05.11.1987
Neðri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

42. mál, áfengislög

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er að vísu leiðinlegt þegar varamenn á þingi varpa fram stórmálum og fá síðan leyfi til þess í tímaþröng að ryðja úr sér framsögu og eru síðan horfnir, leiðinlegt að geta ekki numið þá nefi þegar til andsvara kemur og eiga orðastað við fjarstadda menn. En við öllu verður ekki séð.

Hér erum við að fást við gamlan uppvakning sem hefur gengið hér aftur æ ofan í æ. Ég fyrir mitt leyti hef ekki átt í útistöðum við hann í þingsölum fyrr. Ekki af því sem það er ekki langt síðan ég snerist gegn því að leyft yrði lögum samkvæmt að brugga áfengt öl. Það eru liðin í ár 30 ár síðan. Það var þegar ég var boðinn til Danmerkur af dönsku verkalýðssamtökunum að kynna mér verkalýðsmál á því landi og væri hægt að segja langar sögur af þeirri reynslu sem var gróflega dapurleg og kom mér í opna skjöldu. En núna hafa upplýsingar, tiltölulega nýjar fyrir mér, gert það að verkum að nú vil ég reyna að spyrna við fæti þótt veikur sé. Og ég verð að segja að eftir að mönnum ætti að vera ljós hættan sem í boði er þykir mér í daprara lagi að sjá unga lagajúrista úr mínum flokki setja saman slíkar rökleysur eins og getur að líta í grg. með þessu frv., menn sem ég hef töluvert afhald af og mun reyndar hafa, því ég er sannfærður um að þeir muni komast til rétts ráðs áður en lýkur.

Menn geta haldið áfram að berja höfðinu við steininn og fullyrða að bruggun og sala áfengs öls muni ekki valda aukinni áfengisneyslu. Menn geta haldið þessu áfram að vild sinni berjandi höfðinu við steininn, neitandi staðreyndum úr öllum löndum heims þar sem þetta hefur verið rannsakað, köldum staðreyndum þar sem svo er að sjá, eins og í Finnlandi, að þetta hafi skipt sköpum um stórkostlega aukna drykkju og neyslu áfengis. En nýju upplýsingarnar sem gera það að ég hlýt að snúast ákaflega hart gegn þeirri tillögugerð sem hér getur að líta í frv. eru þær að reynslan hefur sannað, vísindamenn hafa sannað að áfengisneysla er undanfari frekari vímuefnaneyslu. Næstum því í öllum tilvikum er það svo að til ofneyslu áfengis megi rekja áframhaldandi neyslu vímuefna, annarra og stórhættulegra, vegna þess að alkóhólið er að sínu leyti ekki mjög háskasamlegt eitur. En það leiðir til þess arna. Og bjórinn er undanfari allrar frekari áfengisneyslu. Það er líka sannað. Það er hættan og háskinn sem ungdómnum er búinn þess vegna. Ofneysla áfengis er gífurleg sjálfsblekking. Samfara henni er gífurleg sjálfsblekking sem menn halda í fram af brúnunum og niður í hyldýpið. Og Íslandsmaðurinn, það þekki ég af eigin raun, er haldinn þeirri sjálfsblekkingu að hann sé ekki að neyta áfengis þegar hann er að drekka bjór. Ég hef hitt margan manninn eggfullan, dansandi á eyrnasneplunum, sem hefur lýst því yfir að hann hafi ekki smakkað dropa, bara bjór. Ekki bætir úr skák þetta viðhorf Íslendingsins til þessa alvarlega máls.

Ég hvet hv. þm. til að verða sér úti um skýrslu sem lögð var fyrir ríkisstjórn, mér er dagurinn minnisstæður, 16. okt. 1985, um ástand þessara mála, vímuefnaneyslu ungdómsins í Reykjavík á skólastiginu. — Og hrynja nú glösin sem ættu ella að verða undir bjórinn þegar hv. þm. Geir Haarde hefur fengið hann samþykktan á Alþingi. — Ég hvet menn til að kynna sér þessa skýrslu. Hún kom mér í opna skjöldu. Mér bauð ekki í grun að ástandið væri eins og það er. Og hvað halda menn að tæki þá við þegar við höfum bætt við áfengisneysluna með þeim hætti sem hér er lagt til að gert verði? Við skulum hætta þessum blekkingaleik um að hér þýði þetta ekki aukna áfengisneyslu. Því verða menn að hætta. Það er ekki boðlegt fyrir fullvita fólk að að því sé haldið slíkri röksemdafærslu þar sem færðar hafa verið sönnur á hið gagnstæða.

