26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6816 í B-deild Alþingistíðinda. (4744)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir nál. menntmn. Nd. með fyrirvara og hlýt að gera grein fyrir því hvers vegna.

Í fyrsta lagi vantar algerlega heilsteypta menntastefnu á því skólastigi sem hér um ræðir. Hér eru allt í einu að spretta upp skólar sem eiga að taka við að framhaldsstigi loknu án þess að skilgreint hafi verið hvers konar skólar þetta eigi að vera. Eiga þeir að uppfylla sömu kröfur og við gerum til Háskóla Íslands hvað varðar rannsóknastarfsemi og tengja þannig vísindalega fræðslu og rannsóknir? Það er skoðun margra að vísindalegri fræðslu verði ekki sinnt sem skyldi nema hún tengist vísindalegum rannsóknum og rannsóknaskylda kennara alger frumforsenda þess að slíkt megi takast. Það verður ekki séð að Háskólinn á Akureyri uppfylli þessi skilyrði og mun því heldur flokkast undir fagskóla eða starfsmenntunarskóla. Ég er ekki að draga úr nauðsyn þess að slíkir skólar verði stofnaðir, en það verður þá að vera að vel athuguðu máli þar sem skilgreiningar á markmiðum og fyrirkomulagi öllu eru skýrar.

Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni nú þegar frv. um háskóla á ýmsum sviðum eru ýmist komin fram eða hafa verið boðuð, háskóla sem e.t.v. þegar grannt er skoðað eru fagmenntunarskólar sem eiga lítið skylt við „universitas“ samkvæmt hefðbundinni merkingu þess orðs og sem við Íslendingar höfum kallað háskóla. Það er brýn þörf á skilgreiningu sem gerir greinarmun á þessum tveim stigum og sú skilgreining liggi fyrir svo ekki verði rasað um ráð fram.

Menn óttast að innan fárra ára verði talsvert öngþveiti ríkjandi á þessu skólastigi, þ.e. að loknu framhaldsskólastiginu, af því að mál hafa ekki verið grunduð í upphafi og e.t.v, er stofnun háskóla á Akureyri dæmi um starfsaðferðir sem ekki eru heppilegar þegar móta skal skólastefnu. Fyrst er stofnaður skóli, síðan eru sett lög og greinilegt að þeim er einungis ætlað að vera til bráðabirgða, svo losaraleg sem þau eru bæði hvað varðar markmið, leiðir, stjórnun og innra starf allt og þar að auki boðuð endurskoðun innan þriggja ára.

Vissulega kallar síbreytilegt þjóðfélag á fjölbreytni í skólamálum og aðlögunarhæfni er nauðsynleg. Það er ljóst að þegar framhaldsskólar eru nánast farnir að gegna sama hlutverki og gagnfræðaskólar eða grunnskólar gerðu áður er þörf á sveigjanleika fyrir ofan það skólastig. Ekki er hægt að búast við að allur sá fjöldi sem nú lýkur framhaldsskólastigi kjósi eða sé fær um akademíska menntun og því vantar fleiri kosti. Þjóðfélagið og vinnumarkaðurinn gera síauknar kröfur til sérhæfingar og starfsmenntunar, ekki síst á sviði tækni og verklegrar þjálfunar, og við því er sjálfsagt að bregðast, en það má ekki einkennast af asa líkt og nú virðist raunin.

Eins er vert að hafa í huga að þó sjálfsagt sé að taka tillit til byggðasjónarmiða og heppilegt sé að fólk geti leitað menntunar sem næst sinni heimabyggð má það ekki bitna á gæðum menntunarinnar þannig að það verði einhvers konar annars flokks menntun sem fólkið getur sótt í sinni heimabyggð.

Það er alls ekki ljóst í því frv. sem hér liggur fyrir hvers konar menntastofnun hér er um að ræða, hefðbundinn háskóla með vísindalegum skyldum og rannsóknum eða fagháskóla. En vonandi verður sá tími sem tilgreindur er í frv. þar til lögin skuli endurskoðuð notaður vel til heildarendurskoðunar, ekki bara á þessum skóla heldur fleiri álíka sem boðaðir eru. Í þeirri heildarendurskoðun þarf að taka tillit til margra þátta. Hvernig tengjast þessir núverandi og tilvonandi háskólar öðrum skólum? Getur nám í einum nýst í öðrum? Hvernig verður stjórn þeirra háttað? Hverjar verða skyldur þeirra og markmið? Svo mætti lengi telja. Endurmenntun, fjarnám og fleira í þeim dúr hlýtur líka að tengjast þeirri heildarmynd.

Um innra starf skólans, svo sem um ráðningu rektors, hlutverk deildarstjóra, skólanefnd o.fl., ætla ég ekki að fjölyrða hér en á því eru margir meinbugir. Öll þessi ákvæði þarf að skoða betur, en úr því sem komið er er lítið hægt að gera annað en að vona að þessi hálfgerða „hrákasmíð“, sem þetta frv. er, sé einungis til bráðabirgða eins og hún leggur sig, til þess gert að setja skóla sem þegar hefur verið stofnaður og starfsfólk verið ráðið við einhverja lagalega stoð, og raunverulegur vilji sé til gagngerðrar endurskoðunar skv. 14. gr. frv. og sú endurskoðun verði í samhengi við þá heild sem huga verður að.