09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

66. mál, dreifing sjónvarps og útvarps

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. á þskj. 69, sem ég er 1. flm. að, um dreifingu sjónvarps og útvarps, en tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá svo um að á næstu þrem árum (1988, 1989 og 1990) verði nægjanlegt fjármagn tryggt svo að koma megi upp þeim búnaði sem þarf til þess að allar útsendingar Ríkisútvarpsins frá stöðvum þess í Reykjavík náist hvar sem er á landinu.“

Í grg. segir:

„Sú staðreynd blasir við að enn hefur ekki tekist að dreifa hljóðvarps- og sjónvarpssendingum til allra landsmanna. Stendur víða svo á að fólk sem býr á ákveðnum svæðum fær ekki notið sjónvarps og nýtur mjög lélegra hlustunarskilyrða hljóðvarps. FM-kerfið hefur ekki komið að þeim notum sem til var ætlast og almenningur gerði sér miklar vonir um. Dreifikerfi sjónvarps er ekki síður áfátt þegar farið er að kanna það mál.

Flutningsmenn hafa upplýsingar um það frá Ríkissjónvarpinu sjálfu að um 80 sveitabæir á landinu séu sjónvarpslausir eða búi við mjög slæm móttökuskilyrði og fjöldi sveitabæja búi við léleg hljóðvarpsskilyrði, ekki síst hvað varðar rás 2. Um það eru mjög mörg dæmi að útvarpsnotendur heyri alls ekki sendingar hennar.

Þetta ástand er ekki viðunandi, enda í andstöðu við þá mörkuðu stefnu í útvarpsmálum að Ríkisútvarpið skuli vera útvarp allra landsmanna. Sú stefna hlýtur að gilda um allar aðalsendingar á vegum Ríkisútvarpsins, hvort heldur er hljóðvarpið með sínar tvær rásir eða sjónvarpið.

Ríkisútvarpið hefur miklum skyldum að gegna við fólkið í landinu, enda standa allir landsmenn undir kostnaði við rekstur þess, beint eða óbeint. Ríkisútvarpið er samkvæmt tilgangi sínum sameiginleg menningarstofnun þjóðarinnar og aðalfréttamiðill sem ætlað er að ná til landsins alls. Því er ekki hægt að segja að Ríkisútvarpið standi fyllilega undir nafni meðan dreifikerfið er eins og raun ber vitni. Verður auk þess að telja þetta varhugaverða framkvæmd á þeirri meginstefnu Ríkisútvarpsins að vera útvarp allra landsmanna þegar samkeppni um útvarpsrekstur fer harðnandi í landinu. Í rauninni þarf Ríkisútvarpið að sinna landsbyggðinni því betur sem þessi samkeppni í útvarpsrekstri á sér fyrst og fremst stað í þéttbýli. Ríkisútvarpið verður að skera sig úr að þessu leyti miðað við aðrar útvarpsstöðvar, leggja áherslu á að senda út efni sem ætlað er öllum landsmönnum og vinna ötullega að uppbyggingu dreifikerfisins.

Ef til vill þykir einhverjum sá kostnaður, sem fullkomið dreifikerfi hljóðvarps og sjónvarps leiðir af sér, mikill. Þessi kostnaður er þekktur. Flutningsmenn hafa heimildir fyrir því að það muni kosta um 65 millj. kr. að bæta úr ágöllum dreifikerfisins. Með skipulegum áætlunum og viðeigandi áherslum við röð framkvæmda hjá Ríkisútvarpinu er ekki mikið vandamál að ná því takmarki sem þessi þingsályktunartillaga stefnir að.

Ríkisútvarpið mun minnast 60 ára afmælis síns eftir þrjú ár. Færi vel á því að stofnunin setti sér það mark að hafa lokið við dreifikerfið þegar 60 ára afmælið rennur upp árið 1990.

Alþingi og ríkisstjórn þurfa að láta þetta mál til sín taka, enda er það tilgangur þessarar þingsályktunartillögu að svo megi verða.“

Herra forseti. Nú loks hillir undir það að Ríkisútvarpið komist í eigið húsnæði sem rúmar starfsemi þess alla. Til þessara framkvæmda hefur farið mikið fé og enn skortir þar á svo að starfsemin verði öll undir sama þaki sem æskilegt hlýtur að teljast. Verði þessi þáltill., sem hér er til umfjöllunar, samþykkt er það ljóst hvað fjárhagshliðina varðar að málið er vel framkvæmanlegt og á ekki að raska stórlega fyrri áformum um uppbyggingu hjá Ríkisútvarpinu.

Það er mikið réttætismál að sjá svo um að landsmenn allir fái notið þess að heyra og sjá útsendingar Ríkisútvarpsins að því ógleymdu hversu mikið öryggistæki Ríkisútvarpið er.

Ég veit satt að segja ekki hver það er sem hefur tekið sér það umboð að ákveða hver skuli geta horft á sjónvarp og hver ekki, hver skuli geta hlustað á útsendingar hljóðvarps og hver ekki. Það er af þessu tilefni m.a. sem þessi tillaga er flutt. Alþingi þarf hér að koma til og kveða skýrt á um að Ríkisútvarpið skuli áfram sem hingað til vera útvarp allra landsmanna og að allir skuli jafnsettir hvar sem þeir búa á landinu.

Herra forseti. Ég vænti þess að þetta mál fái vinsamlega afgreiðslu hér á Alþingi. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umræðu og félmn.