Ég held að það sé alveg ljóst og ég er sannfærður um að hver einasti hv. þm. mun taka undir að ekki sé á bætandi ástandið í áfengismálum á Íslandi. Mér dettur ekki í lifandi hug að einn einasti þm. finnist sem ekki er sammála því að við þurfum að bæta ástandið og megum ekki hætta á neitt að það versni. Ég hef sagt, þó að ég dragi slíkar yfirlýsingar við mig nú, en löngum eftir að ég hafði breytt um skoðun í þessu efni af reynslu minni í Danmörku hef ég sagt að ég skyldi greiða atkvæði með leyfi til bruggunar öls ef einhver gæti sýnt mér fram á, þó ekki væri nema með veikum rökum, að ég gæti átt von á því að það bætti ástandið í áfengismálum. Þetta hef ég sagt. En þessu er þveröfugt varið. Sannanir liggja fyrir óhrekjanlegar. Og það er dapurlegt. Og ég get því miður ekki tekið undir með síðasta hv. ræðumanni að hv. flm. gangi eitthvað gott til. Þetta er bara glæfraspil og ég óttast því miður að í bland sé einhvers konar þjónkun við hugsanlega kjósendur og menn þori helst ekki að standa í þessu ístaði líka vegna þess að hætta sé á að útlendingar geri grín að Íslendingum fyrir að hafa ekki leyft að brugga þennan drykk. Ég get ekki tekið undir að þetta sé í góðum tilgangi gert, a.m.k. glæfraspil, og röksemdafærslan tekur næstum því engu tali og er auðvitað afskaplega lík því þegar lögfræðingar eru að verja og sækja vont mál. Ég veit að hv. þm. kannast við aðfarirnar þegar svo stendur á.

Hér segir, með leyfi forseta, að tilgangur flm. sé að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja. Sannanir liggja fyrir um að þetta eykur áfengisneysluna þegar líður lengra á, líka drykkju sterkra drykkja og svo til viðbótar, sem nýjar upplýsingar liggja fyrir um, neyslu vímuefna annarra og bráðhættulegra.

Þeir vilja í öðru lagi breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar. Sala og almennur aðgangur að bjór mundi þýða að unglingar mundu í stórauknum mæli neyta áfengis. Það mundi þýða það sem ég sá með eigin augum í Danmörku út um öll foldar ból, á hverjum vinnustað þar sem verkamennirnir voru í hlutkesti um það allan daginn hver ætti að gefa næsta umgang. Það mundi hafa þær afleiðingar í för með sér, sem ég sá með eigin augum, að það sem híft var síðast upp úr lestunum á Gullfossi við Íslandsbrygge í Kaupmannahöfn voru drukknir Danir — fordrukknir Danir í einni bendu — eftir að hafa drukkið „bara öl“ allan guðslangan daginn. Þessi breyting verður á drykkjusiðum þjóðarinnar. Svo mega menn meta hvort það er til batnaðar eða ekki.

Svo kemur þriðja, og það er synd að hann skuli ekki vera staddur hér, hæstv. fjmrh. Þeir ætla að afla ríkissjóði tekna. Þetta er blákalt borið fram og fyrstu tveir flm. eru lagajúristar úr Sjálfstfl. (GHH: Bara annar.) Er ekki Jón Magnússon lagajúristi? (GHH: Jú, en ekki hinn.) Nú, hvað er þetta! Ég reiknaði bara með því því að flestir af okkar þm. eru þetta hvort sem er. Ég biðst margfaldrar afsökunar eða öllu heldur: Ég er feginn að heyra þetta.

Að afla ríkissjóði tekna! Og að hvaða staðreyndum komum við þá í þessu máli? Það er alveg lágmark að hyggju þeirra sem rannsakað hafa að það kosti tvöfalt meira hið opinbera vegna sjúkdóma og afleiðinga áfengisneyslu en það þénar á áfengissölunni. Og allt upp í fjórfalt meira hafa þeir þóst komast að raun um. Það mundi nú verða stærra gatið eða fleiri götin á gatasigtinu hæstv. fjmrh. ef þetta hefði verið leyft á liðnum árum. Auk þess slær manni auðvitað fyrir brjóst af þeirri röksemdafærslu að ætla að hætta þann veg til að auka neyslu, ég tala ekki um unglinga, með þessum hætti á áfengi og í framhaldi af því öðrum vímuefnum. Þó að það gæfi milljarða í ríkissjóð er þetta auðvitað brjálæðisleg röksemdafærsla. Sem það ekki gerir heldur er það þveröfugt!

