08.03.1988
Neðri deild: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5602 í B-deild Alþingistíðinda. (3733)

322. mál, áfengisfræðsla

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er ástæða til að segja örfá orð um þetta frv. Hér er að sjálfsögðu hreyft miklu stórmáli er varðár áfengisfræðslu. Markmið frv. er að vinna að setningu laga sem byggi upp skipulega áfengisfræðslu til að draga úr því heilsutjóni sem misnotkun áfengis veldur. Þetta mál veldur að sjálfsögðu öllum hugsandi mönnum hugarangri og þykir ekki skila nógu miklum árangri.

Það er að vísu svo að það er haldið uppi áfengisvörnum í landinu, en þær eru e.t.v. ekki nógu markvissar. Hv. flm. minntist á áfengisvarnaráð. Síst má gleyma þeim aðilum sem í því vinna af brennandi hugsjón og bestu getu. En þrátt fyrir það sem gert er eykst áfengisneyslan ár frá ári og er það að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni. Það er talið að þarna þurfi meira forvarnastarf að koma til greina. Hins vegar sé starfi sem lýtur að eftirmeðferð mála nokkuð vel á veg komið hér á landi.

Það verður aldrei lögð of mikil áhersla á að allt fyrirbyggjandi starf í þessum efnum er nauðsynlegt því að betra er heilt en vel gróið. Þess vegna er fyllsta ástæða til að kanna og reyna að ryðja nýjar brautir í áfengisvarnafræðslu.

Í ákvæði til bráðabirgða er raunar vikið að því að það sé ekki ástæða til þess eins og nú er að fela ákvæði um áfengisvarnir í lögum um framleiðslu, dreifingu og sölu áfengis. Þannig er komist að orði í grg. um ákvæði til bráðabirgða Ég tel að þetta sé kannski ekki aðalatriði málsins. Það er meginatriði málsins að lagaákvæðin séu skýr og ákveðin og að þeim sé framfylgt. Að vísu hygg ég að það hafi reynst vel að taka saman og setja sérstök lög um tóbaksvarnir og þau hafi gefið góða raun. Við megum auðvitað ekki gleyma því að við þessi vandamál er alltaf verið að glíma. M.a. er talað um stjórnskipaða nefnd um áfengismál sem unnið hefur á vegum ríkisins og að sjálfsögðu hefur hún unnið gott starf.

En ég vil þó ekki gera of mikið úr því atriði að sérstök lög þurfi í þessum efnum heldur þarf miklu frekar að samræma hugmyndir þannig að það sé hægt að beina kröftum í eina átt og taka þar til skoðunar varnir gegn vímuefnum í heild því að vissulega er full þörf á því.

En hvað sem gert verður í þessum efnum vonum við að þetta frv. verði til nýrrar hvatningar til átaka á þessu sviði. En hvað sem tekst að gera er það þó tvímælalaust meginatriðið að sett verði góð löggjöf og þó enn frekar að vel sé fylgt fram ákvæðum gildandi laga á hverri tíð.