30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7099 í B-deild Alþingistíðinda. (5106)

394. mál, lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Á þskj. 740 hef ég leyft mér að leggja fram till. til þál. um ráðstafanir til að lækka raforkukostnað í gróðurhúsum:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því við stjórnir Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins að garðyrkjubændum verði gefinn kostur á hagkvæmum kaupum á raforku til lýsingar í gróðurhúsum til þess að styrkja samkeppnisaðstöðu innlendrar ylræktar gagnvart innflutningi. Í grg. segir með leyfi forseta:

„Árið 1985 var að beiðni Sambands garðyrkjubænda gerð athugun á notkun lýsingar við garðyrkju. Upplýsingar um orkunotkun voru fengnar frá Rafmagnsveitum ríkisins og Rafveitu Hveragerðis, en upplýsingar um lampafjölda og notkunartíma þeirra frá garðyrkjubændum. Í þessari athugun kom fram að heildarnotkun garðyrkjustöðva, sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins, var þá 792 759 kwst. og af þeirri notkun voru 357 674 kwst. vegna lýsingar við plöntuuppeldi eða um 45% af heildarnotkun.

Hér á landi hófst notkun lýsingar við uppeldi plantna fyrst að einhverju marki um tíu árum áður en þessi athugun var gerð. Það sést því hve þróunin hefur verið hröð. Fram kemur í áðurnefndri athugun að með eðlilegum vexti þessarar atvinnugreinar og áframhaldandi aukningu á notkun lýsingar við ræktun á grænmeti og blómum megi reikna með rúmlega þreföldun á heildarorkunotkun á næstu árum.

Ef litið er á hvaða áhrif aukin notkun lýsingar við uppeldi plantna hefur kemur í ljós samkvæmt tölum frá Sölufélagi garðyrkjumanna að innlend framleiðsla á grænmeti, svo sem tómötum, gúrkum og papriku, kemur nú fyrr á markað en áður. Þannig voru til dæmis tómatar, ræktaðir hér á landi, ekki komnir á markað fyrr en í maí árið 1975. Tíu árum seinna, þegar lýsing hafði stóraukist, voru þeir mánuði fyrr á ferðinni. Sama gildir um ræktun á gúrkum og papriku. Lýsing í gróðurhúsum gerir það að verkum að hægt er að hefja uppeldi plantna fyrr og þær eru því fyrr komnar á markað. Einnig er hægt að stýra ræktun betur þannig að minni hætta er á offramleiðslu yfir sumartímann og nýting gróðurhúsa verður betri. Þetta skilar sér svo til neytenda í lægra verði á grænmeti. Ferskt innlent grænmeti er lengur á boðstólum og minnkandi þörf fyrir innflutning.

Rannsóknir sýna, bæði hérlendis og erlendis, að sá liður ræktunar, sem svarar best lýsingu, er framleiðsla á græðlingum. Notkun lýsingar við blómarækt hefur, eins og þegar um grænmeti er að ræða, gert það að verkum að sá tími, sem íslensk blóm eru á markaðnum, hefur lengst og þörfin á innflutningi blóma minnkað.

En þótt þörfin á innflutningi blóma og grænmetis hafi minnkað þarf það ekki að þýða að dregið hafi úr innflutningi. Tollar og skattar af innflutningi hafa lækkað en söluskattur er kominn á alla innlenda framleiðslu. Samkeppnisaðstaða innlendrar garðyrkju er því erfið og hefur versnað að undanförnu vegna aðgerða stjórnvalda.

Árið 1987 voru flutt til landsins afskorin blóm og pottablóm að verðmæti 45,3 millj. kr. og grænmeti að verðmæti 136,2 millj. kr.

Íslenskt grænmeti hefur notið velvildar neytenda sem hrein og ómenguð vara. Eiturefnanotkun er tiltölulega lítil og innflutningur þeirra efna, sem hér eru notuð, hefur verið undir ströngu eftirliti.

Í Hollandi, sem er það land sem við skiptum einna mest við, eru allt aðrar reglur um notkun eiturefna en hér. Þær eru mun rýmri og leyfa til dæmis notkun svokallaðra kerfislyfja, þ.e. lyfja sem plantan tekur upp og samlagast henni og eru af þeim ástæðum bönnuð hér. Frjáls og óheftur innflutningur blóma og grænmetis leiðir líka til þess að hingað berast nýir sjúkdómar og meindýr. Benda má á að flesta sjúkdóma og meindýr, sem finnast nú í íslenskri grænmetis- og blómaræktun, má rekja til innflutnings blóma. Slíkt hlýtur að lokum að leiða til aukinnar eiturefnanotkunar ef ekki verður hert eftirlit með innflutningi og spornað þannig við þeirri sýkingarhættu sem hann hefur í för með sér. Það hlýtur líka að vera stefna okkar að vernda og styrkja innlenda framleiðslu á grænmeti.

