28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6975 í B-deild Alþingistíðinda. (4925)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Svo sem endranær hefur sannast í þessum umræðum að hverjum þyki fugl sinn fagur. Lofgjörð um núverandi ríkisstjórn hefur því lítið gildi. Það er hins vegar athyglisvert svartnættið í árásarræðum þeirra sem eru andvígir ríkisstjórninni.

Stjórnarmyndun tók langan tíma. Allir möguleikar voru reyndir. Niðurstaðan varð sú ríkisstjórn sem nú tekst á við vandann. Þeir sem nú eru utan ríkisstjórnar, a.m.k. Kvennalisti og Alþb., áttu þess kost að takast á við það heillandi verkefni að jafna lífskjörin, að búa öldruðum fagurt ævikvöld, að móta framtíð velferðarkerfisins til heilla ungum sem óbornum sem við jafnaðarmenn leggjum svo mikla áherslu á. Þessir flokkar kusu hins vegar að hlaupast frá ábyrgð og lifandi starfi við uppbygginguna sem við stöndum nú að, við jafnaðarmenn.

Það eru tvenns konar viðhorf ætíð á kreiki. Annars vegar að byggja upp, láta bjartsýni og hugsjónir um betra mannlíf móta hugann, og aftur þeir sem ætíð sjá svartnættið sjálft, rífa niður, skrökva að fólki um markmið og leiðir þeirra sem ábyrgðina axla.

Ég fer ekkert í felur með það að ýmsar ráðstafanir sem gerðar hafa verið hafa verið erfiðar. Það hefur þurft að gera óvinsælar aðgerðir sem mælst hafa misjafnlega fyrir. Félagar mínir í verkalýðshreyfingunni og flokknum hafa oft spurt mig: Hvers vegna? Var þetta nauðsynlegt? Við höfum síðan rætt hvert einasta skref. Við höfum þá fullvissu að þessar aðgerðir hafi verið nauðsynlegar til að undirbúa viðreisn velferðarkerfisins.

Það hafa blásið kaldir vindar um hreyfingu okkar jafnaðarmanna. Í fjölmiðlum og í umræðum á vinnustöðum hefur vart verið um annað talað en ráðherra Alþfl. Þeir hafa líka verið starfsamir. Þeir eru að undirbúa jarðveginn fyrir framgangi þeirrar félagshyggju sem í brjóstum okkar býr. Að stjórna, að axla ábyrgð krefst kjarks, krefst þess að hafa þor til að gera þá hluti sem nauðsyn krefur þótt það verði á kostnað stundarvinsælda.

Það er öllum ljóst að arfurinn frá síðustu ríkisstjórn var miklu verri en okkur grunaði. Það ríkti óráðsía og skuldabyrði var með ólíkindum. Það var þó sýnu verst að tækifærin sem góðærið skapaði voru ekki gripin heldur glötuðust og þau koma aldrei aftur.

Alþfl. og jafnaðarstefnan hefur ekki sett mark sitt á landsstjórnina í tæpa tvo áratugi. Það eitt segir sína sögu um það hvað margt er ógert í málefnum húsbyggjenda, málefnum aldraðra, í málefnum fatlaðra og þeirra annarra sem lakast eru settir í þjóðfélaginu. Höfum í huga að það eru aðeins örfáir mánuðir liðnir frá því starfið, uppbyggingin var hafin. Það er því í besta falli barnalegt að flytja nú vantraust á ríkisstjórnina. Þeir sem nú flytja vantraustið yrðu í raun skelfingu lostnir kæmi sú ólíklega staða upp að vantrauststillagan yrði samþykkt. Hver trúir því að Borgarafl. og Alþb., sem er að hverfa, hafi áhuga á slíku? Og segjum nú svo að þeir slyppu við kosningar. Hver vill kalla yfir sig efnahagsstjórn sem Alþb. og Albert Guðmundsson voru sameiginlega fulltrúar fyrir? 130% verðbólgu, sífelldar kauplækkanir með krukki í kjarasamninga. Aldrei hafa íslenskir launþegar átt eins erfitt og undir stjórn þessara herra. Verkalýðshreyfingin var í sífelldri varnarbaráttu. Það var ekki fyrr búið að semja um laun en búið var að hækka alla hluti til að taka það sem samið var um og meira en það.

Í hugum þeirra sem vilja sterka verkalýðshreyfingu og réttlátt stjórnarfar klingir hugsunin: Aldrei, aldrei aftur þetta lið.

Nú er Kvennalistinn kominn í slagtog með þessu liði. Sá flokkur hefur aldrei axlað ábyrgð og er því óræð stærð. Kvennalistinn hefur verið mjúkmáll, vill allt gera fyrir alla. Allir, hvort sem þeir eru hálaunamenn eða láglaunamenn, eiga að fá kröfum sínum framgengt. Kvennalistinn vill lækka skatta, jafnframt bera þær fram tillögur um stórfengleg útgjöld. Útgjaldatillögur þeirra á þinginu í vetur kosta milljarða kr. Og þegar spurt er hvar taka eigi peningana koma engin svör. Fengju þær tillögur sínar samþykktar yrði að hækka skatta meira en nokkru sinni fyrr — eða vilja þær minnka framlög til velferðarmála og þeirra sem minnst mega sín? Ég hefði ekki trúað þessu fyrr en í gær.

