki rökrétt og í raun og veru algjörlega röng.

Ég vil í örfáum orðum leiða rök að því hvers vegna.

Í fyrsta lagi voru ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. búin að tilkynna sveitarfélögum formlega um verkefnatilflutninginn og framlög til Jöfnunarsjóðs í þessu skyni með framlagningu fjárlaga sem þegar hafa verið samþykkt hér á hv. Alþingi og hæstv. fjmrh., og raunar einnig hæstv. félmrh., undirstrikaði þetta rækilega á fjármálaráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga sl. haust og reyndar einnig á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga og þar bættust hæstv. forsrh. og hæstv. heilbrrh. í hóp þeirra ráðherra sem staðfestu þessa ákvörðun við fulltrúa sveitarstjórnarmanna. Flestallar sveitarstjórnir hér á landi hafa gengið frá sinni fjárhagsáætlun með þessa vissu um grunntölu Jöfnunarsjóðs 1988. Þrátt fyrir það að ekki var búið að ganga frá frv. sem hér er til meðferðar um verkefnatilflutning hafði það í raun og veru ekki bein áhrif á fjárhagsáætlanir sveitarfélaga ef þau á annað borð gátu treyst þeirri ákvörðun sem fjárlög bera með sér og þeim fullyrðingum sem komið hafa fram í samskiptum við sveitarfélögin frá hæstv. ráðherrum.

Það er mitt mat að ríkisstjórnin komi í bakið á sveitarfélögunum með þessari ákvörðun sem nú hefur verið tekin eða ætlast er til að verði samþykkt hér og verður sjálfsagt samþykkt hér á hv. Alþingi. Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar rýfur í einu vetfangi það nauðsynlega og formlega samstarf og trúnað sem hefur verið byggt upp með góðum árangri milli ríkisstjórna og sveitarfélaga og þar á ég að sjálfsögðu við þann samstarfssamning sem hefur verið í gildi um nokkurt skeið milli ríkisstjórnar annars vegar og Sambands ísl. sveitarfélaga hins vegar sem gerður var að finnskri fyrirmynd og gerir ráð fyrir gagnkvæmum trúnaði og beinum samskiptum um mikilvægustu mál er snerta ríkið annars vegar og sveitarfélögin öll í landinu hins vegar. Ég er ansi hræddur um að það muni taka alllangan tíma að byggja upp á ný trúverðug samskipti við sveitarfélögin. Því hlýt ég að lýsa miklum vonbrigðum með þessa þróun mála sem hér liggur fyrir.

Mér finnst ástæða til þess að minna hæstv. fjmrh. á varnaðarorð mín í umræðum um fjárlögin hér fyrr á þinginu í vetur varðandi einmitt þetta mál þar sem ég lagði áherslu á það að sveitarfélögin yrðu að geta treyst framhaldi þessara mála og framkvæmd í aðalatriðum. Það eru engin rök að vísa til óánægju sveitarstjórnarmanna gagnvart frv. um fyrsta áfanga í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem er hér til meðferðar á hv. Alþingi. Gagnrýni sveitarfélaga var ekki gegn tilflutningi verkefna heldur efasemdir um framhaldið og óánægja með val á verkefnum í fyrsta áfanga og fyrst og fremst um skort á tryggingu fyrir því að tekjustofnar þeirra nægðu fyrir auknum verkefnum. Jafnhliða breytingum á verkefnum, tilflutningi milli ríkis og sveitarfélaga, vilja sveitarfélögin almennt jafnframt fá að vita um þá breytingu sem stjórnvöld vilja gera á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem á að verða fyrst og fremst til að jafna aðstöðu sveitarfélaganna í landinu.

