12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6277 í B-deild Alþingistíðinda. (4326)

293. mál, áfengislög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það kemur mér alls ekkert á óvart þótt ég væri vændur um tvískinnungshátt í þessu máli. Ég átti von á þessu. Ég átti að vísu ekki von á að menn seildust langt niður fyrir beltisstað í málflutningi. Menn verða að athuga um staðreyndir og haga sér samkvæmt þeim.

Það er talað um að það kveði við annan tón hjá mér og látið að því liggja að helst muni ég óska eftir að frv. verði samþykkt. Við hvern eru menn að tala? Hverja eru þeir að blekkja? Liggur ekki ljóst fyrir að atkvæði í þessari hv. deild féllu með þeim hætti að ég og þeir sem gegn málinu stóðu töpuðu því?

Og þegar hv. 5. þm. Reykv. talar um að hann vilji gjarnan samþykkja mína tillögu að hinni samþykktri er hann að iðrast eftir dauðann því að þannig fara atkvæðagreiðslur ekki fram hérna. Það er 3. umr. frv. og það sjálft kemur síðast til umræðu eftir að við höfum afgreitt brtt. Ástæðan fyrir því að ég flyt þetta núna áður en ég sé afdrif þess í Ed. er að ég vil ekki láta kenna mig við að þvælast fyrir málinu, að reyna með einhverjum vinnubrögðum að koma í gegn brtt. þar sem mundi orsaka að málið þyrfti enn nýja umferð í deildinni eftir að svo tæpt stendur á um starfstíma þings. Þetta er allt málið. Og það er talað um að það sé annar tónn hjá mér þegar ég sé það fyrir mér að málið er tapað hér í deildinni, að skilvísir menn sem þekkja lungu og lifur í hv. efrideildarmönnum hafa sýnt mér fram á að það munar enn meiru hlutfallslega í þeirri deild en þessari hv. deild. Þá geri ég þessa tilraun og það er ekkert undarlegt við hana af því sem þörf þessara menningarsafna er svona rík. Ekkert annað að baki býr. Menn geta haldið áfram að velta mér upp úr þessu og geri þeir svo vel ef þeir hafa lyst á. Ef þeir halda og ef þeim hefur fundist á málflutningi mínum að ég sé ótrúverðugur og sé að leika tveim skjöldum, að ég vilji eftir allt saman að þessi ósköp séu samþykkt, þá er það sjálfrátt að ætla mér slíkt. Það er þá mönnum sjálfrátt.

Menn eru að tala um að það megi ekki verða of hátt verðlagt, ölið, til þess að hrinda mönnum ekki í sterkari vín. Má ég biðja um að menn athugi nú aðstæðurnar. Hér er ekki bjór til sölu og við getum ekki ýtt mönnum yfir að sterkari drykkjum vegna vöru sem er ekki fáanleg. Drykkja sterkra drykkja hlýtur að vera í hámarki af því að menn hafa ekki úr öðru að velja núna. Af því skyldi maður halda að okurverðlag á öli gæti ekkert aukið þá sókn nema þá, eins og margan grunar, að ölið ýti mönnum út í þetta beinlínis. Auðvitað vitum við að það er hægt að loka markaðnum með því að verðleggja of hátt og það væri auðvitað best ef þetta frv. verður samþykkt.

Ég er að tala um að ofan á það sem ella verður lagt á, og ég veit að ríkið hlýtur að leggja mikið á þessa vöru, verði þessar 5 kr. lagðar. Og það er ekkert lítið álag. Þó 5 kr. sé ekki stórt í einu lítum við til þess að hér er um 100 millj. kr. skattlagning á ári á þá sem neyta og hér var hv. 2. þm. Reykn. að tala um að það geti verið jafnvel 1/3 hærra, 150 millj. Ég man bara eftir þessari 7 millj. lítra tölu frá Þjóðhagsstofnun á sinni tíð. Auðvitað fjölgar þjóðinni. Og svo er annað mál að það er mjög líklegt auðvitað að þetta springi í loft upp og verði miklu meira.

