03.11.1987
Sameinað þing: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

46. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 46, um framtíðarskipan kennaramenntunar. Till. er flutt af mér og fjórum öðrum hv. þm. Alþb. Efni hennar er svofellt, með leyfi virðulegs forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta endurskoða inntak og skipan kennaramenntunar fyrir grunnskóla- og framhaldsskólastig.

Í þessu skyni verði sett á fót nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins með fulltrúum frá samtökum kennara og stofnunum sem annast kennaramenntun. Nefndin fjalli m. a. um

1. hvernig best verði hagað innbyrðis tengslum menntastofnana fyrir kennara og framtíðaruppbyggingu þeirra, bæði til skemmri og lengri tíma,

2. hvernig tryggð verði nauðsynleg endurnýjun og endurskoðun einstakra greina í kennaranámi,

3. hvernig tengja megi nám í uppeldis- og kennslufræðum námi í væntanlegum kennslugreinum kennaraefna,

4. hvaða leiðir séu vænlegastar til að tryggja endurmenntun og starfstengda framhaldsmenntun kennara og skólastjóra, svo og menntun annarra starfsmanna í skólakerfinu, og hvernig best verði séð fyrir þörfum landsbyggðarinnar í þessu tilliti,

5. hvert eigi að vera hlutverk kennaramenntunarstofnana í skólaþróun og nýbreytni í starfi skólanna,

6. hvernig bæta megi úr skorti á fræðilegum upplýsingum um þróun skólakerfisins og tengsl þess við samfélagið og hvernig tryggja megi nauðsynlegar rannsóknir á þessum efnum,

7. hvaða breytingar er æskilegt að gera á gildandi lögum og reglugerðum til að ná þeim markmiðum sem nefndin gerir tillögur um.

Liður í störfum nefndarinnar verði að afla vitneskju um hvernig háttað er kennaramenntun erlendis, einkum í löndum OECD.

Nefndinni verði séð fyrir starfsliði og starfsaðstöðu og við það miðað að hún skili áliti fyrir 1. mars 1989.

Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Í grg. með þessari till., sem lögð var fram seint á síðasta þingi og rétt komst til nefndar, er að finna yfirlit um núverandi skipan kennaramenntunar þar sem rakið er m.a. að engin heildarlöggjöf er til um kennaramenntun á Íslandi og hver menntastofnun kennara starfar eftir sérstökum lögum. Allmörgum stofnunum er ætlað að sinna menntun kennara fyrir grunn- og framhaldsskólastig. Það er síðan rakið í grg. hvernig þessum málum er háttað við núverandi aðstæður, einnig varðandi endurmenntun kennara, sem er allsendis ónóg, og varðandi framhaldsmenntun, en þar birtist ástandið m.a. í því að ekki gefst kostur á því fyrir kennara að stunda hér á landi skipulegt framhaldsnám sem leiðir til magistersgráðu á sviði uppeldis- og kennslufræða.

Í grg. eru einnig raktar tilraunir til endurskoðunar laga varðandi kennaramenntun. M.a. er bent á þá staðreynd að frv. til nýrra laga um Kennaraháskólann var lagt fyrir 98. löggjafarþing fyrir 10 árum síðan, og síðan aftur ári seinna fyrir Alþingi, en varð ekki að lögum. Síðan hefur Alþingi í rauninni aldrei tekið á menntunarmálum kennara eða stöðu þeirra stofnana sem ætlað er að rækja menntun þeirra.

Í grg. er bent á ýmis álitamál sem upp hljóta að koma við endurskoðun á þessum málum og varðandi framtíðarskipan kennaramenntunar. Í framhaldi af því er að finna í grg. sundurliðaðar ábendingar varðandi verkefni nefndarinnar, varðandi hlutverk kennarans, umfang og uppbyggingu náms í kennslugreinum, tengsl kennslufræða og einstakra kennslugreina, tengsl fræðilegs og hagnýts náms, um kennaramenntun og nýbreytni í skólastarfi, um æfinga- og tilraunaskóla, um tengsl Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, um rannsóknir, þar á meðal um skólarannsóknir. Þá er í grg. einnig fjallað um grunnmenntun, framhaldsmenntun, endurmenntun og símenntun kennara, um vísindalega þjálfun þeirra, um fagmennsku og um stofnanirnar sem annast eiga kennaramenntunina.

