25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6719 í B-deild Alþingistíðinda. (4667)

Lausn kjaradeilnanna

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að minna hv, málshefjanda á að á Íslandi eru lög sem gera ráð fyrir frjálsum samningsrétti verkalýðsfélaga og vinnuveitenda. Þessi frjálsi samningsréttur gefur mönnum frelsi til að gera samninga sín á milli og leggur um leið á herðar samningsaðilum skyldur gagnvart umbjóðendum sínum og þjóðfélaginu. Það standa yfir samningar á milli þessara aðila. Verslunarmannafélag Reykjavíkur og ýmis önnur verslunarmannafélög hafa boðað til vinnustöðvana til að knýja á um lausn þessara samninga. Ríkisstjórnin hefur ekki uppi áform um að leysa þessa samninga með lögum. Það hefur komið skýrt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og er hægt að endurtaka hér á hinu háa Alþingi að engin slík áform eru uppi.

Hv. málshefjandi vék að því að í kjarasamningum einstakra verkalýðsfélaga væru ákvæði þess efnis að þeir skyldu taka breytingum ef önnur félög semdu og gæfu tilefni til þess. Ég vil taka fram vegna þessa að það hefur engin ríkisstjórn í þessu landi gert neinar athugasemdir nokkru sinni við það að verkalýðsfélög eða samtök atvinnurekenda hefðu í frammi viðmiðanir við aðra kjarasamninga vegna kröfugerðar eða afstöðu til kröfugerðar og þessi ríkisstjórn mun ekki gera neina tilraun til að hindra verkalýðsfélög í slíkum málflutningi eða slíkri samningsgerð. Ég sé ekki að aðgerðir ríkisstjórnar til þess að hindra verkalýðsfélög í viðmiðunum sín á milli væru neitt annað en afnám samningsréttar og þar að auki hygg ég að hverjum hv. þm. hljóti að vera ljóst að það væri útilokað í frjálsu þjóðfélagi að fylgja slíkum ákvæðum eftir, jafnvel þó að þau væru sett.

Loks er það rétt að hluti af félögum í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur er sá hópur launþega sem hefur lægst laun. Annar hluti þeirra er sjálfsagt í miðju launastigans og þriðji hópur félagsmanna innan Verslunarmannafélagsins í þeim hópi launþega sem er efst í launastiganum, en þeir eru nú allir í verkfalli.

Ríkisstjórn hefur þau úrræði helst til þess að stuðla að tekjujöfnun og koma til móts við þá sem lakast eru settir að beita úrræðum í skatta- og tryggingamálum og það er rétt, sem fram kom í máli hv. málshefjanda, að þessi ríkisstjórn og sú ríkisstjórn sem sat næst á undan henni hafa stigið stór skref í því, mjög stór skref í því að hækka barnabætur og hækka skattleysismörk, hvort tveggja mjög mikilvægt fyrir þá sem lakast eru settir. Þetta eru þau úrræði sem ríkisstjórnir á hverjum tíma geta helst gripið til og slíkar ákvarðanir hafa verið teknar og tóku gildi um síðustu áramót.

Það er nauðsynlegt að þetta komi fram í umræðum um þessi efni. En ég vil, herra forseti, að lokum ítreka að það eru ekki nein áform uppi að hálfu ríkisstjórnarinnar að grípa inn í þessa deilu eða setja hana niður með lögum. Það hvílir sú skylda á samningsaðilum, sem hafa réttinn til að gera frjálsa samninga, að leiða þessa deilu til lykta. Þeir ræðast nú við undir stjórn ríkissáttasemjara. Deilan er ekki enn komin á það stig að það hafi verið sett fram sáttatillaga og þegar af þeirri ástæðu má vera ljóst að ekkert tilefni er til þess að ríkisstjórn grípi inn í deiluna.