19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6549 í B-deild Alþingistíðinda. (4555)

466. mál, ferðamál

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Hér hafa talað nokkrir hv. þm. í sambandi við þetta frv. og vikið að ýmsum atriðum varðandi það. Hv. 6. þm. Vesturl. ræddi um þróun þessara mála á undanförnum árum og benti réttilega á þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað og eru að eiga sér stað og við þeim verður að bregðast.

Hv. 4. þm. Vesturl. sagði hins vegar hér að ekkert annað hefði verið fært fram frv. til ágætis annað en að það væri á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að selja ríkisfyrirtæki. Haldi hv. þm. þessu fram hefur hann ekki tekið eftir því nægjanlega vel sem ég sagði í minni framsögu þegar ég vék að því hver breyting hefði orðið á í þessum málum frá því 1936. (SkA: Þingmaðurinn tók einmitt undir það.) Einmitt þær breytingar gera það að verkum, eins og hv. 6. þm. Vesturl. vék að, að þessi mál þurfa að vera í endurskoðun. Og ef við víkjum aðeins að því að Ferðamálaráð er starfandi í dag. Að vissu leyti háir það þessari starfsemi að við erum með fyrirtæki sem hefur sérréttindi á sumum sviðum og gerir þar af leiðandi viss atriði í sambandi við ferðamálaþróunina mun erfiðari. Við höfum ferðamálastjóraskrifstofu sem hefur tekið að sér stóran hluta af því upprunalega verki sem Ferðaskrifstofa ríkisins hafði og vissulega var ástæða til þess að það fyrirtæki tæki það í sínar hendur þá. Ef við síðan horfum á þá upplýsingamiðstöð sem var sett á stofn fyrir ári tæplega, þá er hún komin með stóran hluta af því hlutverki sem ferðaskrifstofunni var ætlað í upphafi og vegna þess með hvaða hætti hún er rekin í dag er þessi upplýsingamiðstöð orðin til. Við erum komin með ferðamálasamtök út um allt land. Þessi samtök þurfa að hafa aðstöðu til upplýsinga í höfuðborginni og þegar ferðaskrifstofan er rekin orðið í samkeppni við þessa aðila sinnir hún þessu hlutverki ekki lengur.

Það er mín skoðun að við gerum rétt í því að samþykkja frv. Í lögunum í dag er heimild til að gera ferðaskrifstofuna að hlutafélagi aðeins með því að selja 30%, en það hefur að sjálfsögðu enginn áhuga á að kaupa 30% í slíku fyrirtæki og hafa ekki nein áhrif þar á vegna þess að meiri hlutinn ræður undir þeim kringumstæðum.

Fyrir mér er það síður en svo nokkuð heilög tala að það megi ekki selja meira en 2/3. Hins vegar er það að dómi ýmissa, m.a. kannski þeirra sem hér hafa talað, skynsamlegt að ríkið fari ekki alfarið þarna út og af því stafar það samkomulag sem gert hefur verið í sambandi við flutning á frv.

Í minni framsöguræðu vék ég einmitt að þeim sjónarmiðum, þeirri þróun, þeim atriðum sem að mínum dómi gera að verkum að það er skynsamlegra fyrir rekstur ferðaskrifstofunnar, það er skynsamlegra fyrir þróun ferðamálanna að breyta lögunum sem gilda í dag, fara með heimildina til sölu úr 30% upp í 2/3 þannig að þetta verði gert að hlutafélagi og það verði rekið með þeim hætti þannig að það séu einkaeigendur sem eigi 2/3.

Ég held einmitt að við eigum eftir á næstu árum að þurfa að gera mikið átak í ferðamálunum. Við eigum eftir að gera mikið átak til að ná til okkar hingað ferðamönnum til þess að þjónustuiðnaðurinn fái meira í sinn hlut. Það verða fleiri sem koma til með að eiga undir þjónustuiðnaðinum og við þurfum þess vegna að reyna að gera þetta með þeim hætti að það gangi sem auðveldlegast fyrir sig.

Síðan spurði hv. 11. þm. Reykv. um kaup og mat á söluverðmæti, hugsanlega með hvaða hætti þeir hlutir verða gerðir, og hv. 3. þm. Vesturl. sagðist gera kröfu til þess að eðlilegra hagsmuna ríkisins væri gætt. Auðvitað verður það gert. Auðvitað eru það hagsmunir eigandans í dag. Þeirra verður gætt. Við getum líka í leiðinni gætt hagsmuna þeirra sem þarna hafa starfað. Það eru engar reglur eða engin ákveðin formúla um hvaða starfsmenn það eru. Það er talað um starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins og ef einhverjir eru annars staðar en beint á skrifstofunni í Reykjavík verður það auðvitað samkomulagsatriði þeirra sem koma til með að kaupa fyrirtækið. Hvernig fari um þessa hluti ef einstakir aðilar sem í dag yrðu hluthafar hættu verður auðvitað að vera samkomulagsatriði og stofnsamningsatriði í þessu fyrirtæki.

Ég ætla ekki að lengja þessar umræður, en auðvitað verða allar upplýsingar lagðar fyrir nefndina í þessu máli. En það var vikið að Edduhótelunum. Við Edduhótelin hefur verið gerður samningur til þriggja ára, við þau Edduhótel sem hafa verið í samningum við ferðaskrifstofuna. Talið eðlilegt að á meðan þetta tímabil væri að líða, þ.e. frá því að selt er og þrjú ár á eftir, sé möguleiki á því að fyrirtækið hafi þá samninga sem það hefur haft. Þeir samningar hafa verið gerðir af samgrn. annars vegar og menntmrn. hins vegar. Hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir að þegar fram í sækir verða það skólarnir, Edduhótelin, það verður menntmrn. sem hefur forsjá fyrir því og með hvaða hætti það verður gert. Mér er ljóst að á sumum stöðum hafa samtök sveitarfélaganna viljað fá tækifæri til að ferðamálasamtök þeirra hafi samninga við þá skóla sem þar eru. En eins og kom réttilega fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. hefur verið gagnrýnt hvernig ein ferðaskrifstofa hefur haft einokun í þessum efnum og ekki aðrir haft tækifæri til þess. Það hefur sumpart skaðað og sumpart verið til góðs að þessir aðilar hafa verið hinir „stabílu“, en ég held að þegar fram í sækir verði, eins og hv. 6. þm. Vesturl. sagði, svo mikil breyting, þróunin svo ör í þessum málum að við eigum að byggja þetta upp á ferðamálalöggjöf sem gefur þeim einstaklingum, þeim hópum manna tækifæri til að sinna þessum málum sem það vilja gera.