17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5833 í B-deild Alþingistíðinda. (3931)

277. mál, þjónusta sjóða og fjármálastofnana

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kemur í máli hv. fyrirspyrjanda, að miklu skiptir að fjármálaþjónusta, þjónusta peningastofnana, sé sem aðgengilegust fyrir landsmenn alla og þróist með svipuðum hætti hvar sem er á landinu.

Í fsp. er vikið að ákvæðum í sáttmála núv. ríkisstjórnar. Það var tekin um það ákvörðun að ráðuneytin hvert fyrir sig mundu vinna að framgangi þessarar stefnuyfirlýsingar hvert á sínu sviði. Auk fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna eru það einkum Húsnæðisstofnun ríkisins, Byggðastofnun og Lánasjóður ísl. námsmanna sem koma til skoðunar í þessu falli.

Samkvæmt upplýsingum frá félmrn. var skipaður vinnuhópur á vegum félmrn. til að gera tillögur um þá kosti sem fyrir hendi eru um framtíðarskipan almenna húsnæðislánakerfisins. Hlutverk vinnuhópsins er að leggja mat á stöðu hins almenna húsnæðiskerfis og valkostum í endurskipulagningu þess, m.a. með því að flytja hluta af verkefnum Húsnæðisstofnunar ríkisins til bankakerfisins. Ráð var fyrir því gert að tillögur þessa hóps lægju fyrir í þessum mánuði. Núverandi tilhögun er sú að veðdeild Landsbanka Íslands sér um afgreiðslu lána og innheimtu þeirra, en greiðslurnar má inna af hendi í öllum bönkum og sparisjóðum.

Að því er varðar Byggðastofnun hefur orðið veruleg breyting á samskiptum Byggðastofnunar við lánastofnanir á síðasta ári. Þegar stofnunin hóf útgáfu verðtryggðra skuldabréfa, sem lífeyrissjóðir; aðallega lífeyrissjóðir á landsbyggðinni, hafa keypt, var farið að nota þessar stofnanir til að geyma reiðufé Byggðastofnunar og Byggðastofnun hefur þannig haft mjög gott samstarf við viðskiptabanka og sparisjóði á landsbyggðinni. Það er á hinn bóginn mat Byggðastofnunar að það sé verulegum erfiðleikum háð að fela bankastofnunum alla þjónustu stofnunarinnar, einkum að því er lýtur að útgáfu skuldabréfa, þar sem veðsetningar geta verið flóknar og vandasamar. Þannig hefur Byggðastofnun litið á þetta mál, en að verulegu leyti reynt að færa aukið fjármagn út í lánastofnanir landsbyggðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá menntmrn. eru hugmyndir um að flytja afgreiðslu og innheimtu námslána að einhverju eða öllu leyti til banka og annarra lánastofnana. Þessar hugmyndir hafa komið upp í viðræðum menntmrh. og formanns stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna um breytingar á þjónustu sjóðsins. Menntmrh. hefur lýst yfir áhuga sínum á málinu og óskað eftir því að það verði kannað frekar. Formaður stjórnar lánasjóðsins hefur unnið að athugunum á málinu og hyggst leita eftir umboði stjórnar til að hefja viðræður við banka og aðrar lánastofnanir um möguleika á slíkum tilflutningi verkefna frá lánasjóðnum.

Fyrrv. menntmrh. Sverrir Hermannsson fól tveimur mönnum að gera athugun á því með hvaða hætti bankastofnanir gætu tekið aukinn þátt í afgreiðslu námslána. Helstu niðurstöður þeirra voru að að uppfylltum ákveðnum skilyrðum gætu bankastofnanir komið í verulega auknum mæli að þessum verkefnum. Þessar athuganir verða lagðar til grundvallar því verki sem nú er að hefjast og miðar að því að færa þessa þjónustu í auknum mæli út til banka. Á þann veg er þessum málum nú komið að því er varðar þessar þrjár stofnanir.