16.03.1988
Neðri deild: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5823 í B-deild Alþingistíðinda. (3925)

351. mál, lágmarkslaun

Anna Ólafsdóttir Björnsson:

Herra forseti. Mál það sem hér er til umræðu, lögbinding 50 þús. kr. lágmarkslauna, er eina færa leiðin á þessari stundu úr stöðu sem við getum ekki við unað. Enn einu sinni hefur mistekist að rétta hlut hinna lægst launuðu í frjálsum kjarasamningum þrátt fyrir góðan vilja þeirra er stöðu í samningaviðræðum og létu ekki sitt eftir liggja. Vissulega er það íhugunarefni hvers vegna í ósköpunum svona fór. Við gætum áreiðanlega eytt miklum tíma og þreki í að reyna að skýra og skilgreina, en það lifir enginn á skýringum og skilgreiningum. Það verður að bregðast við og það strax.

Frv. sem hér er lagt fram er leið sem við kvennalistakonur bjóðum til að bregðast við ástandi sem er óþolandi. Ónothæfir samningar eru felldir víða um land. Enn einn mánuður í óvissu við óbærileg kjör fer í hönd hjá þeim sem eru að reyna að lifa á launum langt undir framfærslumörkum. Við verðum að grípa til aðgerða strax. Nógu oft höfum við beðið, vonað, trúað á góðan vilja, en til einskis. Við erum orðnar þreyttar á að bíða. Því er frv. Kvennalistans eina færa leiðin nú.

Síðan verðum við að grípa til aðgerða til að leysa þær hliðarverkanir sem óhjákvæmilega fylgja svo frumlegri, róttækri, en þarfri aðgerð. Ég er þess fullviss að ef frv. nær fram að ganga verður loksins hægt að fara að snúa sér að því að leysa þau vandamál sem spáð er að fylgi einhliða launahækkunum.

Helstu mótrök andstæðinga málflutnings okkar kvennalistakvenna eru að hækkanirnar muni hlaupa út í verðbólguna, aðgerðir þessar aðeins virka skamma hríð og síðan muni sækja í sama farið.

Í þáltill. Kvennalistans, sem lögð var fram í dag, er bent á að þetta sé fyrst og fremst afleiðing mikillar misskiptingar launa. Ef við þorum og viljum takast á við verðugt verkefni sem er að leiðrétta þetta misræmi er ég sannfærð um að við getum það.

Um það að hér sé verið að ganga á samningsréttinn segi ég aðeins: Mikið vildi ég að umhyggjan fyrir samningsréttinum, rétti þess að ákveða kaup og kjör í kjarasamningum, væri söm þegar verið er að skerða samninga sem náðst hafa með þrotlausri vinnu. Fitl við vísitölu og alls konar aðgerðir stjórnvalda hafa því miður oft valdið því að launafólk hefur ekki fengið umsamdar hækkanir. Hvar er þá virðingin fyrir samningsréttinum?

Þá er það stóra spurningin: Höfum við efni á að tryggja öllum lágmarkslaun sem nægja til framfærslu?

Ég veit það eitt að við höfum ekki efni á að kalla okkur sjálfstæða þjóð ef við þykjumst ekki hafa efni á því að tryggja efnahagslegt sjálfstæði allra. Og ég spyr: Höfum við yfirleitt efni á að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi hér á landi? Áreiðanlega ekki. En við gerum það samt. Við metum frelsi okkar sem þjóðar það mikils að við leysum þau mál sem þarf til þess að við getum verið frjáls þjóð.

En hvað með frelsi hvers og eins einstaklings? Jú, við tryggjum frelsi sumra, ekki allra. Að bera úr býtum kringum 30 þús. kr. á mánuði fyrir fulla vinnu er ekki að tryggja frelsi. Það er líkara þrælahaldi. Kannski má ég ekki nefna það orð í eyru ykkar sem hér hlustið, frjálsra Íslendinga, en ég geri það samt. Ég geri það vegna þess að það er staðreynd að við höfum hneppt hluta þjóðarinnar í þrældóm og við megum ekki blína á hversu stór sá hluti er. Við bara megum ekki gera þetta.

Ég ræði þetta vegna þess að ég vil ekki eiga aðild að þessu og ég er þakklát fyrir að fá að taka þátt í að reyna að bæta þarna um.

Nokkuð hefur verið talað um að ýmis fyrirtæki hafi ekki efni á að greiða 50 þús. kr. lágmarkslaun. Ég bendi á móti á það að það eru ekki eingöng illa stödd fyrirtæki sem greiða samkvæmt núgildandi lágmarkstöxtum, heldur einnig fyrirtæki sem skila góðum hagnaði, jafnvel milljarðafyrirtæki. Ég held að við verðum að leita annarra leiða til að hjálpa illa settum fyrirtækjum en að leyfa þeim að greiða laun sem ekki duga til framfærslu. Auk þess hefur margoft verið bent á að láglaunafólk neyðist til að vinna óhóflega langan vinnudag, þ.e. það sem á heiman gengt. Hver eru afköstin eftir þennan langa vinnudag? Væri ekki þjóðhagslega hagkvæmt að nýta vinnustundirnar betur en hafa þær færri? Ein leiðin og sú besta er að gera fólki kleift að lifa á launum 8 stunda vinnudags, 40 stunda vinnuviku.

