22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6019 í B-deild Alþingistíðinda. (4091)

60. mál, iðnaðarlög

Frsm. 1. minni hl. iðnn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að við séum að endurtaka ræður okkar frá því í 1. umr., en ég kemst þó ekki hjá því að koma upp í ræðustólinn aftur til að bera til baka missagnir eða rangar ályktanir sem mér þóttu koma fram í máli hv. 5. þm. Reykv., fyrrv. iðnrh. og formanns Borgarafl., Alberts Guðmundssonar.

Afstaða mín mótast ekki af því að ég beri ekki fyllsta traust til núv. iðnrh. Ég bar líka fyllsta traust til hæstv. fyrrv. iðnrh. Alberts Guðmundssonar. Ég studdi þá báða og ber ábyrgð á þeim sem stuðningsmaður ríkisstjórnar. Það er útúrsnúningur að telja að þarna sé um eitthvert vantraust að ræða. Ég er hins vegar ekki alveg viss um að ég komi til með að styðja alla iðnaðarráðherra sem koma til með að vera í framtíðinni eða vilji taka ábyrgð á þeim eða þeirra gerðum.

Mér finnst að Alþingi geti sem hægast sett lög í hvert sinn sem henta þykir að útlendingar eigi meiri hluta í fyrirtækjum á Íslandi. Ekki teljum við eftir okkur að setja lög um sölu jarðeigna ríkisins. Það má ekki selja part úr jörð öðruvísi en það þurfi að samþykkja sérstök lög um það hér á Alþingi. Ég tel að það sé nokkur trygging fyrir vönduðum undirbúningi ef í hvert sinn eru sett sérlög þegar svona tilvik koma til.

Það er fjarri lagi líka hjá hv. 4. þm. Reykn. Kjartani Jóhannssyni þar sem hann er að gera mér upp ótta við útlendinga. Hér er um að ræða eðlilega fyrirhyggju. Ég vil ekki að löggjafarvaldið framselji vald að þessu leyti til framkvæmdarvaldsins þar sem ég tel heppilegra að þetta vald sé hjá Alþingi.

Það liggur ljóst fyrir að það var ágreiningur og er um þetta mál innan þingflokks framsóknarmanna. Við samþykktum að iðnrh. fengi að leggja þetta mál fram sem stjfrv., en einstakir þm. flokksins hefðu óbundnar hendur í málinu. Það þarf ekki að koma iðnrh. eða öðrum þm. né heldur hv. fyrrv. iðnrh., 5. þm. Reykv., nokkurn skapaðan hlut á óvart.