29.04.1988
Efri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7034 í B-deild Alþingistíðinda. (4990)

126. mál, mat á sláturafurðum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um heimild til að hækka hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum. Þetta frv. hefur þegar verið samþykkt í hv. Nd. Samkvæmt frv. yrði ríkisstjórninni heimilt að semja um hækkun á hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum úr 68 í 125,8 millj. bandaríkjadollara miðað við gullgengi dollarans 1. júlí 1944.

Íslendingar hafa áður tekið þátt í hækkun á hlutafé í bankanum, síðast með lögum frá árinu 1982, en á grundvelli þeirra laga var hlutafé Íslands í bankanum rúmlega þrefaldað.

Með því frv. sem ég mæli hér fyrir er leitað eftir heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að um það bil tvöfalda hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum eins og fram kom í upphafsorðum mínum. Aðeins lítill hluti af þessari fjárhæð er innborgunarfé eða um 90 millj. kr. sem greiðast á sex árum, árunum 1988–1993. Greiðsla innborgunarfjárins skiptist þannig að á þessu ári skal greiða 11 millj., síðan 22 millj. árið 1989 og loks 14 millj. á hverju ári fram til 1993.

Hæstv. forseti. Ég tel að starfsemi Alþjóðabankans og þátttaka Íslands í henni sé einmitt dæmi um skynsamlega aðferð fyrir fámennt ríki en vel megandi til þess að taka þátt í þróunaraðstoð í heiminum einfaldlega vegna þess að með því að taka þátt í fjölþjóðasamstarfi komumst við hjá því að eyða allt of miklu af hinum takmörkuðu fjárveitingum til þróunaraðstoðar í stjórn og skipulag heima fyrir, en eins og við vill brenna þegar um litlar fjárveitingar er að ræða vilja þær meira og minna fara í sjálfar sig.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.