24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6149 í B-deild Alþingistíðinda. (4207)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um launajöfnun, lágmarkslaun og nýja launastefnu. Þetta er 373. mál Sþ. á þskj. 705. Flm. ásamt mér eru aðrir hv. þm. Alþb.

Í upphafi tillgr. er markmiðum tillögunnar lýst, en það er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að skapa víðtæka þjóðfélagslega samstöðu um nýja launastefnu er miði að því að draga úr hinum óhóflega launamun sem ríkir í landinu og tryggi að lægstu laun dugi fyrir nauðsynlegum framfærslukostnaði.“

Síðan er rakið hver skuli vera meginatriði hinnar nýju launastefnu og er það svohljóðandi:

„1. Launamunur í landinu taki mið af því að hæstu laun nemi á næstu árum ekki hærri upphæð en nemur fjórföldum lágmarkslaunum og á hverjum vinnustað verði lægstu laun aldrei lægri en 1/3 af hæstu launum sem þar eru greidd. Stefnt verði að enn frekari launajöfnuði þannig að launamunur verði í framtíðinni aldrei meiri en tvöfaldur.

2. Reiknuð verði út sérstök lágmarkslaunavísitala sem miðist við nauðsynleg útgjöld venjulegs launafólks til heimilisreksturs. Þessi nýja lágmarkslaunavísitala verði reiknuð út fjórum sinnum á ári. Takist ekki með kjarasamningum að tryggja að lægstu laun séu í samræmi við þann framfærslukostnað, sem hin nýja lágmarkslaunavísitala mælir, verði sett lög um lágmarkslaun fyrir dagvinnu sem tryggi nauðsynlegar framfærslutekjur. Kauptaxtar samkvæmt þeim launum verði viðmiðun fyrir yfirvinnu og annað það sem áður tók mið af lægri töxtum, svo og fyrir elli- og örorkulífeyri og tekjutryggingu. Slík lög um lágmarkslaun gildi þar til niðurstöður almennra kjarasamninga gera þau óþörf.“

Og enn fremur segir að „þar til útreikningur á nýrri lágmarkslaunavísitölu hefur farið fram“, sbr. ofanskráð, „verði, ef til lagasetningar kemur, tekið mið af 45 000–55 000 kr. dagvinnutekjum á mánuði.

3. Gerðar verði sérstakar ráðstafanir, lögbundnar ef með þarf, til þess að stuðla að fullum jöfnuði í launum karla og kvenna.

4. Unnið verði að því að fella yfirborganir og aðrar umframgreiðslur inn í launataxta þannig að umsamdir launataxtar endurspegli hin raunverulegu laun.

5. Jafnframt verði í tengslum við hina nýju launastefnu eftirfarandi atriði gerð að forgangsverkefnum:

a. Stytting vinnutímans.

b. Úrbætur í dagvistarmálum og húsnæðismálum.

c. Aukið öryggi og bættur aðbúnaður á vinnustað.

d. Aðstaða til starfsmenntunar.

Alþingi samþykkir að kjósa þingmannanefnd sem í samráði við aðila vinnumarkaðarins hafi forgöngu um að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga um þessi mál. Nefndin vinni einnig að því að skapa samstöðu um nýja launastefnu á grundvelli ofangreindra stefnuatriða.

Nefndin skal skila niðurstöðum sínum - hvort sem þær eru í formi tilmæla, tillagna eða frumvarpa - til Alþingis, aðila vinnumarkaðarins, ríkisins eða sveitarfélaga“ allt eftir því hvernig efni málsins liggur.

Síðan er gert ráð fyrir því að nefndin hraði störfum sínum eins og kostur er þannig að ný launastefna geti komið til framkvæmda hið fyrsta og með venjulegum hætti að nefndin ráði sér starfsfólk og kjósi sér formann og starfi alfarið á ábyrgð Alþingis og að kostnaður við störf nefndarinnar skuli greiðast úr ríkissjóði.

Í upphafi grg., herra forseti, segir m.a. svo um tilefni tillöguflutningsins:

„Tillaga þessi er flutt í ljósi vaxandi misréttis, misskiptingar og ranglætis í launamálum í landinu. Á sama tíma og verðmætasköpun er meiri, þjóðartekjur eru hærri en nokkru sinni fyrr og laun þeirra hæstlaunuðu nema 15–20-földum lágmarkslaunum þarf margföld dagvinnulaun verkamanns til að framfleyta meðalfjölskyldu.“

Þetta eru óhrekjanlegar staðreyndir sem ekki verður á móti mælt og segja í raun og veru allt sem segja þarf um þann hrikalega launamun sem viðgengst í landinu.

