17.03.1988
Sameinað þing: 62. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5902 í B-deild Alþingistíðinda. (4023)

374. mál, valfrelsi til verðtryggingar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef nú hlustað á hv. 1. flm. flytja framsögu, mæla fyrir þremur málum í dag. Það sem ég var að hugsa fyrr í dag þegar hann flutti sín mál og það hvarflaði aftur að mér núna var að mér finnst eins og tilkoma hans hér í Alþingi, þó varamaður sé, hafi auðgað þingliðið verulega. Mér finnst þau mál sem hann hefur flutt vera málefnalega sterk og góð. Ég hef ekki kynnt mér það mál sem hér er mælt fyrir á þskj. 706, en fyrirsögnin segir að þar sé um valfrelsi til verðtryggingar að ræða eins og sést af skýringum sem fylgja. Mig minnir að prófessor Ólafur Jóhannesson hafi á sínum tíma flutt eitthvað líkt, þ.e. um valfrelsi verðtrygginga þó að það sé með öðrum rökum. Hann talaði þá um að hægt væri að velja á milli ákveðinna vaxta innan lands og þess að leggja fyrir eða tryggja sína fjármuni í erlendum reikningum.

Ég tel að þessi till. sé á margan hátt merk og harma það að svona fáir þm. skuli vera viðstaddir. Ég hefði ætlast til þess að miklar umræður yrðu um till. sem þessa. Það kæmi mér ekki á óvart að þessi till. reyndist við athugun betri en sú sem ég flutti um niðurfellingu á lánskjaravísitölu, kannski auðveldari í framkvæmd líka og auðveldará að ná samkomulagi um aðgerðir þannig að menn þyrftu ekki að standa frammi fyrir því að taka afstöðu annaðhvort með eða á móti heldur að ræða um lausn á málinu.

Ég hefði gjarnan viljað sjá svolitla orðalagsbreytingu á upphafi þessarar till., en þar segir, með leyfi forseta: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina“. Ég hefði viljað sjá: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni. En þetta er ábending til þeirrar nefndar sem hv. 1. flm. beinir till. til.

En vil endurtaka það alveg sérstaklega að mér finnst Alþingi hafa vaxið við tilkomu þessa hv. flm. þó til stutts tíma sé hér á Alþingi.