24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6147 í B-deild Alþingistíðinda. (4204)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil enn á ný þakka fyrir þá umræðu sem hér er búin að standa nokkuð lengi um mál sem brennur að sjálfsögðu, eins og hér hefur komið fram, á stórum hluta landsbyggðarfólks og er raunar eitt af stærstu byggðamálunum í dag, það er enginn vafi á því. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég lýsi fyllsta trausti til iðnrh. og á væntanlegar aðgerðir ríkisstjórnar í þessu máli, enda hefðum við hagað tillöguflutningnum öðruvísi ef svo væri ekki.

En hitt er annað mál að það var í stöðunni brýn nauðsyn á að skerpa línur í þessu máli. Eins og ég sagði í fyrri ræðu er þetta eitt af heitari málum í okkar þingflokki og við munum ekki una því að það verði ekki gerðar ráðstafanir sem stefna í þá átt, sem hér hefur verið til umræðu, að jafna þann mikla mismun landsbyggðarinnar sem við blasir í dag með auknum þunga eins og hér hefur komið fram að við ætlum að ná fram.

Það er hreinn útúrsnúningur, eins og hér hefur komið fram, að lesa út úr tillögunni að við séum að koma í veg fyrir tafarlausar aðgerðir. Við ætlumst til tafarlausra aðgerða, en við erum svo raunsæir að við vitum að hvað sem ríkisstjórnin kann að gera núna milli fjárlagagerðar verður að staðfestast í næstu fjárlagagerð fyrir árið 1989, það er alveg ljóst, hvað sem verður gert. En það kemur ekki í veg fyrir að við ætlumst til að ráðstafanir séu gerðar núna strax.

Ég vil endurtaka að þó að umræður hafi verið um með hvaða hætti þessi þriggja manna embættismannanefnd hafi verið skipuð er það ekki aðalmálið. Hins vegar er dálítið merkilegt að sá þriðji í þessari nefnd er fulltrúi Framsfl. þegar hitt eru fulltrúar ráðuneytanna. Einhver valdamaður í Framsfl. á að hafa tilnefnt þennan mann eða samþykkt hann. En það var ekki borið undir þingflokk og kom aldrei þaðan. En við berum fyllsta traust til aðilans fyrir því og ég vænti þess að starf nefndarinnar verði jákvætt. Þessi útskýring hæstv. ráðherra á þriðja fulltrúa í þessari nefnd sannar ljóslega þann þunga sem við framsóknarmenn leggjum á viðunandi lausn þessa máls.