18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6500 í B-deild Alþingistíðinda. (4500)

Töf á afgreiðslu rekstrarlána til bænda

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. það sem hann sagði um þetta mál, en undirstrika að ríkisbankarnir eru undir hans stjórn og málið heyrir undir hann af þeirri ástæðu og þess vegna verður sá dráttur, sem orðið hefur nú, að skrifast á ábyrgð viðskrh.

Ég vil líka undirstrika að mér er ljóst að sumir sláturleyfishafar eru í óvissu um hvort þeir muni fá rekstrarlán einfaldlega vegna þess að það er ekki víst hvort þeir fái sláturleyfi næsta haust og á þeim svæðum ríkir mikil óvissa um hvort bændurnir fái rekstrarlán eða ekki. Jafnframt veit ég um kaupfélag sem hefur óskað eftir viðskiptum við annaðhvort Landsbanka eða Búnaðarbanka með sín rekstrarlán og engin svör fengið þó allt sé í lagi varðandi fjármál viðkomandi fyrirtækis. Ég mun leyfa mér að leita til ráðherra um hvort slík mál verði ekki afgreidd því það er gersamlega ólíðandi að það sé staðið að þessum málum eins og nú er, að réttarstaða sláturleyfishafanna og þar með bændanna virðist nánast engin. Menn eiga það undir geðþóttavaldi hvort það samkomulag er virt sem gert var á sínum tíma um afgreiðslu þessara lána.