Ég get þess hér að það var búið að ná a.m.k. meirihlutasamkomulagi um afgreiðslu umrædds frv. hér á hv. Alþingi. Mestur tími fór í að sætta ágreining vegna þess að, eins og ég áður sagði, við val á verkefnum valdi ríkisstjórnin verkefnatilflutning sem snertir meira aðra aðila en sveitarfélögin sjálf og þar á ég sérstaklega við íþróttafélögin og samtök þeirra sem hafa verið með um 60–80% af styrkjum úr Íþróttasjóði. Um þetta var orðið samkomulag í meginatriðum svo að hægt var að afgreiða málið í heild. Félmn. Nd. sendi frv. til umsagnar til fjölmargra aðila og samtaka sveitarfélaga til að fá fram skýra afstöðu til þeirra deilna sem urðu um þetta mál hér í hv. deild. Ég get upplýst það hér að flestöll landshlutasamtök sveitarfélaga og fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga lýstu stuðningi við afgreiðslu málsins með breytingum sem fyrirhugaðar voru þó að ýmsar athugasemdir bærust jafnhliða, ekki síst um framhald málsins.

Það var því reiknað með að þetta fyrsta skref yrði stigið þótt breytt væri nokkuð frá fyrstu áformum hæstv. ríkisstjórnar og ég get ekki séð að hægt sé að færa þau rök fram að þessar breytingar eða mótmæli frá vissum aðilum hefðu átt að þurfa að verða til þess að hætt yrði við þetta verkefni því það þýddi einfaldlega aðeins það að uppgjörssjóður hefði þurft að lækka um 35 millj. kr. sem hefði færst aftur til ríkissjóðs. Hitt hefði gengið þá leið sem frv. gerði ráð fyrir í upphafi.

Þess vegna tel ég, og taldi ástæðu til þess að láta það koma hér fram, þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú vera mikið áfall, ekki síst fyrir framhald þessara mála um tilflutning verkefna og aukna sjálfsstjórn sveitarfélaga í landinu og þar með dreifingu valds og ábyrgðar til byggðanna.

Það er einnig alveg ljóst að fjárveitingar til þeirra verkefna sem flytja átti til sveitarfélaga samkvæmt frv. og ákvörðun við afgreiðslu fjárlaga verða mun lægri en þær hefðu orðið við venjulega afgreiðslu fjvn. þar sem fjárhæðin er nú bundin fyrir fram. Við tilfærslu verkefna koma að auki uppgjör að 1/4 hluta skuldar ríkissjóðs eða viðkomandi sjóða við verkefnin í gegnum uppgjörssjóð.

Fjvn. hækkar ávallt framkvæmdafjárlög við lokaafgreiðslu fjárlaga. Það er fastur liður þó að í mismunandi upphæðum sé er þetta yfirleitt sú venja sem hefur verið inni á hv. Alþingi. Miðað við fjárlög 1987 lækka því flest þessi framlög við þessar aðgerðir verulega. Ég nefni bæði íþróttastarfsemina, eða framlög úr Íþróttasjóði, vatnsveitur, félagsheimili og dagvistunarstofnanir. Það er mín skoðun að ríkisstjórnin hefði átt að leita annarra leiða. T.d. gat vel komið til greina að möguleiki hefði verið á því, þar sem ekki er um stærri fjárhæðir að ræða, að draga úr útgjöldum t.d. allra ráðuneytanna að einhverju leyti og sjálfsagt hefði verið hægt að finna möguleika á því ef vel hefði verið leitað að fá 100 millj. til viðbótar í ýmsum öðrum þáttum en einmitt þessum. En að taka til baka lögbundin framlög Jöfnunarsjóðs sem var búið að ákveða að leiðrétta að hluta miðað við gildandi lög og raska ekki með þessu ákvæðinu um fyrsta skref í verkatilflutningi ríkis og sveitarfélaga, það hefði sannarlega verið ástæða til að skoða það mál betur.

Ég vek einnig athygli á því að þetta kemur verst við minni sveitarfélögin í landinu og þar með landsbyggðina í heild en það hefur alls ekki afgerandi áhrif á framkvæmdagetu stærstu sveitarfélaganna eins og t.d. hér í Reykjavík. Þetta virkar því mjög lítið til að draga úr þenslu og mér finnst það skjóta dálítið skökku við að það var nefnt sem meginrök fyrir þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar að sveitarfélögin yrðu látin taka þátt í niðurskurði eða aðgerðum til þess að minnka þensluna með því að kippa til baka þessum aðgerðum.

