22.03.1988
Efri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5993 í B-deild Alþingistíðinda. (4070)

315. mál, grunnskóli

Sveinn G. Hálfdánarson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. flm. þessa frv. fyrir gott innlegg í skólaumræðuna sem mér sýnist vera stór þáttur á þessu þingi eins og oft vill verða. Ég vil lýsa því yfir að mér sýnast meginmarkmið þessara brtt. sem hér liggja fyrir vera samhljóða stefnumiðum Alþfl. og þeirri framtíðarsýn sem við jafnaðarmenn sjáum og óskum að fram komi í skólamálum. Hins vegar bendi ég á það að ekki hefur enn tekist að framfylgja núgildandi lögum um grunnskóla. Tel ég að það sé ekki síst vegna takmarkaðrar fjárhagslegrar getu okkar Íslendinga.

Hv. flm. setja sér það markmið að koma þessum breytingum á á næstu tveimur árum. Ég held að það hafi komið fram hér hjá hæstv. menntmrh. að framlag til skólabygginga væri 350 millj. kr. á þessu ári, en mér sýnist að ef við ætluðum að framfylgja þessum tillögum þeirra kvennalistakvenna þyrfti það framlag að tífaldast.

Eins og ég sagði áðan tel ég að þarna sé hreyft þörfu máli og það sé sjálfsagt og eðlilegt að Alþingi taki sér tíma að ræða þessi mái. Við þurfum að búa okkur til heildarstefnu í skólamálum sem ég tel að hafi alla tíð vantað. Við höfum verið að taka á ákveðnum þáttum fræðslumálanna alla tíð en aldrei mótað okkur heilsteypta stefnu.

Ég fagna orðum hæstv. menntmrh. hér áðan þess efnis að hann stefndi að því að leggja fram áætlun um skólabyggingar. Það tel ég þarfa áætlun ef fram kæmi og mundi fagna henni mjög.

Ég vildi sem sagt aðeins lýsa því hér yfir að ég tel þessar tillögur þeirra kvennalistakvenna í hæsta máta vel þess virði að ræða þær og ég vona svo sannarlega að við eigum eftir að lifa það að sjá þær koma til framkvæmda. En ég get ekki ímyndað mér að það verði á allra næstu árum.