10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þótti síðasta ræða nokkuð undarleg. Ég þarf ekki að ítreka mín fyrri ummæli, bæði hér á hinu háa Alþingi og annars staðar. Ég lít svo á að samþykkt Alþingis frá maí 1985 sé afgerandi. Hún lýsir Ísland kjarnorkuvopnalaust og það er afdráttarlaust og engir fyrirvarar þar gerðir.

Ég skal viðurkenna að ég er ekki búinn að lesa grg. með frv. sem mjög var vísað til. Hún er ekki með þeim þingskjölum sem liggja hér á borðinu. Ég þarf að kynna mér hana. En ég get með ánægju staðfest að það markmið sem frv. lýsir er mjög að mínu skapi. Ég vil ekki hafa hér kjarnorkuvopn, hvorki á landi, sjó né í lofti. Ég verð hins vegar að taka undir svo að segja hvert orð sem hv. 10. þm. Reykv. sagði áðan. Það eru ýmsar efasemdir sem þarf að skoða miklu betur í þessu máli.

Ég vil líka láta koma fram að ég legg á það höfuðáherslu, sem lá í orðum að því er mér fannst hv. þm. Kjartans Jóhannssonar hér áðan, að við vinnum á alþjóðlegum vettvangi að því að kjarnorkuvopnum verði fækkað og helst útrýmt. Við tökum t.d. þátt núna í viðræðum Norðurlandanna um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Við höfum lagt á það áherslu í þeim viðræðum í samræmi við samþykkt Alþingis að slík ákvörðun, ef tekin verður sameiginlega af Norðurlöndunum, nái einnig til hafsins í kring. Við höfum nýlega hafið þátttöku í svokallaðri kjarnorkuáætlunarnefnd Atlantshafsbandalagsins þar sem við leggjum einnig áherslu á hið sama. Við tókum þátt í samþykkt sem gerð var þar um daginn þar sem fagnað var þeim skrefum sem nú er verið að taka til að fækka kjarnorkuvopnum. Þannig held ég að við séum búnir að marka okkur mjög ákveðna stöðu í þessum málum sem betur fer og erum að vinna að því á alþjóðavettvangi.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég þarf að kynna mér grg. og fleira í þessu máli töluvert nánar áður en ég get sagt álit mitt á því hvort skynsamlegt er að setja einhliða lög. Ég er ekki alveg viss um það. Ég verð að athuga það betur áður en ég kveð upp úr fyrir mitt leyti um það. Það þýðir ekkert annað en viðurkenna þá staðreynd að við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu og við erum að reyna að vinna þar að því að þoka þessum málum á betri veg. Ég vona að við getum haft þar slík áhrif. Þá vakna einnig spurningar um það hvort æskilegt er á þessari stundu að setja lög. En ég endurtek að ég er mjög hlynntur efninu, markmiðinu, og hef ætíð lýst yfir andstöðu við kjarnavopn hvar sem ég hef um málið talað.