Það á að efla íslenskan iðnað. Mér er sem ég sjái það á tímum frelsisins þar sem allt á að vera galopið og erlendir menn eiga að fá að kaupa hér upp banka. Auðvitað er það góðra gjalda vert því að þeir eru á hrakhólum hvort sem er. En þá er mér sem ég sjái að Carlsberg gamli verði ekki mættur hérna um leið og leyft er að brugga öl. Mér er sem ég sjái það. Raunar veit ég vel um það að þeir eru í startholunum þarna úti og voru hér um árið þegar menn áttu von á því að hið háa Alþingi mundi samþykkja leyfi til að brugga öl. Og það eru engir fjármunir hér til að hamla gegn því, enda eru menn þeirrar kenningar að nú megi þetta allt vera galopið. Þótt Efnahagsbandalagslöndin verji sig í líf og blóð með tollmúrum himinháum og sína landbúnaðarframleiðslu skilst mér að það sé nokkurn veginn í þeim startholum að fella niður allt slíkt og galopna þetta hér.

Svo á að samræma með þessu áfengislöggjöfina og mér sýnist einhvers staðar hér aftar að samræmið sé þá helst í því fólgið að sveigja drykkjuvenjurnar til, að menn verði þá allan daginn fullir af öli í staðinn fyrir að drekka sig á helgum, eins og hér er að vísu landlægur siður, drukkinn — og á helgum sem stundum vilja verða fulllangar. Það er þetta samræmi sem mér skilst að þetta hljóti þá að stefna að.

Síðan eru hér uppi röksemdir um að það sé hér svo mikið öl í landinu. Þetta er fráleit röksemdafærsla. Enda þótt mig minni að það séu tólf flöskur sem hver maður fær að kaupa í tollvörubúðinni á Keflavíkurflugvelli þegar hann kemur til landsins er það eins og einn dagskammtur danska verkamannsins. Það hef ég líka séð, hver er dagskammtur hans. Og áfengt öl er ekki aðgengilegt ungu fólki. Þó að það sé hægt að telja fram að hér muni vera allmikið af sterku öli á markaði jafnvel er fráleitt að halda því fram að það sé aðgengilegt, að ég ekki tali um skólaæskunni. Svo er ekki. Það eru falsrök og rangar upplýsingar.

Þetta frv. á að verða til þess að samræma Ísland tíðarandanum eins og það heitir. Við getum ekki verið sér að þessu leyti. Tíðarandinn krefst þess. Skólafólk hefur kynnst þessu úti í löndum og þess vegna þurfum við að hafa það hér. Hvernig voru þeir útlits, vinir mínir, sem ég hitti í fyrsta skipti eftir að við höfðum verið saman í skóla, sumir hverjir, í Kaupmannahöfn þegar ég þangað kom 1957? Hvernig ætli ástandið hafi verið á sumum bæjum þá og af hverju? Þeir voru ekki að drekka vín. Þeir voru „bara“ að drekka öl og átti mestan þátt í að sumir þeirra luku aldrei námi og aðrir veltust í því miklu fleiri ár en þörf hefði verið á. Þetta þekkja allir menn og eru ekki ný sannindi.

Hér er slegið ýmsu föstu sem stangast á við rannsóknir og staðreyndir, eins og þetta, sem er allt málið: Eykur það eða minnkar drykkju, neyslu áfengis, alkóhóls? Og sannanirnar liggja fyrir á borðinu.

Svo segir hér, og viljið þið nú hlusta á samsetninginn, herra forseti, með hans leyfi: "Flm. telja, miðað við reynslu annarra þjóða, að til þess geti komið að heildaráfengisneysla á hvern íbúa aukist eitthvað við tilkomu áfengs öls án þess þó að það valdi aukinni ölvun eða drykkjusýki.“ Það er einmitt! Lesi menn þessa setningu fyrir sér og líti nú á allt innihaldið. Þeir telja að þetta geti komið til, en það verður enginn fullur af þessu. Allt tóm, talað út í vindinn gegn betri vitund.

