04.05.1988
Neðri deild: 89. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7382 í B-deild Alþingistíðinda. (5383)

365. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá félmn. um frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 8 1986. Þetta frv. er flutt að ósk Sambands ísl. sveitarfélaga og sveitarfélaga almennt og felur í sér að nota megi jöfnum höndum orðin „kaupstaður“ og „bær“ um þau sveitarfélög sem náð hafa 1000 íbúum í þrjú ár samfellt enda þótt annað heitið sé notað í einstökum lögum. Þannig verði réttarstaða bæja sú sama og kaupstaða skv. sérlögum.

Þetta frv. kom frá Ed. Nefndin athugaði frv. og leggur til að það verði samþykkt. Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu. Undir þetta rita allir nefndarmenn félmn. auk formanns, Birgir Dýrfjörð, Geir H. Haarde, Eggert Haukdal, Jón Kristjánsson, Óli Þ. Guðbjartsson og Kristín Einarsdóttir.