Það er bent á að það sé óeðlilegt að marka tekjustofna með þessum hætti. Að vísu erum við alltaf að gera þetta. En af hverju halda menn nú að í þessari brtt. sé afmarkað með hvaða hætti eigi að setja þessa starfs- og stofnskrá og velja stjórn o.s.frv.? Það er af því að sporin hræða. Það er ekki einu sinni nóg að setja lög á Alþingi um þjóðarbókhlöðu. Það er ekki einu sinni nóg vegna þess að framkvæmdarvaldið tekur sér það bessaleyfi að brjóta þau eins og liggur alveg fyrir að gert var um afgreiðslu þessa máls á hinu háa Alþingi við afgreiðslu fjárlaga. Hver er reynsla okkar af afgreiðslu fjvn. á hinu háa Alþingi á menningarstarfsemi eins og þeirri sem hér um ræðir? Hún er ekki með þeim hætti að við getum vænst þess að úr verði greitt. Hér er ekki verið að taka tekjustofn af ríkinu. Ríkið hefur aldrei haft þann tekjustofn sem af ölföngum mundi leiða.

Hvað var um sígaretturnar? Var ekki álag á þeim sérstakt til sérstakrar starfsemi? Ekki þótti það óeðlilegt heldur sérstaklega eðlilegt. Auðvitað kemur ríkissjóður til með að verða að standa undir útlátum til safnanna og alveg strax til Þjóðminjasafnsins sem liggur undir stórskemmdum og þeir munir sem eru þar ef við ættum að heita menningarþjóð. Sömuleiðis kemst þjóðin ekki hjá að byggja náttúrufræðisafn upp á 600–700 millj. kr. eins og frumáætlanir standa til. Hún kemst ekkert hjá þessu. En ef menn vilja velkjast með þetta hér í Alþingi áratugum saman, eins og auðvitað yrði ef ekki yrði séð fyrir ákveðnum tekjustofni, þá þeir um það. Og það er náttúrlega holhljómur í því þegar þeir hafa þetta á orði, menn sem aldrei hafa lagt þessu sérstakt lið, söfnunum til að mynda.

Ég verð að segja að það kemur mér heldur ekki á óvart, eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, að upphlaup verði vegna þessarar tillögugerðar minnar. Ég veit hvaða sterk öfl vinna þar að baki. Ég vissi og fékk að vita þegar í stað um viðbrögðin í gærkvöldi eftir fréttir fjölmiðla og ég veit hvaðan þau komu. Og það er ekkert óeðlilegt. Gróðafíknin er ekkert minni fíkn en eiturlyfjafíknin og raunar er það gróðafíknin sem drífur hana alla saman áfram. Þeir brugðu við hart vegna þess að þetta skerðir ekki aðallega tekjustofna ríkisins eða ríkissjóðs, tekjustofn sem það hefur að vísu ekki haft, heldur minnkar gróða ölsalanna. Það er nefnilega hámark fyrir því sem hægt er að leggja á eina vörutegund eins og þessa og ef kemur svona ákveðið gjald sérstakt tekur það vitanlega sér í lagi af framleiðandanum. Það er alveg ljóst.

Og ef menn játa að þetta sé líka tilraun, og það er aðalmál þessarar tillögugerðar, að draga úr neyslunni á áfenginu með þessum hætti er mér alveg óskiljanlegt að þeir skuli samt hafa þrek til að snúast gegn þessu, það er mér alveg óskiljanlegt, menn sem ella vilja þessu menningarstarfi vel og vita að að því kemur að við verðum að borga brúsann sjálf. Og það er margt annað en söfnin. Ef það skyldu nú drjúpa í þennan sjóð 150 millj. kr. getum við fljótlega farið að styrkja og um leið aðra menningarstarfsemi sem situr hér skelfilega á hakanum hvarvetna sem við berum niður, listamenn endilangt í öllum röðum, hvort heldur menn bera niður hjá leikhúsum eða myndlist eða ljóðlist eða rithöfundum, hvarvetna og hvergi hefur Alþingi staðið við loforð sín og gefnar yfirlýsingar og samþykktir.