Og þetta á að gera með verðstýringu. Er það þá þann veg að skilja að þetta eigi að gera með því að okra á ölinu? Hvað segja frjálshyggjumennirnir um það? Á ekki markaður að fá að ráða? Hvenær kom þetta til, að eigi nú að fara að miðstýra ölverðinu þegar við ætlum að fara að opna landið fyrir gamla Carlsberg og lofa honum að flytja hér inn og allt er opið fyrir þessa vöru? Hvernig dettur mönnum í hug að ætla að fara að verðstýra þessu með einhverju okri og með leyfi að segja: Hver er reynslan af sölu áfengisins? Þetta breytir engu. Fyrstu vikuna eftir að áfengi hefur verið stórhækkað í Áfengisverslun ríkisins finna menn á þessu örlítinn mun, en síðan eftir það engan, aldrei nokkru sinni, hversu há og mikil sem hækkunin hefur verið. Og menn gera þetta til að rétta af ríkissjóð. Ég er innilega sammála því að okra á þessu undir drep því að það borgar sig þó að það verði ekki nema til þess að draga úr eina helgi að menn drekki frá sér vitið.

Það er sagt hér að því hærra verð á áfengi, þeim mun minni neysla. Allt eru þetta falsrök og því miður ekki óviljandi. „Miðað við þessar forsendur“, segir hér, „er afar ólíklegt að tilkoma áfengs öls leiði til aukinnar drykkju á vinnustöðum.“ Ég hef sagt ykkur frá því sem ég sá með eigin augum þegar ég var boðinn að læra verkalýðspólitík á danskri grund og ég var leiddur dögum saman á milli vinnustaða, m.a. í kaupfélögin í Kaupmannahöfn, við Njálsgötu, hitti þar „tillidsmand“ Jensen sem fór með mig um þau gömlu og miklu húsakynni. Honum var auðvitað ekki nóg að stansa í kjallaranum þar sem vín var blandað heldur lét hann taka frá fyrir sig þegar hann lagði upp í förina með morgninum. Fyrst drakk hann fjórar flöskur meðan ég var að tala við hann uppi í matsalnum og svo lét hann kokkinn setja kassa með tíu flöskum undir borðið hjá sér í skrifstofunni og svo fór hann af stað og endaði auðvitað með mig í vínkjallaranum og þá var „tillidsmand“ Jensen orðinn afskaplega alúðarfullur í garð Íslendinga án þess að ég ætli að rifja það frekar upp.

„Raunar er ólíklegt“, segir enn, „að áfengisneysla geti svo nokkru nemi frá því sem nú er náð til yngri aldurshópa.“ Frá því sem nú er? Hvað er átt við? Það er ekki svo, sem betur fer, að skólaæskan sé öll að drukkna í áfengi. Það er ekki svo. Ef þeir eiga við að það sé ekkert á bætandi þar. En ef þeir eiga við að þetta auðveldi ekki aðgang ungs fólks og auki hættuna á því að það neyti áfengis eru það vísvitandi ósannindi, stangast á við alla reynslu sem menn hafa heyjað sér í öðrum löndum.

Og svo tekur steininn úr og hér er að vísu á ferðinni fyndni, þó mér sé ekki hlátur í hug, sem er greinilega hægt að hlæja að með öllum kjaftinum, þar sem segir að menn þurfi kannski ekki að óttast að menn drekki hér mikið því að hér sé vatnið svo gott og fullt af óáfengum svaladrykkjum. Ég hef engu við þessa röksemdafærslu að bæta.

Það er svo mikið framboð af ódýrum og ókeypis svaladrykkjum, segir hér. Og vatnið. Til að mynda vatnið er þannig að Íslendingar munu aldrei leggja sér til munns erlenda vatnið. Hér heima er þetta þannig að menn munu náttúrlega hætta að drekka áfengi og fara út í vatnsdrykkju, ef maður á að taka eitthvað af þessu alvarlega sem maður ekki gerir í þessu falli.

En hvað segja sérfræðingar? Ég ætla ekki að leiða marga fram til vitnis: Það eru sérfræðingar sem hafa rannsakað þessi mál. Og það eru engar bindindishetjur úr IOGT sem ævinlega eru dæmdar af fyrir ofstæki sitt í þessum málum. Og varla er hætta á því að sá sem hér stendur verði kenndur við bindindisofstæki svo að þess vegna þarf ekki að dæma orð hans dauð og ómerk eins og mönnum hættir til að gera þegar Halldór á Kirkjubóli t.d. tekur til máls. Ég hef undir höndum tilvitnanir í sérfræðinga á þessu sviði, t.d. að taka Jóhannes Bergsveinsson, yfirlækni meðferðardeildar ríkisins fyrir áfengissjúklinga. Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Reynsla annarra þjóða af því að leyfa sölu áfengs öls hefur hvarvetna orðið sú að það hefur leitt til meiri neyslu vínanda og aukins skaða af hans völdum.“

Vilja menn dæma af sem einskis nýtan þennan vitnisburð þessa sérfræðings og öfgalausa manns sem hefur séð hörmungina sem áfengisneyslan hefur leitt yfir fólk og veit hvað í boði er í þessu falli?

