28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6905 í B-deild Alþingistíðinda. (4855)

410. mál, mengun í álverinu í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Vegna ummæla hæstv. iðnrh. er rétt að benda honum og hv. þm. á að það er ekkert séð fyrir um það hvaða tjón íslenska ríkið kann að hafa af notkun gallaðra rafskauta vegna framleiðslunnar og uppgjörs við álverið í Straumsvík. Þetta hefur áhrif á rekstur yfirstandandi árs. Kannski skilar fyrirtækið hagnaði þannig að það greiði einhverja skatta umfram lágmarksframleiðslugjald og þá er ansi hætt við því að notkun þessara gölluðu rafskauta komi einnig þar við sögu.

En það þýðir lítið að vísa í lög og ákvæði í aðalsamningi og í íslenskum lagaákvæðum, ef ekki er unnt að framfylgja þeim eða a.m.k. er ekki allt gert til þess að við þau sé staðið.