09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

Fundardagar og dagskrá

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti hefur lýst breytingum á vinnureglum þingsins og vil ég fagna því. Ég held að þær breytingar sem gerðar hafa verið á húsgögnum, sem hann minntist á, komi til með að reynast vel þó svo ég leggi áherslu á að það vantar bréfakörfur til viðbótar við þær sem þegar eru komnar. Það er óþægilegt að þær skuli ekki vera fleiri.

Það sem ég vil segja og fagna er sú dagskrá sem hefur verið lögð hér fram. Ég hef frá því að ég kom á Alþingi 1974 gert athugasemdir við þau vinnubrögð sem hafa verið. Ég var hér þingsveinn fyrir stríð, kringum 1935–1938, og þá var fyrirkomulagið þannig að dagskrá með öllum skjölum var borin heim til allra þm. degi fyrir þingfundi þannig að þm. höfðu heima hjá sér kvöldið áður en til þingfundar var boðað öll þau skjöl sem til þurfti á viðkomandi þingfundi. Ég tel að sú breyting sem nú hefur verið gerð sé mikið til bóta og eiga forseti og starfsfólk þingsins þakkir skildar.

Einnig vil ég geta þess, sem ég hef líka gert áður, að ég held að það hljóti að vera mjög stórt spor aftur á bak frá því sem áður var að inn fyrir fremri dyr hér komu aldrei neinir aðrir en þm. og starfsfólk skrifstofu þingsins, en í dag vaða hér um blaðamenn og hverjir sem vilja utanaðkomandi eftir því sem hverjum og einum dettur í hug. Það getur bæði verið hættulegt og það er mjög til óþæginda og ég vona að við þessar góðu breytingar, sem forseti hefur nú kynnt, verði frekari reglu komið á Alþingi.