Aukin raforkunotkun til lýsingar í gróðurhúsum mun lengja markaðstíma innlends grænmetis, draga úr þörfinni á innflutningi blóma og grænmetis, auka nýtingu gróðurhúsa, lækka verð til neytenda en umfram allt tryggja betur aðgang neytenda að góðri og ómengaðri vöru. Það skiptir því ekki litlu að stuðlað verði að aukinni notkun lýsingar við blóma- og grænmetisræktun í gróðurhúsum. Þess vegna er því beint til ríkisstjórnarinnar að hún beiti sér fyrir því að garðyrkjubændum verði gefinn kostur á hagkvæmum kaupum á raforku til lýsingar í gróðurhúsum.“

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í grg. er tiltölulega stuttur tími liðinn frá því að notkun lýsingar við uppeldi plantna hófst hér á landi, eða um 13 ár, enda ekki svo langt um liðið síðan menn fóru að stunda garðyrkju hér á landi sem aðalbúgrein. Undir garðyrkju flokkast hvers konar ræktun í gróðurhúsum, reitum, útiræktun á garðplöntum og matjurtum öðrum en kartöflum. Í dag eru um 17 hektarar af gróðurhúsum í landinu. Stærstur hluti þeirra er nýttur til framleiðslu grænmetis en hlutur blómaframleiðslu fer vaxandi.

Staðsetning gróðurhúsanna er helst á fimm þéttbýlissvæðum, Hveragerði, Laugarási, Flúðum, í Reykholtsdal og í Mosfellsbæ. Af þeim 17 hekturum af gróðurhúsum sem hér eru nýtast 9 hektarar til grænmetisræktunar. Þar eru stærstu liðirnir í ræktuninni: tómatar um 700 tonn, agúrkur um 500 tonn og um 100 tonn af papriku, auk annars grænmetis. Þetta eru háar tölur en þó fullnægir þetta magn ekki markaðsþörfinni því við flytjum árlega inn mikið af grænmeti. Einnig er ræktað hér talsvert af blómum til afskurðar og pottaplöntum eða í um 5 hekturum gróðurhúsa. Þar er markaðsþörfinni þó ekki heldur fullnægt og flutt inn árlega mikið magn afskorinna blóma og pottaplantna.

Framleiðsla garðyrkjubænda hefur til nokkurs tíma verið alfarið bundin árstíðum og sólar leysi yfir vetrarmánuðina hefur komið í veg fyrir ræktun á þeim tíma. Fyrir u.þ.b. 13 árum fóru garðyrkjubændur að taka í notkun sérstaka lýsingu í gróðurhúsum yfir vetrarmánuðina og kom þá í ljós að hægt var að lengja ræktunartímann, auka nýtingu gróðurhúsa og lengja sölutíma grænmetis verulega.

Árið 1985 var svo að beiðni Sambands garðyrkjumanna gerð athugun á notkun lýsingar til garðyrkju. Samkvæmt þeim upplýsingum sem þá fengust hjá Rafmagnsveitum ríkisins var heildarsala rafmagnsveitna til garðyrkjustöðva 792 759 kwst. og af þeirri notkun 357 674 kwst. vegna lýsingar við plöntuuppeldi. Það eru um 45% af heildarnotkun.

Notkunartíminn var algengastur frá janúarbyrjun og fram í miðjan febrúar, en hefur lengst verulega við það að lýsing er nú notuð að afloknu uppeldi plantna á vaxtarstað þeirra fram í apríl.

Þessi athugun á notkun lýsingar við garðyrkju leiddi í ljós veruleg áhrif uppeldislýsingar við dreifingu framleiðslu grænmetis eftir árstíma. Þannig mátti sjá af skýrslum um innvegið magn tómata hjá Sölufélagi garðyrkjumanna að aprílmánuður 1984 var kominn með nánast sömu hlutdeild og maímánuður 1975, en þá var notkun lýsingar ekki hafin að neinu marki.

Notkun lýsingar hafði í för með sér að framleiðslan var mánuði fyrr á ferðinni en áður hafði verið. Það sama má segja um agúrkur og papriku. Athugunin leiddi líka í ljós að betur væri hægt að stýra ræktuninni og draga mætti úr offramleiðslu yfir sumartímann. Af því má sjá að notkun lýsingar mundi hafa jákvæð áhrif í garðyrkju. Hægt væri eins og áður sagði að stýra ræktuninni, nýta gróðurhúsin betur, ferskt innlent grænmeti væri lengur á boðstólum en áður og garðyrkjubóndinn hefði jafnari tekjur. Allt þetta skilaði sér til neytenda í lægra og jafnara verði grænmetis.

Hið sama gildir um notkun lýsingar við blómaræktun. Sá tími sem hægt er að hafa íslensk blóm á markaðnum hefur og getur enn lengst verulega.

