03.11.1987
Sameinað þing: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

38. mál, fræðsla um kynferðismál

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að gera örstutta athugasemd við þetta mál vegna þess að mér finnst illa að því staðið eins og reyndar verið hefur. Ef ég man rétt var lögð fram á þinginu í þinglok síðast íslensk heilbrigðisáætlun og þar var sérstaklega minnst á stefnumörkun í heilbrigðismálum í tengslum við fjárlög. Það var einnig sérstaklega minnst á mikilvægi forvarna í heilbrigðismálum til þess að forðast viðgerðarþjónustu á þeirri forsendu að betra væri heilt en vel gróið sem er meginstefnumark Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar núna. Það örlar ekki á stefnumótun í anda forvarna við gerð þessara fjárlaga. Ég hlýt að lýsa undrun og áhyggjum vegna slíkrar forgangsröðunar. Ég bendi hæstv. heilbrmrh. á að á Norðurlöndunum, nágrannalöndum okkar, þar sem veruleg áhersla hefur verið lögð á kynfræðslu á sl. árum, hefur ótímabærum þungunum unglingstelpna á aldrinum 15–19 ára fækkað verulega í kjölfar aukinnar kynfræðslu og þar af leiðandi einnig fóstureyðingum. Ég skora því á hæstv. ráðherra að berjast fyrir þessu máli við samráðherra í fjmrn. og fá aukið fé til kynfræðslu.