Ég trúi því ekki að nokkur vinni óendanlega langa vinnuviku að gamni sínu einu. Þetta er óþolandi ástand sem við búum við. Við verðum að opna hug okkar því án skapandi hugsunar komumst við aldrei neitt áfram. Úrtölumenn hafa hamast á því svo nálgast vísvitandi innrætingu að telja okkur trú um að launabil sé fast, því verði ekki haggað, sérhver hækkun hlaupi upp allan launastigann.

Stigar eru af ýmsum gerðum, einnig launastigar. Sumir eru einfaldir rimlastigar, brattir en færanlegir, og þeim má meira að segja halla. Það eru yfirleitt bráðabirgðastigar, ætlaðir til að nota við frumstæðar aðstæður. Hvar stæðum við ef við hefðum aldrei endurbætt góðar hugmyndir? En við höfum sem betur fer gert það. Þess vegna eru til fleiri gerðir stiga. Er ekki kominn tími til að lagfæra launastigann? Flestir nothæfir stigar, byggðir úr varanlegum efnum, eru þannig að hlutfallið milli hæðar og lengdar er ekki meira en svo að þeir eru greiðfærir. Með meiri halla, þægilegri stiga, er rúm fyrir miklu fleiri en í bröttu stigunum án þess að þeir sem hæst klífa séu órahátt fyrir ofan þá sem í neðstu þrepunum standa. Í neðsta þrepi launastigans er nú fólk, aðallega konur, með 30 þús. kr. mánaðarlaun. Við skulum horfast í augu við það. Efst, órahátt, í efsta þrepinu, er fólk sem er með mörg hundruð þús. kr. laun. Mér þykir þessi stigi ansi brattur. Auk þess vita allir að það er langþægilegast að ganga stiga sem eru ekki of brattir. Menn lýjast síður að klifra upp slíka stiga en erfiða upp bratta eða jafnvel ókleifa stiga.

Við þurfum að laga launastigann að skynseminni. Við þurfum að koma neðsta þrepinu upp fyrir yfirborð jarðar. Hvers vegna að vera að grafa stiga í jörð? Líf á smánartöxtum er nefnilega ekkert annað en líf undir yfirborði jarðar. Og ekki nóg með það. Einhverjum þætti víst undarlegt ef farið væri að hengja í fólk alls kyns lóð þegar það leggur af stað upp stigann og stígur í neðstu tröppuna, lóð sem jafnvel eru svo þung að í rauninni væri viðkomandi ekki ætlað að komast nema í fyrstu, eina eða jafnvel tvær, tröppurnar. Þannig ætlumst við þó til að fólk í neðstu þrepum launastigans leggi upp. Lóðin sem ég er að tala um eru óhófleg vinna, álag og erfiðleikar.

Mér hefur orðið tíðrætt um launastigann vegna þess að ég held að í honum sé lausnin falin. Við kvennalistakonur höfum nefnilega alltaf bent á að með meiri jöfnuði má tryggja öllum mannsæmandi kjör. Ég endurtek enn og aftur: Launastiginn er of brattur.

Við stöndum frammi fyrir einfaldri ákvörðun. Við megum ekki einu sinni enn festast í tali um tæknilegar útfærslur. Við verðum að þora að taka af skarið. Við höfum þrautreynt að aðrar leiðir hafa enn ekki reynst færar. Þær hafa verið reyndar, margar, en enn stöndum við frammi fyrir þessari staðreynd, smánarstaðreynd, að við bjóðum ekki upp á mannsæmandi laun.

Það ætti ekki að þurfa að segja þessari þjóð enn einu sinni að vilji er allt sem þarf. Við getum tekið ákvörðun, hafnað staðnaðri hugsun, tekið á vandanum og í kjölfarið myndum við skapa nýja hugsun. Ég trúi því að hægt sé að breyta til. Meðan það er staðreynd að ætlast er til að fólk, a.m.k. konur, lifi á launum sem ekki duga til framfærslu verðum við að takast á við staðreyndir, ekki hugmyndir. Við getum ekki vikist undan því. Við getum ekki setið hjá. Við megum ekki festast í ónothæfum viðmiðunum. Við megum ekki leggja stein í götu framfara. Þegar önnur ráð bregðast, verður Alþingi að vera fært um að grípa í taumana og gæta hagsmuna þeirra sem enn og aftur hefur verið brotið á.

Nú er kominn tími til að skapa. Við skulum smíða nýjan launastiga.