Niðurstöður þessara athugana hefðu átt að verka hvetjandi á garðyrkjubændur til þess að stórauka notkun lýsingar við ræktun. Vissulega hefur notkunin aukist á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að þessi athugun var gerð en þó alls ekki sem skyldi. Ástæðan er einfaldlega sú að verð á raforku er sums staðar svo hátt að það hreinlega dregur úr mönnum kjarkinn að fara út í slíkar framkvæmdir. Ég segi sums staðar vegna þess að verðlagning á raforku til lýsingar í gróðurhúsum er mjög misjöfn og hafa garðyrkjubændur sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins t.d. þurft að borga mun hærra verð fyrir raforkuna en aðrir, svo einkennilegt sem það nú virðist.

Það að garðyrkjubændur fái hagstætt verð á raforku til notkunar við ræktun er alls ekki ný krafa. Um þessi mál hefur verið stöðug umræða í nokkur ár. Staða garðyrkjubænda er í dag eins og reyndar annarra bænda innan landbúnaðarins mjög erfið. Oft hefur verið þörf á úrbótum til að styrkja stöðu þeirra og markaðshlutdeild, en nú er nauðsyn.

Það eru sjálfsagt ekki miklar líkur á því að hægt verði að skapa þá stöðu að íslenskir garðyrkjubændur geti annað eftirspurn markaðarins allt árið um kring og við þannig verið sjálfum okkur nóg hvað varðar framleiðslu grænmetis og blóma. En hitt er ljóst að aukin notkun lýsingar við garðyrkju lengir verulega þann tíma sem innlend framleiðsla er á boðstólum. Meginreglan er sú að innflutningur þessarar vöru er leyfður eða öllu heldur frjáls þegar innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn. Það er hins vegar vitað að ekki er alltaf farið eftir þeirri reglu og oft er boðið upp á innflutt grænmeti og blóm á sama tíma og nægjanlegt framboð er af innlendri framleiðslu. Mikill og ótímabær innflutningur brýtur niður stöðu garðyrkjubænda hér á landi og eru jafnvel dæmi þess að innlendir framleiðendur sitji uppi með framleiðslu sína þar til hún skemmist vegna þess að innflutt vara er látin sitja fyrir á markaðnum. Það þekkist meira að segja að garðyrkjubændur og þá sérstaklega blómaframleiðendur hafa fengið vöru sína endursenda eftir að hafa komið henni á markaðinn — og það ónýta — vegna þess að fyrst átti að selja innflutninginn og innlenda varan þoldi ekki geymslu.

Þarna er einkennilega að staðið þar sem okkur veitir í fyrsta lagi ekki af að renna stoðum undir okkar eigin atvinnuvegi og í öðru lagi vegna þess að gæði innlendrar framleiðslu og þess sem við erum að flytja inn eru ekki sambærileg. Þar hafa okkar framleiðendur tvímælalaust vinninginn. En það virðumst við þó ekki kunna að meta þar sem garðyrkjubændum er gert æ erfiðara að mæta samkeppni. Ekki einungis vegna þess að raforkuverð er hátt heldur líka að innflutningur er auðveldaður á meðan lagðir eru auknir skattar á innlenda framleiðslu.

Innflutningur blóma og grænmetis ýtir líka beint og óbeint undir aukna notkun eiturefna við ræktun hérlendis. Við höfum verið stolt af því hversu það grænmeti sem við framleiðum og seljum er hreint og ómengað. Eiturefnanotkun hefur verið tiltölulega lítil, eftirlit með innflutningi eiturs og notkun þess við ræktun hefur verið gott. Með innfluttum plöntum og grænmeti hafa hins vegar borist hingað meindýr og sjúkdómar sem kalla á aukna notkun eiturefna. Það mun því, ef ekkert er að gert, leiða til þess að við verðum að leyfa notkun eiturefna sem hingað til hafa verið bönnuð.

Við höfum gert kröfur varðandi eiturefnanotkun hér á landi og eigum auðvitað að halda því áfram. Á sama tíma höfum við hins vegar leyft og auðveldað án eftirlits innflutning á blómum og grænmeti frá löndum þar sem leyfð eru eiturefni sem bönnuð eru hér.

Framtíð íslenskrar garðyrkju byggist á því að stöðugt verði hugað að þörfum innanlandsmarkaðar og fram til þessa dags hafa garðyrkjubændur staðið þar vel á verði. Innlent grænmeti hefur notið velvildar neytenda sem hrein og ómenguð vara og ætti okkur að vera mikið í mun að svo verði áfram.

Með því að gera garðyrkjubændum kleift að auka notkun lýsingar við ræktun tryggjum við að sá tími sem íslenskt grænmeti og blóm eru á boðstólum lengist verulega. Við bætum stórlega samkeppnisaðstöðu innlendrar framleiðslu, hömlum gegn innflutningi og útbreiðslu sjúkdóma og skordýra í grænmetis- og blómarækt. Og síðast en ekki síst: Við nýtum betur það rafmagn sem við framleiðum nú þegar og stuðlum að áframhaldandi og vonandi auknum möguleikum í garðyrkjubúskap hér á landi.

Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að fara fram á að till. verði vísað til hv. atvmn. og síðari umr.