10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni. Það hlýtur að vekja athygli okkar, sem höfum hlýtt hér á mál manna og þögn manna, að það er hv. fulltrúi Alþfl. sem tekur að sér það hlutskipti að svara fyrir ríkisstjórnina í þessu máli hugsanlega. A.m.k. sitja tveir hæstv. ráðherrar þegjandi og hljóðir í þessu máli. Og hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sem situr í utanrmn. Alþingis, talar væntanlega fyrir þann flokk og vandast nú málið fyrir hæstv. utanrrh. því að sýnilegt er að það er hann sem hefur oddaaðstöðu í þessu máli. Þeir eru ekki í þeirri aðstöðu, þingflokkar Sjálfstfl. og Alþfl., að ráða úrslitum í máli sem þessu. Hæstv. utanrrh. hefur verið að gefa okkur til kynna á Alþingi undanfarnar vikur að hann standi fyrir breyttri stefnu í utanríkismálum, alveg sérstaklega að því er kjarnavopn snertir. Hann hefur lýst þeirri skoðun sinni og ítrekað orð sín sem féllu í sjónvarpsviðtali 13. júní sl. um að á Íslandi skuli hvorki vera kjarnavopn á friðar- né ófriðartímum. Hann hefur nánast lýst Ísland kjarnavopnalaust svæði í skilningi ríkisstjórnarinnar og með því tekið undir vilja þingsins úr þál. sem hér var samþykkt samhljóða 23. maí 1985. En það er einkennilegt ef hæstv. utanrrh. vill ekki höggva á þennan hnút og lýsa yfir fylgi við frv. efnislega, kjarna þess.

Ég hef borið fram fsp., sem liggur fyrir sameinuðu þingi og væntanlega kemur til umræðu fljótlega, um það hvernig hæstv. ráðherra hyggist standa við þá stefnu undantekningarlaust að ekki komi hingað í hafnir eða inn í íslenska lögsögu skip knúin eða búin kjarnavopnum. Við eigum eftir að heyra svar hæstv. ráðherra þegar þar að kemur. Það er í rauninni það eina sem hann á eftir að svara þinginu um í þessum efnum ef við eigum að taka orð hans gild sem hann mælir væntanlega fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. En hér sitja tveir hæstv. ráðherrar, formenn stærstu flokkanna, og láta sér það lynda að fulltrúi Alþfl. komi hér upp og telji sig vera að svara, ja, væntanlega fyrir núverandi ríkisstjórn sem Alþfl. á aðild að. Og hvað sagði hv. þm. Kjartan Jóhannsson? Það hefur ekkert breyst. Það verða engar einhliða yfir lýsingar gefnar. Orð utanrrh., sem féllu hér á þingi um daginn, eru ómerk. Þau eru ekki gild. Þetta var hv. þm. að segja okkur efnislega. Þetta er mjög sérkennileg staða í afdrifaríku og örlagaríku máli. Og menn hljóta að heyra um land allt þögn utanrrh. í þessu máli. Ef hann er að hugsa sig um og er á leiðinni að réttri niðurstöðu þá er það vel. Þá er ég ekki að knýja á um svar í dag því við hljótum að heyra það þá á morgun.