17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5841 í B-deild Alþingistíðinda. (3939)

291. mál, tjón Norræna fjárfestingarbankans af gjaldþroti Kongsbergs Våpenfabrikk

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil að sjálfsögðu þakka svör hæstv. ráðherra. Það er alveg rétt að það er hvergi í samningum um bankann tekið fram að ríkisábyrgða skuli vera krafist. Það er þó jafnan gert þegar um er að ræða lán til Færeyinga, Grænlendinga, Íslendinga og annarra þeirra sem lán fá hjá bankanum.

Tap bankans kom ekki til vegna taps á þeim bifreiðahlutum sem um var að ræða, heldur vegna taps á eldflaugum sem ekki komust á markað. Sannleikurinn er sá að þetta lán hefði aldrei verið veitt nema nýtt hlutafélag hefði verið stofnað þar sem enn er nú ekki talið að vopnaverksmiðjur séu sameiginlegir hagsmunir Norðurlandaþjóða. En til þess að verkefni geti talist norrænt verkefni verða a.m.k. tvö norræn ríki að hafa þar hagsmuna að gæta.

Vopnaframleiðsla og vopnasala Norðmanna og Svía er blettur á samstarfi Norðurlandaþjóða sem hvað eftir annað hefur sett þá norrænu hugmyndafræði sem Norðurlandaráð byggir tilveru sína á í tortryggilega stöðu þegar upp hefur komist um sölu vopna til þjóða sem í ófriði áttu eða í átökum eiga. Ef við ætlum að vinna af heilum hug í samstarfi við norrænar þjóðir, og þá beini ég sérstaklega máli mínu til hæstv. samstarfsráðherra, þá eigum við að gera það með reisn og halda til haga okkar eigin hugmyndum um mannsæmandi þjóðfélög.

Ég get fallist á svör hæstv. dómsmrh. Auðvitað hafa Norðmenn ekki reynst í þessu leiða máli eins og norrænni þjóð sæmir og stjórn bankans e.t.v. ekki láandi þó að það kæmi á óvart. Hér er um enga fjárhagslega hagsmuni okkar Íslendinga að ræða. Og það er hárrétt að bankinn á ekki í neinum sérstökum erfiðleikum þó að hér sé um verulegt tap að ræða. Ég vil því í lok þessarar umræðu biðja báða hæstv. ráðherra að láta sér þessar ófarir að kenningu verða, hvor á sínum vettvangi, og upplýsingar um stöðu norrænna stofnana þurfa einnig að berast til hins háa Alþingis. Í norrænni samvinnu eiga engin leyndarmál heima. Þar eigum við að vinna heilt og heiðarlega og ég hef þegar lýst þessum sjónarmiðum mínum á þingi Norðurlandaráðs. Eftir situr að Norðmenn hafa brugðist hér illilega og norska Stórþingið. Það mega þeir gjarnan heyra og vita að við vitum það, en ég taldi nauðsynlegt að gera þetta mál að umræðuefni hér vegna þess að norræn samvinna og stofnanir Norðurlandaþjóða eru ekki einkamál okkar sem í Norðurlandaráði sitjum. Svo þakka ég hæstv. ráðherrum svörin.