14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6397 í B-deild Alþingistíðinda. (4393)

295. mál, öryggis- og björgunarbúnaður í skipum

Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur mikið verið unnið að öryggismálum sjómanna og ýmis lög og reglugerðir verið settar á því sviði. Í reglum um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa nr. 325 frá 1985, með síðari breytingum, er tilgreindur sá búnaður sem á að vera um borð í skipum af viðkomandi stærð. Í 3. gr. reglnanna segir m.a., með leyfi forseta:

„Öll björgunar- og öryggistæki, þar með talin lögboðin siglingartæki, eru háð viðurkenningu Siglingamálastofnunar ríkisins. Óski framleiðandi eftir samþykki á björgunar- eða öryggisbúnaði skal hann leggja inn hjá Siglingamálastofnun ríkisins fullnægjandi teikningar og upplýsingar um búnað ásamt einu eintaki hans til prófunar. Sama gildir um breytingar á viðurkenndum búnaði.“

Fyrsti liður fsp. minnar til hæstv. samgrh. á þskj. 598 hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvaða prófanir eru gerðar hérlendis áður en björgunarbúnaður, sem skylt er að hafa um borð í skipum og bátum, er viðurkenndur hér á landi?"

Þann 10. febr. 1988 var haldin æfing í reykköfun fyrir og með nemendum í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum. Við æfinguna komu í ljós gallar í hluta þeirra reykköfunartækja sem þá voru notuð. Þess vegna spyr ég í öðru lagi:

„Hvernig er brugðist við þegar gallar koma í ljós á björgunarbúnaði sem er viðurkenndur og þegar hefur verið seldur?"

Seint á sl. hausti kom fram í fréttum í Ríkissjónvarpinu að í Danmörku hefðu ákveðnir búningar sem áttu að vera björgunarbúningar reynst vera hinir hættulegustu þegar á reyndi. Kom í ljós að búningarnir sjálfir gátu varla haldist á floti, hvað þá ef maður var í þeim. Því var haldið fram í þessari sömu frétt að hér á landi væru seldir „björgunarbúningar“ af sömu gerð og sagt var frá í fréttinni. Þess vegna spyr ég:

„Hvernig er háttað samvinnu Íslendinga og nágrannaþjóðanna varðandi björgunarbúnað og upplýsingaskyldu ef gallar á búnaði koma í ljós?"

Þá hef ég í huga hvernig við reynum að haga samvinnu ef gallar koma í ljós erlendis og eins ef gallar koma í ljós hér, hvernig við látum þá aðrar þjóðir vita.

Mikið af tækjum og búnaði sem ekki er skylt að hafa um borð í skipum er á boðstólum í verslunum hér á landi. Ég get nefnt þar t.d. vinnubúninga sem eru notaðir orðið mjög mikið um borð í skipum, sérstaklega á minni skipum. Það er þó nokkurt flot í þeim en þó er ekki hægt að nota þá sem björgunarbúninga. Þeir geta verið mjög mikilvægir. Ég get nefnt það að í vetur féll sjómaður frá Grindavík útbyrðis fyrir norðan land og hann var í slíkum búningi og hefur það sjálfsagt orðið til að bjarga lífi hans. En ég tel að það þurfi að gilda ákveðnar reglur um þennan öryggisbúnað og ég tel einnig að það þurfi að koma mjög skýrt fram þegar verið er að selja slíkan búnað til hvers hann er ætlaður og hvaða eiginleikum hann er gæddur. Þess vegna tel ég að það þurfi, og vona reyndar að svo sé, að ganga hart eftir upplýsingaskyldu þeirra sem selja slíkan búnað og spyr því í fjórða og fimmta lagi:

„Hvaða reglur gilda um tæki og búnað sem ekki er skylt að hafa um borð en seld eru sem öryggisbúnaður? Hver er upplýsingaskylda og ábyrgð þeirra er selja öryggis- og björgunarbúnað hér á landi?"