Hvað um Rithöfundasjóðinn? Leikhús áhugamanna, sem leggja ótrúlega mikið á sig, fá ekki inni einu sinni þó menn eigi hér upplagt hús eins og Sjálfstæðishúsið gamla, Póst og síma, bara af því að þeim þykir óþægindi að því sem éta fimm sinnum í viku í hádeginu þar og húsið stendur svo autt ella. Ég veit ekki hvar þetta á að lenda ef menn geta aldrei og vilja aldrei huga að öðru en vísitölu og verðbólgu sem þeir svo koma að vísu ævinlega vitlaust að þegar mest á ríður. Það er alveg með ólíkindum að menn skuli ekki, og aðallega þeir sem vilja ná einhverjum sáttum og lægja öldurnar varðandi þessi ósköp, sem nýja alkóhólstreymið mun valda, það er alveg með ólíkindum að þeir skuli ekki taka vel slíku og taka höndum saman við menn sem eru að reyna að berjast um í þessum málum.

Auðvitað kem ég og mín nefnd, sem starfar að viðfangsefnum Þjóðminjasafnsins núna, með aðrar tillögur um tekjustofna til nauðsynlegra framkvæmda við Þjóðminjasafnið. Að sjálfsögðu. Ég trúi ekki öðru en það nái fram að ganga þó að það kannski kunni að taka lengri tíma en það sem hér er ráð fyrir gert. Og þegar menn hafa nú fyrir augum fordæmin eins og úr Danaveldi. Þegar ég var að skammast út í Carlsberg gamla var ég að tala um Bakkus hér á dögunum, en þegar ég var að upplýsa menn um hvað Carlsberg hefði gert í menningarmálum var ég ekki að tala um Bakkus.

Nei, það er heldur dapurlegt til þess að vita að það sé alveg sama hvar borið sé niður. Maður rekst alls staðar á veggi ölgróðamannanna. Þeir eiga hér mest í húfi að þessu leyti. Auðvitað á ungdómurinn langsamlega mest í húfi því að þessi ölalda, sem mun yfir ganga, mun færa hundruð af honum í kaf. En ekki meira um það.

Ég verð að endurtaka að það veldur mér vonbrigðum að menn skuli ekki fagna þessari tillögugerð. Það er talað um að þessi tillaga sé beita, ný beita til að fá þetta frv. samþykkt eftir að búið er að láta menn greiða atkvæði, hina hv. alþm., opinberlega í málinu í bak og fyrir í báðum deildum og fyrir liggur að málið er tapað. Samt er verið að tala um beitu. Nei, það eina sem þetta gerir er það að gera samþykktina fráhrindandi. Ölgróðamennirnir hafa ekki eins mikinn áhuga á samþykkt þessa frv. eftir sem áður ef þessi brtt. verður samþykkt. Ekki aldeilis. Hann dofnar stórlega því þetta er tekið úr pyngjunni þeirra, það er tekið af ölgróðanum þeirra það sem ég er að leggja til hérna og breytir engum manni, því miður, á hinu háa Alþingi hvaða rökum sem við beitum, ekki um eitt atkvæði frá upphafi þessa þings. Mér er óhætt að fullyrða þetta vegna þess að menn voru látnir greiða atkvæði.

Ef menn vilja lemja á mér með þessum hætti, að það sé í mér tvískinnungur, að ég standi í báðar lappir í jötu jafnt eins og sagt er í málinu, þá þeir um það. Ég læt mér það í engu rúmi liggja vegna þess að menn vita miklu betur þótt þeir kjósi að hafa uppi þennan vopnaburð í hita bardagans. En ég endurtek að þessi verður málsmeðferðin að vera. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að geta komið slíkri tillögugerð við eftir dúk og disk, eftir að allt var að fullu frá gengið og atkvæðagreiðslur höfðu gengið um málið og það tapað. En svona lítur dæmið út fyrir mér, að það sé tapað, því miður, og ég hlýt að haga mér samkvæmt því.