Ég ítreka þá skoðun mína að það má ekki lengur dragast að gera raunhæfar aðgerðir til að flytja til verkefni milli ríkis og sveitarfélaga. Slík verkefnatilfærsla verður að byggja á að jafnhliða sé gengið frá breytingum á tekjustofnum sem er algjör forsenda þess að þetta verði framkvæmanlegt og framkvæmt. Það segir reynslan okkur sem höfum unnið að þessum málum eða tilraunum með þessi mál á undanförnum áratugum.

Ég legg höfuðáherslu á að lög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði endurskoðuð með það að markmiði að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði efldur og að hlutverk hans verði fyrst og fremst að jafna aðstöðu sveitarfélaga í landinu til að ráða við aukin verkefni og ekki hvað síst til að styrkja stöðu minni sveitarfélaga eins og ráðgert er í þeim tillögum sem kynntar voru úti um allt land á sl. ári. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga verði þar með raunverulega til að styrkja stöðu landsbyggðar og jafna búsetuskilyrðin í landinu. Þetta er höfuðatriði sem ég undirstrika við þessa umræðu því að mér virðist oft og tíðum að þetta vilji fara út og suður í þeim röksemdaflutningi sem menn hafa í sambandi við þessi mál.

En svo ég vitni í þær tillögur um samstarf og tilflutning verkefna ríkis og sveitarfélaga stendur hér í 1. kafla þessa álits, sem ég veit að hæstv. fjmrh. hefur sjálfsagt lesið vandlega, að fjárhagslegar forsendur þessara tillagna, sem tilgreindar eru í þessari bók eða þessu nál. og eru bæði um hvaða verkefni komi til greina að flytja á milli og eins um fjárhagslegt uppgjör varðandi það, fjárhagslegar forsendur númer eitt, eru að það er algjör forsenda fyrir tillögum þessarar nefndar að jafnhliða tilflutningi þeirra verkefna sem þær gera ráð fyrir fái sveitarfélögin auknar tekjur og/eða útgjöld þeirra verði minni þannig að staða þeirra í heild verði ekki lakari en nú er, einnig að jafna aðstöðu sveitarfélaganna með tilliti til tekjumöguleika og verkefna sem þau sinna. Eðlilegt er að ríkisvaldið bæti sveitarfélögum upp þennan mun og sú jöfnun gangi lengra en núverandi fyrirkomulag felur í sér. Nefndin leggur mikla áherslu á þessi atriði en telur það vera utan síns verksviðs að fjalla verulega um þau enda átti það að koma í framhaldinu. Og til að jafna aðstöðu sveitarfélaganna með tilliti til tekjumöguleika þeirra og útgjalda er nauðsynlegt að endurskoða hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Sveitarfélögin verða ávallt misjafnlega í stakk búin fjárhagslega til að standa undir þeim verkefnum sem gert er ráð fyrir að flytjist til þeirra samkvæmt tillögunum. Þessu verður að mæta með framlögum frá ríkinu sem eðlilegast er að beina í gegnum endurskoðaðan jöfnunarsjóð.

Mér þykir ástæða til þess að koma aðeins inn á það sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. fyrr í dag í sambandi við þetta mál. Þar lagði hann fram nýjan rökstuðning fyrir þessari aðgerð gagnvart Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða frestun á þessum verkefnatilflutningi sem var einvörðungu á þann veg að þessi ákvörðun hefði verið tekin vegna andstöðu, ekki aðeins sveitarfélaganna í landinu, heldur einnig t.d. í þingflokki Framsfl. Ég vil gjarnan fá tækifæri til að leiðrétta þetta því þetta er algjörlega rangt. Eins og ég lýsti hér áður var búið að fá viðhorf samtaka sveitarfélaga í landinu til frv. og undantekningarlítið vildu þau láta samþykkja frv. og ekki síst með þeim breytingum sem m.a. þingflokkur Framsfl. lagði til, að Íþróttasjóður varðandi íþróttafélögin og félagasamtök yrði tekinn út úr frv. Hann yrði áfram í íþróttalögum eins og þau eru í dag en að því er varðar sveitarfélögin yrði fært yfir á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég get einnig fullvissað hæstv. fjmrh. um það að þingflokkur framsóknarmanna var búinn að samþykkja það í einu hljóði að fylgja þessu frv. fram með þessari breytingu þannig að það er algjörlega rangt að halda því fram við þessar umræður að rökin fyrir þessari tilfærslu, að kippa til baka framlagi til sveitarfélaga upp á 260 millj., séu þessi. Sveitarfélögin í landinu vildu láta samþykkja frv. með þessari lagfæringu og það er hægt að lesa það út úr samþykkt fulltrúa sveitarfélaga og eins í samþykktum frá flestum landshlutasamtökum sveitarfélaga að undanskildum Austfjörðum sem vildu fresta málinu í heild.