Jóhannes segir enn fremur: „Virka efnið í áfengi er vínandi og skiptir engu máli hvort um er að ræða brennda drykki, vín eða áfengt öl. Áhrif vínandans eru ætíð hin sömu.“

Hér er leiddur til vitnis Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir SÁÁ. Hann tekur í sama streng að öllu leyti.

Það hefur verið unnið að rannsóknum á áfengismálum hér á landi síðan 1967 og þar er talið að hæst beri rannsóknir á vegum Háskóla Íslands undir stjórn dr. Tómasar Helgasonar prófessors í geðlæknisfræði og forstöðumanns geðdeildar Landspítalans. Tómas heldur því fram og leiðir að því margvísleg rök að neysla muni aukast verði bjór leyfður í landinu. Hann segir svo, með leyfi forseta, og það kom reyndar fram í máli hv. fyrra ræðumanns:

„Þjóðhagsstofnun hefur gert áætlun um hver áfengisneysla verði ef bjórstefnan verður ofan á. Í stað þess að minnka um fjórðung, eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur nauðsynlegt, mun hún aukast um þriðjung.“

Það var ekki öðruvísi! Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur eftir rannsóknir sem fram hafa farið hér á landi að nauðsynlegt sé að minnka áfengisneysluna um fjórðung, en álítur hins vegar það þveröfuga, að hún muni aukast um þriðjung ef sterkt öl verður hér aðgengilegt fyrir allan almenning. Og það þarf ekki að tala um hvert áfall það yrði okkur Íslendingum að brjóta svo gegn augljósum niðurstöðum virtrar alþjóðastofnunar.

Ég get haldið áfram að leiða miklu fleiri til vitnis um það. Pétur Pétursson, heilsugæslulæknir á Akureyri, segir svo, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar sannfæring mín að með tilkomu áfengs öls á borð og í búðir landsmanna muni áfengisneysla ungmenna og dagdrykkja þjóðarinnar aukast að miklum mun og vitna ég þar til reynslu Finna sem fyrir áratug rýmkuðu áfengislöggjöf sína“ og lýst var hér með skýrum dæmum af hv. síðasta ræðumanni.

Ég læt hér staðar numið við tilvitnanir að þessu leyti. Það er af nógu að taka. Ég verð að segja að það mundi valda mér gífurlegum vonbrigðum eftir þær upplýsingar sem nú liggja fyrir, og þá einkum og sér í lagi þessar nýju köldu staðreyndir um að áfengið sé undanfari hinnar ógnarlegu eiturlyfjaneyslu, ef hið háa Alþingi teldi nú vera kominn tíma til að breyta til í þessu efni. Mér er það hreint og beint óskiljanlegt og það getur ekki verið fyrir annað en sofandahátt að menn vilja ekki opna augun fyrir þessum staðreyndum sem hægt er að tefla fram og hvarvetna liggja á lausu ef menn hirða um að kynna sér það.

Og eins og ég segi, herra forseti: Ég vil ýmislegt á mig leggja til þess að svo mætti ekki verða vegna þeirrar sannfæringar minnar sem ég hef eignast um það að hér séum við að hætta gífurlega miklu til, að hér sé hreint glapræði á ferðinni. Menn sletta í góm og segja: Hinn saklausi bjór. Hvað eru menn að taka svona djúpt í árinni? Hvað eru menn að kveða svona fast að orði þegar í hlut á hinn saklausi bjór? Þetta er ekki svona. Staðreyndirnar tala allt öðru máli. Hvað ætli þeir hugsi, sem ætla sér nú að hleypa þessari skriðu af stað, eftir eins og tíu ár þegar það þarf ekki spámann til að segja það fyrir að rannsóknir muni færa okkur heim sanninn um að það hafi flætt yfir skólaæskuna í landinu hinn saklausi bjór eins og Íslandsmaðurinn því miður hefur afstöðu með þeim hætti til?

Ég ætla enga spádóma að hafa uppi um afstöðu hins háa Alþingis. Ég sé að fjölmiðlar eru farnir að greiða atkvæði um málið. Ég vonast hins vegar til þess að hægt verði að opna augu hins háa þingheims fyrir þessum staðreyndum því að það er sjaldan sem hinu háa Alþingi hefur legið annað eins á að koma staðreyndum fram og haga sér eftir þeim og í þessu máli.