17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5854 í B-deild Alþingistíðinda. (3961)

327. mál, grásleppuveiðar

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó þau væru ekki sérstaklega ánægjuleg, en ég veit að það er ekki honum að kenna. En það sem ég var fyrst og fremst að leita eftir með þessari fsp. var ekki endilega hvernig grásleppan yrði veidd eins og kom fram innskot um frá einum hv. þm. heldur hverjar markaðshorfur væru. Samkvæmt svörum hæstv. ráðherra eru þær ekki allt of bjartar þar sem innanlandsmarkaðurinn virðist ekki munu taka við miklu á þessu ári miðað við birgðastöðu og útlit á erlendum mörkuðum er á þann veg að það er ekkert sem bendir til þess að Kanadamenn muni draga saman veiðar og offramleiðsla er á heimsmarkaði. En ég tel mig hafa fengið svör frá hæstv. ráðherra sem eru fullnægjandi.