Þar sem ég hef áður mælt fyrir þessari till. í nokkuð ítarlegu máli á síðasta þingi ætla ég ekki að dvelja lengi við efnisþætti till., en ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að vitna hér í skýrslu sem getið er um í tillögutextanum frá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, en sú skýrsla liggur nú fyrir í íslenskri þýðingu. Hún kom út fyrir 11/2–2 árum síðan að mig minnir. Eftir að hvatt hafði verið til þess og spurt um það hér á síðasta Alþingi hefur það ánægjulega gerst að menntmrn. hefur nú gengið frá íslenskri þýðingu af þessari umsögn þeirra aðila sem til voru kvaddir af OECD til að líta á menntastefnuna á Íslandi. Þar er fjallað allítarlega um stöðu kennara og aðstöðu þeirra og ég vil leyfa mér að nota tíma minn til þess að grípa aðeins niður í þeim þætti. Þar segir m.a.:

„Í mörgum aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar eru yfirvöld menntamála þeirrar skoðunar að lykillinn að faglegri þjálfun kennara sé stöðug endurmenntun. Með endurmenntun má einnig festa í kennarastarfi hæft fólk sem, eins og algengt er á Íslandi, hefur hafið kennslu án tilskilinna réttinda þegar þörf var á kennurum. Nokkur endurmenntun fer fram við Kennaraháskólann, einkum stutt sumarnámskeið. Þá er verið að skipuleggja viðamikið B.A.-nám fyrir kennara sem þegar hafa aflað sér réttinda og reynslu í starfi. Þetta nám var upphaflega einungis ætlað kennurum þeirra barna sem þurftu á sérkennslu að halda, en virðist nú hafa þróast yfir í almennt nám þar sem ákveðin sjónarmið um notkun uppeldisfræðinnar í kennslu eru sett fram.“

Síðar segir: „Kennarastarfið sem slíkt er í lægð. Okkur var tjáð að mikill meiri hluti þeirra sem ljúka kennaraprófi eða allt að 70% hæfu annaðhvort aldrei kennslustörf eða hyrfu fljótlega frá þeim í aðra vinnu. Í flestum skólum eru stöðug mannaskipti og upp á síðkastið hefur umsóknum um nám við Kennaraháskólann fækkað.

Mikill meiri hluti kennara virðist vinna of mikið, bæði með því að taka að sér yfirvinnu í skólanum og vinnu utan skólans til að auka tekjur sínar. Þetta verður til þess að þeir hafa lítil tækifæri eða þrek til að sinna kennslustarfinu vel og líta því á það sem hvert annað brauðstrit.

Innan skólans vantar allt sem heitir metorðastigi svo kennarar eiga litla möguleika á því að hækka í tign. Þetta slævir metnað til að bæta sig í starfi og mennta sig frekar. Of margir kennarar eru í hlutastarfi og sinna þar af leiðandi ekki starfinu af fullri athygli og þrótti.

Þessar kringumstæður valda því“, segir í þessari umsögn Efnahags- og framfarastofnunarinnar, „að mikið af þeirri framsýni og metnaði sem lögð er í kennaramenntunina fara forgörðum. Nýjar aðferðir og starfshættir sem þróast við Kennaraháskólann komast sjaldan til skólanna vegna þess að margir nýútskrifaðir kennarar koma ekki þangað til starfa eða hætta fljótlega kennslu. Þar að auki er fjöldi kennara sem ekki hafa lært nútímakennsluaðferðir. Þegar við þetta bætist ófullnægjandi aðstaða og húsnæðisvandi, ónóg hvatning og eftirlit af hálfu hins opinbera og einangrun sveitaskólanna, er erfitt að láta sögusagnir um slæman starfsanda meðal kennara sem vind um eyru þjóta. Höfuðvandinn er þó eflaust sá“, segir hér enn fremur, „að kennarar fá litla umbun fyrir störf sín og önnur viðurkenning er lítil, sama á hvaða skólastigi er kennt. Lág laun kennara og eins reglur um launagreiðslur til þeirra eru gott dæmi um íslenska jafnréttisstefnu sem skipar kennslustörfum á bekk með hverri annarri venjulegri vinnu“, segir þar.

