12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6272 í B-deild Alþingistíðinda. (4323)

293. mál, áfengislög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem vilja ekki trúa því að óreyndu að hv. alþm. séu svo heillum horfnir að þetta bjórfrv. verði samþykkt. En ég get tekið undir eitt hjá síðasta hv. ræðumanni, að meðan sú ríkisstjórn, sem situr núna að völdum, situr er ekki að vænta þess að það sé farið eftir lögum jafnvel þó það séu ákvæði í lögum um hitt og þetta. Það er bara afnumið í lánsfjárlögum eða á annan hátt þannig að það sem ákveðið er í dag stendur ekki til morguns, jafnvel þó að það standi áfram í lögum. Það er afnumið með slíkum vinnubrögðum sem ég fer ekki að endurtaka hér en við þekkjum öll. Það er málið.

Hins vegar sjáum við hvað er á bak við þetta bjórfrv. Hvernig ætli að standi á því að menn séu að reyna að afla sér umboða í stórum stíl? Hvernig stendur á því? Ætli það sé vegna þess að þeir búist við því að þeir hafi ekkert út úr því? Síðasti ræðumaður, hv. 2. þm. Reykn., var að tala um 10 millj. lítra og hann hefði nú heyrt enn þá hærri tölur. Og hverjir eru að nefna þessar tölur? Ætli það sé ekki verið að skoða gróðann? Svo halda þessir hv. þm. því fram í öðru orðinu að þarna sé ekki um neina viðbót að ræða. Hvaða reynslu hafa aðrar þjóðir af þessu?

Ja, ég öfunda ekki þá hv. þm., sem verða til þess ef svo illa tiltekst að þetta bjórfrv. verði samþykkt, að virða fyrir sér eftirköstin sem verða í þjóðfélaginu. Og ég verð að segja það í sambandi við hæstv. heilbrmrh., sem ég hefði gjarnan viljað hafa hér, að ég vorkenni honum eftir þá yfirlýsingu sem hann gaf í sambandi við atkvæðagreiðsluna úr 2. umr.

Ég var búinn að ætla mér að koma með bunka af bréfum og tillögum sem ég var búinn að safna saman utan af landsbyggðinni, en það var þannig að ég áttaði mig ekki á því eða mundi ekki eftir því að þetta mál yrði hér til umræðu á þessum fundi. En þegar ég var að taka póstinn minn núna fékk ég þó tvær tillögur sem ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp til þess að það sé þó skjalfest í þingtíðindum, enda er ég ekkert viss um að allir hv. þm. hafi rifið upp póstinn sinn. Önnur þessi fréttatilkynning er á þá leið, með leyfi forseta:

„Aðalfundur félags áfengisvarnanefnda á Austurlandi, haldinn í Verkalýðshúsinu á Fáskrúðsfirði laugardaginn 2. apríl 1988, skorar á alþingismenn að fresta afgreiðslu á fyrirliggjandi bjórfrumvarpi þar til að heilbrigðisáætlun hefur verið rædd og afgreidd á Alþingi. Samþykkt bjórfrumvarpsins kann að verða afdrifarík fyrir þjóðina og því mikilvægt að fjalla um það í tengslum við heilbrigðismál og áætlanir um bætta heilbrigði landsmanna.“

Og í þeim bunka sem ég var að opna er bréf frá Ungmennasambandi Norður-Þingeyinga er þannig hljóðar:

„Eftirfarandi áskorun samþykktum við á ársþingi okkar nú fyrir páskana. [Þetta er dagsett 5. apríl.] Ársþing Ungmennasambands Norður-Þingeyinga, haldið að Svalbarði í Þistilfirði 2. apríl 1988, skorar á alþm. að fella fram komið bjórfrumvarp. Þingið leyfir sér að benda á rökstuðning sem fram kemur í áskorun 16 prófessora við læknadeild Háskóla Íslands frá 27. nóv. 1987, svo og áskorun heilsugæslulækna nú nýverið. Þá skorar ungmennasambandið á Guðmund Bjarnason heilbrmrh., og æðsta yfirmann áfengisvarna í landinu, að beita sér fyrir því að tekið verði fyrir þann innflutning á bjór sem ráðamenn hafa leyft í trássi við landslög á undanförnum árum.

Með einlægri ósk um jákvæðar undirtektir.

Virðingarfyllst,

Lundi í Öxarfirði,

Aðalgeir Gunnlaugsson, formaður, og

Gunnlaugur Aðalbjörnsson, framkvæmdastjóri UNÞ.“

Ég trúi því ekki að aðrir þingmenn en ég hafi ekki fengið mörg bréf, hringingar og viðtöl. M.a. þegar ég var á Akureyri nú nýverið töluðu við mig nokkrar konur sem komu í hóp til að ræða þessi mál og þær skoruðu á mig að flytja hér mál sem ég gerði fyrir nokkrum árum og vil ég verða við þeirri beiðni. En það var svohljóðandi:

Hann krýpur við hlóðirnar hálfboginn,

hugsandi starir í eldinn.

Hann veit hann er sekur en verður um sinn

að vaka er líður á kveldin.

Eitrið í katlinum sýður og sogar,

það seytlar um pípur, það logar, það logar.

Bruggarinn hlær þegar blossar og sýður,

af brennandi girnd er sál hans full.

Hann telur dropana er tíminn líður,

hann tælir hið skínandi gull.

Hann veit að eitrið er örlagavaldur,

en ágirndin ræður, því er hann kaldur.

Hann telur á fingrum sér tugi króna

og tendrar hið skínandi bál.

Hann veit að nú eignast hann auðlegð og þjóna

og allt sem girnist hans sál.

Því lætur hann eitrið í flöskurnar flæða

þótt fylgi því harmur, örbirgð og mæða.

Hann veit að þeir koma og kaupa landann

sem kvarta og vantar brauð.

Feður á eitrinu fjörga andann

þótt fjölskyldan líði nauð.

Dansandi æskan um dimmar nætur

fyrir dropana síðasta eyrinn lætur.

Lágnættið kemur og bruggarinn blundar.

Það blikar á flöskurnar allt í kring.

Ofan frá himnunum skínandi skundar

Skuld með dísir á örlagaþing.

Það hafði borist til bjartari heima

bölið sem flöskurnar geyma.

Það hafði borist bænamál

frá börnum og hungruðum konum,

frá góðum mönnum sem glötuðu sál

og grétu yfir brostnum vonum,

frá blíðlyndri móður sem beið í ranni,

barin af vitskertum manni.

Það hafði flogið um byggðir og borg

bruggarans alkunna saga:

um bardaga mannanna, áflog og org,

illindi nætur og daga,

um harmþrungnu meyjanna hinstu stundir

sem hurfu bylgjurnar undir.

Dísirnar hefja sitt harmamál

um heimsku mannanna og syndir.

Það liðu um bruggarans bannfærðu sál

að bólinu óljósar myndir.

Svo heyrðist eitt hljóð úr húmi nætur.

Hann hrekkur skjálfandi á fætur.

Bruggarinn tautar: Flaskan er full.

Að fela er mestur vandinn.

Mig dreymdi víst áðan demanta og gull.

Það er daufur í flöskunni landinn.

Svo læðist hann burtu lúmskur sem refur

um lágnættið grefur og grefur.

Það er engu við þetta að bæta. Þetta er sú lýsing sem hv. alþm. eru að kalla yfir þjóðina.