Það er ljóst að þrátt fyrir undangengið góðæri hefur sá hluti launamanna sem er lakast settur ekki færst hótinu nær því takmarki að geta lifað mannsæmandi lífi af dagvinnulaunum. Þvert á móti er líklegt að lægstu laun nú fyrir dagvinnu í almennri verkamannavinnu samkvæmt kauptaxta, innan við 30 þús. kr. eða rífar 30 þús. kr. allt eftir því hvernig samningar standa hjá hinum einstöku félögum, þessi laun séu fjær því nú en oft áður að duga venjulegri fjölskyldu til lífsviðurværis. Þau eru fjær því m.a. vegna þess að brýnustu útgjöld heimilanna, svo sem maturinn, hafa verið að hækka í verði hlutfallslega og kjör þeirra sem minnstu hafa úr að spila því lakari sem því nemur.

Ég held, herra forseti, að það séu staðreyndir sem ekki sé í sjálfu sér deilt um að launamunur hefur farið vaxandi í landinu á undanförnum árum, að aðstaða þeirra sem lakast eru settir og hafa ekki annað en dagvinnu á strípuðum kauptöxtum sér til framfæris er nú hlutfallslega verri en hún hefur oft áður verið í þjóðfélaginu, þ.e. að tekið sé mið af því hversu verðmætasköpunin er mikil, hversu ríkidæmið í landinu er mikið og þeim lífskjörum sem aðrar stéttir og aðrir hópar búa við. Þetta er m.ö.o. þannig að misrétti hefur farið vaxandi. Þeir hópar sem hafa til þess aðstöðu knýja fram miklar kauphækkanir í formi nánast sérsamninga þar sem hver starfsmaður jafnvel semur sérstaklega við sinn vinnuveitanda um ýmiss konar hlunnindi og ýmiss konar launauppbætur sem koma ofan á hin umsömdu laun. Að sama skapi eru þeir illa settir sem enga möguleika hafa á því að ná auknum tekjum með slíkum hætti og verða að láta sér duga taxtakaupið eitt.

Það mætti í sjálfu sér tengja þessa þróun stjórnarstefnunni á undanförnum árum og er næsta létt verk að gera, en hvorki tími né efni til að fara ítarlega út í þá hlið málsins hér, þ.e. orsakirnar. Þær eru auðvitað margþættar, en eitt af því sem þarna hefur haft áhrif eru ákveðnar hugmyndir í stjórn landsins sem tvær síðustu ríkisstjórnir, hæstv. núv. og fyrrv., hafa beitt sér fyrir. Það sem er öllu brýnna að ræða eru einfaldlega staðreyndirnar eins og þær liggja fyrir og hvað eigi að gera til úrbóta. Þær staðreyndir tengjast auðvitað lífskjörum þessa hóps sérstaklega. Þar minni ég aftur á ýmsar ráðstafanir stjórnvalda á undanförnum árum sem hafa óumdeilanlega verið þyngri í skauti þeim hluta launamanna sem lægst hefur launin. Það liggja fyrir upplýsingar um hvernig matarskatturinn til að mynda hækkar þann lið heimilisútgjaldanna í landinu hjá venjulegri fjölskyldu og það gefur auga leið að hlutfallslega þeim mun þyngri verður sá útgjaldaauki eftir því sem ráðstöfunartekjur heimilanna eru minni.

Launamunurinn birtist í ýmsum myndum. Hann birtist líka í launamun kynjanna. Á því máli viljum við flm. þessarar þáltill. að verði sérstaklega tekið. Þar liggja fyrir óyggjandi upplýsingar, sem reyndar eru birtar bæði í grg. með tillögunni eða fskj., um þann launamun og hvernig hann birtist með ýmsum hætti. Þar er bæði um að ræða launamun milli starfsstétta sem eru verulega kyngreindar þar sem hlutföll kynjanna eru áberandi mismunandi og einnig launamun innan starfsstétta, innan vinnustöðva, jafnvel svo að sambærileg störf eru greinilega ekki jafnhátt metin þegar verið er að greiða annars vegar körlum og hins vegar konum. Slíkt er með öllu ólíðandi, enda reyndar lögbrot og verður að grípa til róttækra ráðstafana til að útrýma slíku misrétti.

Hér er að vísu rétt að hafa fyrirvara á þegar skoðaðar eru brúttótölur um launamun kynjanna, sbr. til að mynda niðurstöður á úttektum kjararaunsóknarnefndar, að þar koma þá til mismunandi langur vinnutími á bak við heildartekjur sem rétt er að hafa í huga og má segja að að sínu leyti sé þar um félagslegt misrétti að ræða ekki síður en launalegt sem veldur því að vinnutíminn er greinilega mismunandi eftir kynjum.

Í grg. eru, eins og ég áður sagði, rakin nokkur dæmi um það hvernig þessi launamunur birtist, eins og til að mynda að árið 1986 höfðu 30–39 ára karlar við afgreiðslustörf rúmlega 63% hærri mánaðartekjur með álögum en konur á sama aldri. Á þeim aldri ná bæði kynin hæstu tekjum afgreiðslufólks. Og svo mætti áfram telja.

Í athugasemdum við einstaka liði tillögunnar sem eru aftan við greinargerðina er farið yfir hvernig þau markmið sem sett eru til að mynda um launajöfnun mundu koma út og mun ég aðeins fara yfir það.