Að lokum vitna ég í stuttan kafla þar sem segir: „Virðingarleysið við kennarastéttina á e.t.v. síður rætur að rekja til jafnréttis innan þjóðfélags en til þess djúpstæða viðhorfs að til þess að geta kennt þurfi ekki annað en brjóstvitið. Börnum hafi til skamms tíma verið kennt heima og kennarastarfið krefjist ekki sérstakrar menntunar. Í þessu sambandi má nefna grein í útbreiddasta dagblaði landsins (Morgunblaðinu) þann 22. febr. 1986, þar sem blaðamaðurinn hélt því fram að menntun kennara hefði ekki áhrif á árangur þeirra í starfi. Hér er í raun verið að viðra þá útbreiddu skoðun að andlegur þroski fólks og menning þess séu ekki háð gæðum skólanna eða tilvist þeirra. Þetta viðhorf skapaðist meðan foreldrar voru enn heima hjá börnum sínum og áður en Ísland gerðist þátttakandi í hagkerfi nútímans. Slíkt viðhorf gagnvart kennarastéttinni má ekki ríkja á tímum þar sem kennarar verði bæði að koma í stað foreldra og auk þess að miðla hinni gífurlegu færni sem komandi kynslóðir þurfa að tileinka sér. Að öðrum kosti getur svo farið að kennsla í skólum vinni íslenskri menningu tjón.

Til þess að kennarastéttin öðlist virðingu þarf á Íslandi sem annars staðar að ráðast að vandanum úr tveimur áttum. Samfélagið verður að læra að meta gildi menntunar og menntunin verður að batna til þess að standa undir aukinni virðingu. Það fyrsta sem kennarar á öllum skólastigum geta gert undir forustu Háskólans, menntamálaráðuneytisins og kennarasamtakanna er að hefja baráttu fyrir aukinni starfsmenntun.“

Þetta var tilvitnun í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar í þýðingu menntmrn.

Ég nefni það hér að þegar mál þetta var rætt í Sþ. 3. febr. sl. talaði hæstv. þáv. menntmrh., Sverrir Hermannsson, og tók mjög undir nauðsyn þess að tekið yrði á þeim málum sem um er fjallað í þessari till. og fór um hana góðum orðum. Hann vék að því þar að ráðuneytið hefði fengið Þórólf Þórlindsson úr félagsvísindadeild Háskólans að gera fyrir sig úttekt á Kennaraháskólanum og maður verður að ætla að einhver vinna sé í gangi á vegum menntmrn. í sambandi við málefni Kennaraháskólans. En eftir stendur það engu að síður að brýn nauðsyn er á að taka á framtíðarskipan kennaramenntunar, þar á meðal samvinnu þeirra stofnana sem ætlað er að mennta kennara.

Það þykir kannski í nokkuð ráðist að skipa nefnd af því tagi sem hér er lagt til og ætla henni starfslið og starfsaðstöðu. Ég tel hins vegar að það sé í rauninni alveg brýnt. Hér er um það stórt og vandasamt verk að ræða að það skiptir afar miklu að vel takist til. Það er æskilegt að hafa þessa nefnd sjálfa ekki fjölmenna, og nefni ég fimm til sjö manns sem eðlileg mörk í því efni, en þeim mun nauðsynlegra er að nefndin geti haft gott samstarf og samráð við þá sem mál þetta varðar einkum, stofnanir, samtök og einstaklinga. Það verður ekki gert svo vit sé í nema nefndinni verði búin góð skilyrði til starfa af hálfu menntmrn.

Gert er ráð fyrir því að nefndin fái um það bil eitt ár til starfa með þeirri aðstöðu sem hér er lagt til í till. þannig að við höfum undir höndum álitsgerð hennar þegar kemur fram á árið 1989 til þess að geta tekið vel á þessum málum með viðeigandi undirbúningi.

Ég legg svo til, virðulegur forseti, að eftir að umræðu um þetta mál hefur verið frestað verði málinu vísað til hv. félmn. þingsins.