15.03.1988
Efri deild: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5763 í B-deild Alþingistíðinda. (3890)

365. mál, sveitarstjórnarlög

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986.

Á árinu 1986 samþykkti Alþingi ný sveitarstjórnarlög nr. 8/1986. Í þessum lögum er að finna mörg nýmæli, þar á meðal ákvæði 2. mgr. 10. gr. sent hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í kaupstöðum nefnist sveitarstjórn bæjarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins bæjarstjóri og byggðarráð sveitarstjórnar bæjarráð. Sama gildir í hreppum þar sem meiri hluti íbúanna býr í þéttbýli og íbúafjöldi hefur náð a.m.k. 1000 í þrjú ár samfellt og svo er kveðið á um í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins. Nefnist þá sveitarfélagið bær.“

Félmrn. hefur þegar staðfest fimm samþykktir sveitarfélaga sem nefnast bæir á grundvelli ofangreinds ákvæðis. Vegna þessa orðalags í lögunum þar sem sagt er „nefnist þá sveitarfélagið bær“ hafa komið fram efasemdir og óvissa ríkt hjá ofannefndum sveitarfélögum, þ.e. bæjum, hvaða réttindi og skyldur fylgja í kjölfar breytinga á heiti sveitarfélagsins og þá fyrst og fremst gagnvart sérlögum.

Þó að réttarstaða allra sveitarfélaga, hreppa, bæja og kaupstaða sé með fáeinum undantekningum hin sama samkvæmt gildandi sveitarstjórnarlögum er í ýmsum sérlögum gerður greinarmunur á hreppum annars vegar og kaupstöðum hins vegar. Því hefur sú spurning risið hvort slík ákvæði gildi um hina nýju bæi eða ekki.

Tilgangur nýmælisins í 2. mgr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 var að sérstök löggjöf um kaupstaðarréttindi einstakra sveitarfélaga yrði þar með óþörf, eins og segir í athugasemdum með því frv., en ekki sá að réttarstaða þeirra sveitarfélaga sem fengið hafa eða fá munu bæjarréttindi skv. 2. mgr. 10. gr. yrði önnur og síðri en þeirra kaupstaða sem slík réttindi öðluðust fyrir gildistöku sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Þar sem þessi tilgangur kemur ekki fram á ótvíræðan hátt í sjálfum lagatextanum þykir nauðsynlegt að leggja fram þetta frv. til að taka af öll tvímæli í þessum efnum. Samkvæmt frv. skal sveitarstjórn ákveða í samþykkt um stjórn sveitarfélags hvort það skuli nefnast bær eða kaupstaður. Þessi tvö heiti eru því hér með lögð að jöfnu.

Félmrn. hafa borist óskir frá bæjarstjórnum ýmissa kaupstaða um að mega nota meira orðið bær í stað kaupstaður í heiti sveitarfélagsins. Má þar nefna Akureyri, Ólafsfjörð, Vestmannaeyjar. Frá bæjarstjórn Garðakaupstaðar hefur borist formlegt erindi þess efnis að ráðuneytið beiti sér fyrir breytingu á 1. gr. laga nr. 83/1975, um kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi á þann veg að heiti sveitarfélagsins verði framvegis Garðabær en ekki Garðakaupstaður eins og ákvæði síðast greindra laga mæla fyrir um. Að athuguðu máli hefur ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að með því að leggja til breytingu á 2. mgr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga, þá opnist leið fyrir allar sveitarstjórnir sem uppfylla skilyrði ákvæðisins um lágmarksfjölda að ákveða sjálfar í samþykktum stjórnar sveitarfélagsins hvort orðið þær nota um heiti sveitarfélagsins, þ.e. kaupstaður eða bær. Réttarstaða allra kaupstaða og bæja mundi því ótvírætt með þessari lagabreytingu verða sú sama og gildir það jafnt um þá kaupstaði sem slík réttindi fengu með sérstökum lögum og urðu þá bæir og um þá sem slíka nafngift hafa fengið á grundvelli 2. mgr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.