09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

81. mál, verðlagsrannsókn

Ásmundur Stefánsson:

Herra forseti. Vegna þáltill. sem hér er komin fram þá vil ég segja það í örstuttu máli að ég get tekið undir efnislega allt sem í henni stendur og ég hef reyndar á öðrum vettvangi,lýst þessum sjónarmiðum til býsna margra ára. Ég held það sé hins vegar rétt að gera sér grein fyrir því að það er afar einföld ástæða fyrir því að það hefur ekki verið unnið með öllu í takt við það sem þáltill. gerir ráð fyrir. Ástæðan er ósköp einfaldlega sú að það hefur skort fjármagn til að vinna þannig. Við fórum t.d. í tengslum við síðustu kjarasamninga í allumfangsmikla herferð til að veita upplýsingar um vöruverð og vorum þar með mjög harðar kröfur gagnvart Verðlagsstofnun um að leita meira eftir því að ná upp upplýsingum með samanburðarkönnunum og öðrum slíkum hætti. Það hefur síðan dragnast niður aftur vegna þess að það hefur skort fjármagn til að vinna það. Ég er ekki að tala á móti þessari till., en ég bendi á að það hefur verið fullur vilji, hygg ég að megi segja, í Verðlagsstofnun líka til að sinna þeim verkefnum sem þarna er verið að gera tillögu um að sé sinnt. Það sem hins vegar hefur skort er fjármagn til að fara fram með þær ráðagerðir. Leiðin til að skila árangri í þessu efni á skilvirkan og skikkanlegan hátt er því einfaldlega sú að auka fjárveitingar til þess verkefnis sem við hér erum um að ræða. Ég dreg þetta fram hér vegna þess að fjárlög eru nú til umfjöllunar og mér finnst nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum þá skýrt á framfæri til þeirra sem þar koma til með að vinna að málinu. Hvað snertir flm. vill það vel til að bæði fjmrh. og viðskrh. eru samflokksmenn hans þannig að ég treysti því að hann hafi aðstöðu til þess að fylgja málinu eftir á ríkisstjórnarheimilinu.