Jóhanna Sigurðardóttir, ráðherra Alþfl., hefur á undanförnum mánuðum barist hetjulegri baráttu við afturhaldið í þinginu. Hún hefur barist fyrir kaupleigukerfinu sem er ný leið fyrir láglaunafólk til að fá þak yfir höfuðið, ný leið fyrir landsbyggðina til að halda uppi byggð í landinu. Kvennalistinn hefur margoft rætt um þörf á leiguíbúðum og húsnæði fyrir láglaunafólk. Í gær kom það fram að þær telja kaupleiguna ótímabæra, hafa allt á hornum sér, vilja ekki samþykkja málið. Og nú, þegar reynir á þennan sótthreinsaða stjórnmálaflokk, þá bregst hann, þá er félagshyggjan einskis virði, bara orð og atkvæðaveiðar.

Sú óstjórn sem ríkti hér á landi þegar óðaverðbólgan var sem verst setti afkomu heimilanna og atvinnulífsins í hættu. Menn skynjuðu að við svo búið mátti ekki standa. Verkalýðshreyfingin og Alþfl. bentu á að óðaverðbólgan er versti óvinur þeirra lægstlaunuðu í landinu. Þess vegna beittum við okkur fyrir því að verkalýðshreyfing og ríkisvald næðu sáttum í því skyni að lækka verðbólguna. Verkalýðshreyfingin sá að þjóðfélagið var að brenna, kjörin, atvinnan var í hættu. Þessi ábyrga afstaða verkalýðshreyfingarinnar gerði það að verkum að kaupmáttur jókst. En hvað hefur gerst? Enn stöndum við frammi fyrir gríðarlegum erfiðleikum því góðærið er á förum.

Það hefur mátt merkja gífurleg vonbrigði hjá stjórnarandstöðunni undanfarnar vikur vegna þess að stærstu launþegasamtök landsins hafa náð kjarasamningum. Þeir kjarasamningar hafa miðast við jafnvægi í efnahagsmálum. Þeir hafa grundvallast á þekkingu og skilningi þess fólks sem vinnur við undirstöðugreinar þjóðarbúsins, fólks sem veit hver er staða iðnaðar og fiskvinnslu, fólks sem veit hvað verðbólgan er hættuleg og hve atvinnuleysi er nærri. Það er staðreynd að kauptölur skipta ekki öllu máli heldur hvað fyrir krónurnar fæst. Út af fyrir sig er hagstæðara að fá 5% kauphækkun með stöðugu verðlagi en 20% kauphækkun þar sem verðlag leikur lausum hala og hirðir alla hækkunina og meir en það.

Í kjarasamningum Verkamannasambandsins er miðað við forsendur sem lúta að lækkun verðbólgunnar. Mitt í samningalotunni emjuðu eiginhagsmunamenn á gengisfellingu. Nú fyrir nokkru ritaði formaður Alþb. grein í Morgunblaðið hvar hann krafðist gengisfellingar. Stjórnarandstæðingar sjá enga efnahagsaðgerð aðra en gengisfellingu. Þeir sem þannig haga sér eru ekki að hugsa um fólkið á lægstu laununum heldur vonina um upplausn.

Þeir atvinnurekendur sem nú heimta gengisfellingu sleppa því venjulega hverjir það voru sem sprengdu upp samningana frá 1986. Hverjir voru það sem fjárfestu langt umfram efni, slógu til þess erlend lán langt umfram greiðslugetu, hækkuðu laun ótakmarkað við þá hæstlaunuðu, héldu þeim lægstlaunuðu niðri, slógu útflutningsfyrirtækin á landsbyggðinni þess vegna út í samkeppninni og upphófu misgengið milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðar?

Atvinnurekendur eru að vísu ekki einir um það að hafa með fyrirhyggjuleysi sínu og græðgi grafið undan gengi krónunnar. Fyrrverandi ríkisstjórn brást þeirri skyldu sinni að taka í taumana í tæka tíð.

Mótmæli stjórnarandstöðunnar nú gegn efnahagsstefnunni eru mjög í ætt við margradda kórsöng atvinnurekenda. Það eru engar tilraunir um aðgerðir lagðar fram heldur kallað og hrópað á einhverjar aðgerðir jú, á gengisfellingu. Það þýðir gengisfellingu sem aftur þýðir launalækkun. Það mætti ætla að stjórnarandstaðan væri gengin í Vinnuveitendasambandið, svo samstiga er þetta lið.

Þrátt fyrir að stærstur hluti alþýðusambandsfélaganna hafi náð kjarasamningum er launadella í landinu í dag. Við skulum vona að sú deila leysist farsællega og á þann veg að þeir sem lægst hafa launin njóti góðs af.

Við þurfum einmitt að jafna tekjuskiptinguna. Það er bitur reynsla verkalýðshreyfingarinnar að þegar við náum kauphækkun fyrir þá lægstlaunuðu una þeir betur settu því ekki og krefjast hins sama og meira en það. Slíkt má ekki gerast nú.

Herra forseti. Alþfl. er vörður og frumkvöðull félagshyggju í landinu. Árangur stórfelldra breytinga mun koma í ljós á næstunni. Við skulum muna að það verður spurt að leikslokum.