29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7029 í B-deild Alþingistíðinda. (4968)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Ég leyfi mér að undrast vanstillingu þeirra hv. 3. þm. Vesturl. Eiðs Guðnasonar og hæstv. sjútvrh. Halldórs Ásgrímssonar og kann enga aðra skýringu en þá að þeim líði svo illa í stjórnarsamstarfinu að það komi fram með þessum hætti. Við erum að ræða um þetta frv. og við erum að reyna að afgreiða það á málefnalegan hátt og ég taldi mig vera að gera það.

Ég ber fyllsta traust til Ríkisendurskoðunar og tel skynsamlegt og rétt að sú stofnun hafi sem víðtækasta möguleika á því að fylgjast með því með hvaða hætti fjármunum ríkisins er varið. En ég held að stofnuninni sé ekki gert neitt gott með því að hafa þessar heimildir allt of víðtækar þannig að stofnunin geti neyðst út í allt of mikið eftirlitshlutverk langt umfram það sem eðlilegt geti talist. Þess vegna lögðum við til, þingmenn Borgarafl., að við skyldum fara okkur hægt í þessu efni og þreifa okkur frekar áfram, stíga stutt skref í einu. Ég tel að það hafi verið sjálfsagt og rétt að skilgreina betur hverjar séu þessar heimildir Ríkisendurskoðunar, en ég vil ítreka að lokum við þessa umræðu að ég tel að með þessu frv. sem hér liggur fyrir sé gengið of langt.