22.03.1988
Neðri deild: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6039 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

293. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er að vísu rétt að búið er að segja flest það sem segja þarf í þessum umræðum enda mun ég ekki nú hafa langt mál þar um. Ég vil þó vekja athygli á nokkrum atriðum væntanlega í lok þeirrar umræðu sem um þetta mál er. Það kemur í ljós að fjöldi drykkjusjúkra er í réttu hlutfalli við neysluna. Eftir því sem neyslan er meiri, eftir því er prósentutalan hærri. Í nál. minni hl. kemur t.d. fram að Bandaríkjamenn drekka 8,3 lítra á íbúa og drykkjusýkin er þar 6,5–8%. Í Svíþjóð er neyslan 5,6, drykkjusýkin þar er 3,1%. En hér á landi er talið að heildarneyslan sé 10,2% en þar eru drykkjusjúkir taldir vera 1,8. Þó að þessi tala sé ekki hærri en ég nefndi finnst okkur vera nóg af drykkjusjúkum í landinu og meira en það. Ég held að við getum verið sammála um það að það er í flestum fjölskyldum sem upp hafa komið slík vandamál með þeim afleiðingum að það er þyngra en tárum taki.

Í skýrslu sem ég hef undir höndum eru nokkurs konar punktar úr skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um áfengisvandamál. Hún var lögð fram á 62. fundi stjórnar WHO 1979. Liðirnir eru 14, þetta er örstutt í sjálfu sér. Þeir eru á þessa leið, með leyfi forseta:

1. Óhætt er að fullyrða að þörf er baráttu gegn áfengisvandanum.

2. Þó að drykkjusýki sé alvarlegt vandamál, sem gefa ber gaum, er hún aðeins lítið brot af þeim vanda sem áfengisneysla veldur.

3. Tengsl áfengis og afbrota, einkum ofbeldisglæpa, eru augljós.

4. Fjárhagslegt tjón af völdum áfengisneyslu mun vera gífurlegt í mörgum löndum, í Bandaríkjunum t.d. 25 milljarðar dala.

5. Áfengisvandamál fara vaxandi víða um heim, ekki síst í þróunarlöndum.

6. Raunverð áfengis hefur farið lækkandi í flestum löndum á sama tíma sem tekjur manna hafa aukist.

7. Á árunum 1964–1972 jókst vínframleiðsla í heiminum um 20%, brennivínsframleiðslan um 60%, ölgerð um 80%, áfengisneysla jókst um 30–500%. Alþjóðleg fyrirtæki sem beita háþróaðri tækni við framleiðsluna hafa staðið fyrir þessari aukningu.

8. Áfengisneysla er víða tákn um frama og velgengni og áfengi er auðfengið deyfandi efni.

9. Afleiðingar áfengisdrykkju bitna þunglega á heilbrigðisþjónustunni. Fórnarlömb ölvunar í umferð, áfloga og drukkinna manna hrannast inn á slysadeildir og skurðstofur. Lifrarsjúklingar liggja í sjúkrarúmunum og vaka þarf yfir sjúklingum með áfengisæði. Þetta veldur auknu álagi á stofnanir sem hafa allt of mikið á sinni könnu.

10. Til lítils væri ef ekkert væri hægt að gera nema lýsa því sem nú er vitað um áfengisvandann. Benda þarf á nauðsyn varna og hjálparstarfs.

11. Ljós tengsl eru milli heildarneyslu áfengis og tjóns af völdum neyslunnar. Þessi staðreynd gengur þvert á þá venjubundnu skoðun að drykkjusýki sé eiginleiki ákveðinna einstaklinga en ekki vandamál sem tengt sé því hversu mikið sé drukkið. Þessi tengsl benda á að með því að draga úr áfengisneyslu megi minnka tjónið sem hún veldur verulega.

12. Meðal tiltækra ráða til að draga úr áfengisneyslu eða a.m.k. að koma í veg fyrir aukningu hennar má nefna:

a. Hækkun áfengisverðs svo að það fylgi a.m.k. verðbólgu og auknum tekjum.

b. Kvótakerfi á framleiðslu.

c. Innflutningseftirlit.

d. Fækkun sölu- og veitingastaða.

Í löndum þar sem ekki er auðvelt að komast yfir áfengi og lífsviðhorf andstætt drykkjuskap getur algert áfengisbann verið hagkvæmt.

13. Fræðslu er þörf til þess að skýra fyrir fólki nauðsyn áfengismálastefnu sem beinist að því að draga úr áfengisböli með forvarnaaðgerðum.

14. Fráleitt er að telja möguleikana á að minnka áfengistjón skýjaborgir einar. Það sem skortir er pólitískur vilji til að fara þær leiðir sem stuðla að minni drykkju.

Þetta er yfirlýsing sem 62 fulltrúar þjóða leggja fram.

Það er dálítið athyglisvert ef Alþingi Íslendinga verður eina þjóðin sem stígur skref í öfuga átt við tilmæli heilbrigðisstofnunarinnar um það að gera ráðstafanir til að draga úr áfengisneyslu fyrir árið 2000. Þetta hlýtur að vekja umhugsun um hvernig mál standa hér. Það má segja að það hafi verið annað mál hér sem ég vil kalla hálfgerða plágu. Það má segja að þetta sé annað málið sem við fjöllum um sem gæti hlotist af mikið böl fyrir íslenska þjóð í framtíðinni ef frv. verður að lögum á þessu þingi.

Það sem kom fram hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur áðan, að hér hefði forseta Sþ. verið afhent skjal undirritað af 138 læknum sem eru heilsugæslulæknar og fyrst og fremst læknar sem þekkja þessi vandamál, hlýtur að vera verulegt innlegg í þetta mál. Ég vil ekki trúa þeirri könnun sem DV stóð að og birti þar sem fram kom að það mundi vera 1/3 af þingmönnum sem væru andstæðir þessu frv., það væru um eða yfir 40 sem væru því meðmæltir. Ég trúi því ekki að ógæfa okkar þjóðar sé það mikil að frv. verði samþykkt.

Ég læt máli mínu lokið að sinni.