24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6156 í B-deild Alþingistíðinda. (4211)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég verð að vísu að segja það að ég hefði gjarnan kosið að fleiri hefðu gefið sér tíma til þess a.m.k. að sitja hér og hlýða á umræður um þessi mál og gaman hefði verið að sjá eins og einn hæstv. ráðherra úr ríkisstjórninni en ég er nú satt best að segja orðinn yfirleitt úrkula vonar um að þeir hafi tíma til þess eða virði Alþingi Íslendinga þó þess, sem þeim ber lögum samkvæmt að gera, að sitja hér á þingfundum. Það mætti oft halda að það væri ekki einn hæstv. ráðherra sem væri í útlöndum heldur væru þeir það allir dögum og jafnvel vikum saman þegar skoðuð er viðvera þeirra hér á þinginu. En hér gapa auðvitað á móti manni tómir stólar flesta daga.

Ég vil lítillega bæta við þá umræðu sem hér hefur farið fram og gjarnan byrja á því sem hér var endað á að ræða um af tveimur hv. ræðumönnum a.m.k., en það eru möguleikar verkalýðshreyfingarinnar til þess að ná fram launajöfnun og lyfta kjörum hinna lakast settu í kjarasamningum. Og til þess að halda því til haga er það mín skoðun að á síðari árum hafi einkum einu sinni verið gerð mjög merk tilraun í þá veru við gerð kjarasamninganna í des. 1986 þegar lágmarkslaun voru hækkuð úr eitthvað ríflega 19 000 kr. upp í 26 500 kr. á einu bretti. Það var aðgerð sem sérstaklega átti að bæta hag þeirra lakast settu og það var vilji samningsaðila þá, a.m.k. í orði kveðnu, að þeirri hækkun yrði ekki fylgt eftir með hækkun upp allan launastigann. M.ö.o., það átti að reyna að minnka launamuninn með þeirri aðgerð.

Hver var niðurstaðan? Niðurstaðan er auðvitað öllum þeim sem til þekkja mikil vonbrigði. Hún var einfaldlega sú að meira og minna stjórnlaust fór sú kauphækkun á lægstu launum út yfir allan launastigann og út í verðlagið þannig að vissulega gera menn sér grein fyrir því að hér er ekki um einfaldan hlut að ræða. Því er það að okkar tillaga gerir ráð fyrir því að reynt sé að taka á málinu í heild sinni, byrja á því að marka stefnu og ná samstöðu um það að launamunurinn verði að vera innan einhverra hóflegra marka og síðan að raða mönnum upp innan þess ramma sem þannig yrði settur. Og ég held að nánast eina leiðin til þess að ná tökum á þessu vandamáli sé að nálgast það þannig.

Vissulega er það svo rétt, og mætti gjarnan hafa meiri tíma til að ræða þá hluti, að skipting þjóðarverðmætanna er hér líka undir og spurningin um það hvað mikið af þjóðarverðmætunum fer í launagreiðslur og hvað mikið fer í annað. Hún má ekki gleymast þegar verið er að ræða kjaramál í landinu. En það vill æði oft brenna við nú upp á síðkastið að jafnvel báðir aðilar í kjarasamningum gangi út frá þeirri staðreynd að einungis tiltekinn hluti þjóðarkökunnar sé til skiptanna í launagreiðslur og það sé búið að taka frá svo og svo mikið í fjármagnskostnað, svo og svo mikið í fjárfestingu og svo og svo mikið í aðra hluti áður en kemur að því að greiða mönnum laun. Og það er nöturleg staðreynd að undirstöðuatvinnuvegur landsmanna, sjávarútvegurinn, og þar einkum fiskvinnslan, sú sem skapar í raun og veru mestöll verðmætin sem þessi þjóð lifir á, er gjarnan notuð sem sönnun fyrir því að ekki sé hægt að greiða hærri laun á Íslandi en kannski 30 000 kr. Það er sagt: Staða fiskvinnslunnar er svo bág að hún þolir ekki hærri launagreiðslur en þetta. Og það er mjög nöturlegt, hæstv. forseti, vegna þess að þetta á auðvitað ekki að vera þannig og er ekki þannig þegar farið er ofan í saumana á því. Á sama tíma og fjármagnskostnaður fiskvinnslunnar hefur nærri tvöfaldast á tíma síðast gildandi kjarasamninga er það sjaldan nefnt að atvinnugreinin hafi orðið fyrir útgjöldum þess vegna en það er rekið upp ramakvein ef á að reyna að hækka launin við starfsfólk í fiskvinnslu.