Við setjum það sem fyrstu markmið að launamunur í landinu verði hvergi meiri en fjórfaldur sem er einfalt markmið í sjálfu sér og ætti ekki að vefjast fyrir neinum að skilja. Við gætum tekið það dæmi, sem er býsna nærtækt, að lögfest yrði eða samið yrði um lágmarkslaun upp á 50 þús. kr. sem mundi þá segja að enginn skyldi hafa hærri laun en 200 þús. Við viljum ganga lengra í launajöfnun innan vinnustaða til þess að í nærumhverfi manna verði ekki jafnáberandi launamunur og viðgengst þó að öðru leyti í þjóðfélaginu og setjum það fram sem æskilegt markmið að launamunur á tilteknum vinnustað verði aldrei meiri en þrefaldur og í því samhengi að lægstu laun skuli aldrei vera lægri en þriðjungur af þeim launum sem hæst eru greidd á sama vinnustað. Það þekkjast dæmin um það til að mynda að forstjórar ýmissa stórra fyrirtækja hafi býsna myndarleg laun og eru nærtæk. Við getum sett það fram sem dæmi að samið yrði um 165 þús. kr. mánaðartekjur til tiltekins yfirmanns eða starfsmanns í stóru fyrirtæki eða á stórum vinnustað. Það mundi þýða að óheimilt yrði að greiða neinum starfsmanni á sama vinnustað lægri vinnulaun en 55 þús. kr. á mánuði eða þriðjung af þeirri upphæð. Þannig gætu tekjur þeirra sem mest fá greitt orðið til þess að hækka laun þeirra sem lægst fá.

Sá kostur, herra forseti, að lögbinda lágmarkslaun hefur nokkuð mikið verið til umræðu undanfarna mánuði og er umdeilt atriði. Það er ekki um það neinn ágreiningur af hálfu flm. þessarar tillögu að það sé æskilegast að til slíks þurfi ekki að koma og að ásættanleg niðurstaða náist hvað þetta varðar í frjálsum kjarasamningum. Ég held hins vegar að stjórnvöld geti ekki af neinum heilagleika horft fram hjá því að það er í sjálfu sér hlutur sem snertir lífskjör fólksins í landinu rétt eins og fjöldamargt annað sem við á hinu háa Alþingi erum dag frá degi að fjalla um, hvað menn fá greitt í laun. Og sé sú niðurstaða sem næst í samningum ekki ásættanleg að mati löggjafans og neðan við þau mörk, sem ríkidæmi þjóðarinnar og siðferðisafstaða býður upp á, geti löggjafinn að sjálfsögðu beitt áhrifum sínum í þessu efni eins og öðrum. Ég geri ekki mikinn mun á því í sjálfu sér hvort um er að ræða ráðstafanir sem hafa áhrif á lífskjör elli- og örorkulífeyrisþega, lífskjör námsmanna og fjöldamargra annarra hópa í þjóðfélaginu eða hvort löggjafinn með beinum hætti beitir áhrifum sínum til að hafa áhrif á lægstu laun. Það er að vísu nöturleg niðurstaða, virðulegi forseti, fyrir okkur uppi á Íslandi á árinu 1988, í lokin á einhverju lengsta samfellda góðærisskeiði síðari áratuga, að þurfa að vera að ræða í fullri alvöru um inngrip af hálfu löggjafans í launagreiðslur með þessum hætti. Það er mjög nöturleg niðurstaða, herra forseti, en hún er engu að síður staðreynd. Það er engu að síður staðreynd að launamunurinn í landinu er óheyrilegur og hefur farið vaxandi og að lægstu launin eru ekki ásættanleg. Við getum að mínu mati ekki horft upp á það takmark fjarlægjast að menn geti lifað mannsæmandi lífi af dagvinnulaunum og við hljótum að taka þau mál til umræðu og umfjöllunar hér á Alþingi rétt eins og svo fjöldamörg önnur mál sem snerta lífskjör og umhverfi fólksins í landinu.

Herra forseti. Ræðutíma mínum, svo furðulegt sem það nú er, mun víst vera lokið ef marka má þennan bjölluhljóm og ég hef þá þessi orð ekki fleiri að sinni, en áskil mér þá rétt til þess að bæta einhverju við síðar í umræðunni ef mér þykir með þurfa.

Að loknum þessum hluta umræðunnar, virðulegi forseti, er víst venjan að gera tillögur um hvernig málum skuli vísað til nefndar. Nú skal ræðumaður viðurkenna að hann er ekki alveg viss um hvort það er einhlítt að slíkt mál skuli fara til félmn. eða allshn. en aðalatriðið mun þó vera að málum sé skipað saman til nefnda eftir því sem efni þeirra býður upp á. Ég legg því til að till. verði vísað til hv. félmn. en áskil mér rétt til að breyta þeirri tillögu ef mér skyldi snúast hugur.