27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6894 í B-deild Alþingistíðinda. (4838)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að leggja eina spurningu fyrir fjmrh. og raunar gerði honum viðvart ef hann væri hér í næsta nágrenni. (Forseti: Það er verið að aðvara fjmrh.) Á meðan ég bíð eftir honum vil ég taka undir með hv. 1. þm. Vesturl. í sambandi við frv. sem er nr. 2 á dagskrá. Ég er alveg undrandi á því miðað við þá atkvæðagreiðslu sem varð út úr 2. umr. ef það er svo uppi — (Forseti: Ég vil taka það fram að það er ætlunin ef tími gefst til að 2. dagskrármálið komi einnig til afgreiðslu hér. Frestunarbeiðni hefur verið afturkölluð á því.)

Er ekkert vitað um fjmrh.? Mér finnst það vera nauðsynlegt miðað við þær upplýsingar sem komu fram hjá frsm. málsins, hv. 1. þm. Vesturl., um að það hefði verið samkomulag um að það komi 110 millj. í þennan þátt, að hæstv. ráðherra lýsi því yfir hér á Alþingi að við þetta verði staðið. Það eru óþolandi vinnubrögð að það skuli gert samkomulag með forustumönnum stjórnarflokkanna sem eiginlega má ekki sýna. Þó að ég meti mikils það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. og það verði í þskj., þá er það ekki nægilegt.

Ég var að óska, hæstv. fjmrh., eftir því að þú kæmir hér í ræðustól og lýstir því yfir að við það samkomulag forustumanna stjórnarflokkanna sem hv. 1. þm. Vesturl. tilkynnti, um 110 millj., yrði staðið til að þetta frv. yrði einhvers meira virði en pappírsins. Ég tel það þó verulega tryggingu fyrir því að þetta frv. verði að einhverju gagni ef slík yfirlýsing kemur hér frá hæstv. ráðherra. Ég óska eftir því og ég hef gert það áður í svipuðum tilvikum, að óska eftir því að viðkomandi ráðherrar gæfu yfirlýsingar þegar það kemur ekki fram á nægilega tryggilegan hátt hvernig samkomulag hafi verið um slík atriði.