24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6116 í B-deild Alþingistíðinda. (4181)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég hlýt að gera athugasemdir við fundarstjórn. Ég bað um orðið í upphafi þessarar umræðu um leið og opnað var fyrir það. Mér er tjáð að ég sé þriðji eða fjórði á mælendaskránni eða fimmti, ég veit það ekki. Ég óska eftir að það verði upplýst með hvaða hætti slíkt gerist hér í umræðum að menn eru teknir inn á mælendaskrá áður en opnað er fyrir umræðu að því er virðist. En þetta er kannski ekki aðalatriðið ef tími er hér til að ræða málin. Aðalatriðið er það hvernig hæstv. ráðherra kemur inn í þessa umræðu, en honum er hleypt inn í þessa umræðu. Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við að hæstv. ráðherra komi á eftir frsm. þessa máls þó að hann tali í 20 mínútur eða 25 mínútur þegar þingsköp gera ráð fyrir 8 mínútum. Það er ágætt að hæstv. ráðherra tjái sig og við hljótum að fá sama ræðutíma í þessum umræðum, þingmenn, og hæstv. ráðherra. g óska eftir að það verði upplýst hversu lengi ráðherrann talaði hér.

Síðan kemur upp hv. þm. Ég veit ekki hvernig hann var tekinn inn á mælendaskrá á undan mér í þessu máli, en það er ekki aðalatriði. En síðan kemur hæstv. ráðherra inn í umræðuna. Ég hef ekki orðið var við svona tilhögun mála hér. Mér finnst þetta vera gagnrýnisvert varðandi fundarstjórn og einnig að hæstv. ráðherra skuli vilja haga sínum málflutningi og innkomu í þetta mál með þessum hætti. Mér er það alveg óskiljanlegt. Það er vonandi það að hæstv. ráðherra ætli að vera í þinginu meðan umræðan fer fram, en hann hefur þegar notað rétt sinn til ræðutíma og vel það. Hvernig ætlar ráðherrann að bregðast við fyrirspurnum þingmanna og athugasemdum varðandi þetta mál, því sem kann að verða beint til hans síðar í þessari umræðu, eftir að hann er búinn að tala sig hér dauðan?

Ég óska eftir að forsetar þingsins beri sig saman um þessi efni og ég mótmæli þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð í sambandi við þetta og óska eftir því að það verði einnig upplýst hvernig raðað er hér á mælendaskrána.