Það hefði verið, að mínu mati, hæstv. forseti, gaman ef við hefðum fengið að heyra í þeim hv. þm. sem jafnframt eru trúnaðarmenn í verkalýðshreyfingunni. Þannig vekur nokkra furðu mína að hv. þm. eins og Karl Steinar Guðnason og Karvel Pálmason sjá ekki ástæðu til þess jafnvel að vera viðstaddir inni í þingsalnum þegar þetta er rætt, hvað þá að taka þátt í umræðum. Er það e.t.v. eitthvað vandræðalegt eða erfitt mál fyrir þá að taka þátt í þessum umræðum hér um launamuninn og lágmarkslaunin í landinu? Svo á ekki að vera. Þessi tillaga er af hálfu flm. fyrst og fremst hugsuð sem stuðningur við kjarabaráttu verkalýðshreyfingarinnar og jákvætt innlegg í þá umræðu og þá baráttu sem þar stendur yfir en ekki öfugt. Ég vil sérstaklega undirstrika það hér.

Að lokum, hæstv. forseti: Ég held að menn eigi að gera sér grein fyrir því hvað hefur verið að gerast í þessum efnum í íslenska þjóðfélaginu á undanförnum árum. Menn verða að horfa framan í það og það eiga allir að svara þessari spurningu, líka sjálfstæðismenn, líka atvinnurekendur: Er íslenska samfélagið að þróast í þá átt sem við viljum? Er það farsælt fyrir okkur sem þjóð að launamunur í landinu fari vaxandi, að verkalýðshreyfingin sé meira og minna að losna sundur í frumeiningar sínar og að atvinnurekendur þar með þurfi ekki lengur að gera einn eða tvo eða nokkra kjarasamninga á hverju ári, heldur e.t.v. 120 000 kjarasamninga, jafnmarga og vinnandi menn eru í landinu? Er það það framtíðarþjóðfélag sem atvinnurekendur, ekkert síður en trúnaðarmenn í verkalýðshreyfingunni, vilja? Ég held að svarið hljóti að vera nei. Það er sameiginlegt skipbrot allra í þessum efnum ef sú upplausn heldur áfram sem hefur verið að halda hér innreið sína á undanförnum árum. Það verður þegar frá líður ekki síður tjón vinnuveitendanna, atvinnurekendanna og atvinnulífsins en launamanna. Það er sameiginleg ógæfa allra ef svo fer. Það er mín sannfæring. En fyrst og síðast er það ógæfuþróun fyrir íslenska samfélagið. Það er stundum sagt og það er vinsælt að segja við útlendinga, mér skilst enn þá, leiðsögumenn eru jafnvel menntaðir í því að segja við útlendinga: Hér á Íslandi er stéttlaust þjóðfélag. Hér á Íslandi er enginn launamunur. Hér eru þeir jafn vel settir ráðherrann og sjómaðurinn, ráðherrann og fiskvinnslukonan. Það er enginn stéttamunur til í landinu.

Þetta hefur kannski aldrei verið rétt, og auðvitað ekki, kannski verið nær því hér en víða annars staðar en það er löngu úrelt að mennta íslenska leiðsögumenn í því að segja við útlendinga: Á Íslandi er stéttlaust þjóðfélag. Og það hefur færst mun fjær því að vera við hæfi núna á síðustu missirum áður var. Hér er nefnilega að vaxa upp illilega stéttskipt þjóðfélag, hér er að verða til lágtekjustétt í landinu, sem situr tiltölulega föst í því hlutskipti ef svo heldur fram sem horfir, á sama tíma og auðvitað er að myndast til mótvægis auðstétt sem hefur yfrin fjárráð, og nóg eru dæmin um það, og svo væntanlega einhverjir sem eru þar á milli. Þetta er ógæfuþróun, um það ættu allir að geta verið sammála. Ég skora á þá trúnaðarmenn úr verkalýðshreyfingunni sem eru viðstaddir umræðuna að tjá sig um það. Er það e.t.v. leið að fara með þessi mál hér inn í gegnum löggjafarvaldið til stuðnings baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir mannsæmandi launum? Er ekki hinn kaldi veruleiki sá að það verða allir að leggja saman, allir að leggjast á árar, til þess að tryggja þeim sem lakast eru settir mannsæmandi laun og að ná eitthvað utan um launamuninn og þá óheillaþróun sem þar hefur verið að eiga sér stað?

Virðulegi hæstv. forseti. Ég hef víst lokið ræðutíma mínum og þakka að öðru leyti þá umræðu sem hér er þegar orðin en vænti þess að hún verði auðvitað meiri.