02.05.1988
Sameinað þing: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7175 í B-deild Alþingistíðinda. (5199)

Plútóníumflutningar í grennd við Ísland

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni. Þetta er sennilega eitt alvarlegasta mál sem upp hefur komið á Alþingi þó þau séu mörg alvarleg. Ég beini þeirri fsp. til hæstv. forsrh. í þessu sambandi, þar sem fréttir eru af því að hann sé á leið til Bandaríkjanna, hvort hann muni ekki taka upp þessi mál í sinni för og gefa skýrslu um þær viðræður sem kynnu að fara fram eftir að hann kemur hingað heim. Ég held að við verðum að bregðast þannig við að það sé ljóst öllum, sem hlut eiga að máli, að Íslendingar munu gera allt það sem í þeirra valdi stendur til að hindra að það verði flogið yfir norðurhvelið með slíkan flutning. Í sjálfu sér er alveg óskiljanlegt að nokkrum skuli detta í hug að fljúga með svona hættulegan farangur.

Ég þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að taka þetta mál upp og ég óska eftir því að hæstv. forsrh. greini frá því ef honum finnast meinbugir á því að ræða þetta mál í ferð sinni sem hann er að fara til Bandaríkjanna á næstu dögum.