Ég held að þess vegna sé ástæðulaust að vera að blanda þessu saman. Það er best að hafa bara sömu túlkun á þessum aðgerðum eins og kom fram við upphaf málsins. Það þurfti að leita ráða til að fá 260 millj. til þess að brúa það bil sem þurfti að brúa í þessu máli og sveitarfélögin yrðu þannig að taka þátt í því með þessari algjöru skerðingu á Jöfnunarsjóði ásamt með ríkissjóði. Það eru hin raunverulegu rök sem eru fyrir þessu máli og það er alveg óþarfi að ætla nú á síðara stigi að fara að blanda öðrum ástæðum inn í þetta mál. Það sem ég hef áhyggjur af er fyrst og fremst það ef þetta verður til þess að rjúfa það samstarf og þau sameiginlegu áform og yfirlýsingar sveitarfélaga og ríkisins áður að taka virkilega saman höndum um það að gera breytingar á í fyrsta lagi verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum þar á móti og á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem er meginmál og sjálfsagt eitt af stærri málum til þess að tryggja búsetu og koma í veg fyrir byggðaröskun hér í okkar landi. Það finnst mér áhyggjuefni ef þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar verður til þess.

Þess vegna vil ég enda mitt mál með því að óska eindregið eftir því að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin í heild og ég tala nú ekki um hæstv. forsrh., sem ætti í raun og veru að vera forsvarsmaður þessarar ákvörðunar sem lagði fram frv. um þennan fyrsta þátt í þessum verkefnatilflutningi hér á þessu þingi, geri virkilega heiðarlega tilraun til þess að ná aftur eðlilegu samstarfi við sveitarfélögin í landinu um þessi áform. Það er sjálfsagt, úr því sem komið er, eðlilegasta málsmeðferðin að ríkisstjórnin skipi milliþinganefnd fulltrúa flokkanna til að vinna að nýjum tillögum um verkefnaskiptingu og tekjustofna jafnhliða og þar með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í samstarfi við sveitarfélögin í landinu og leggi slíkar samkomulagstillögur fyrir næsta þing.

Ég hef forðast að minnast hér á endalok þess frv. sem liggur enn óafgreitt úti í félmn., en að sjálfsögðu mun félmn. fjalla um það mál núna mjög fljótlega og þá verður niðurstaða um það tilkynnt hér inni á hv. Alþingi.

Vegna þess að í umræðunum í dag kom fram gagnrýni á ríkisstjórnina og stjórnarflokkana í sambandi við vegamálin vil ég segja það sem mína skoðun, og ég held að hún sé nokkuð samhljóða því áliti sem bæði Vegagerðin og hæstv. samgrh. hefur, að þrátt fyrir þessa skerðingu á fjármagni til Vegagerðarinnar sem er boðuð á Vegagerðin inni hjá ríkissjóði umframtekjur af bensíngjaldi, bæði vegna ársins 1986 og 1987. Og að sjálfsögðu hlýtur Vegagerðin að hafa eftir sem áður, þrátt fyrir þessa skerðingu á vegafénu í ár, aðgang að því fjármagni og veitir ekki af miðað við þann öryggisventil í okkar strjálbýla landi sem vegamálin eru og ég ber engar áhyggjur í brjósti um það að neinn í ríkisstjórninni reyni að koma í veg fyrir að það fjármagn verði nýtt fyrir Vegagerðina eins og lög gera ráð fyrir.