05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7446 í B-deild Alþingistíðinda. (5496)

500. mál, iðjuþjálfar

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ein mikilvægasta stétt heilbrigðisþjónustunnar í dag eru tvímælalaust iðjuþjálfar. Á undanförnum árum hefur þetta fólk verið að hasla sér völl í heilbrigðisþjónustunni og nú er svo komið og hefur verið um alllangt skeið að það er verulegur skortur á fólki til starfa að iðjuþjálfun hér á landi. Ástæðan er m.a. sú að það hefur ekki verið aðstaða til skipulegs náms iðjuþjálfa hér á landi og þeir sem hafa lagt stund á þetta nám hafa því sótt þekkingu sína til útlanda.

Ég tel hins vegar að hér sé um að ræða svo mikilvægt mál að eðlilegt sé að íslenska skólakerfið geri hið fyrsta ráðstafanir til þess að skapa aðstæður til að hér verði menntaðir og þjálfaðir iðjuþjálfar til starfa í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Þess vegna er þessi fsp. fram borin til hæstv. menntmrh.: „Hver eru áform menntmrn. um skipulagt nám fyrir iðjuþjálfun hér á landi?"

Ég hygg að þeir þm. sem hafa heimsótt heilbrigðisstofnanir hafi tekið eftir því að þegar menn hafa gengið um þessar stofnanir lengi dags og skoðað þær koma þeir gjarnan að litlum kytrum þar sem er þröngt bæði að tækjum og aðbúnaði starfsfólks og það er gjarnan svo að í þessum hornum, þessum kytrum, á þessi mikilvæga starfsemi iðjuþjálfanna að fara fram. Hér erum við langt á eftir grannþjóðum okkar, bæði að því er varðar iðjuþjálfa og reyndar sjúkraþjálfa líka þar sem ástandið er svo sérkennilegt í sjúkraþjálfun að það er númerus klásus á menntun sjúkraþjálfa við Háskóla Íslands þó að í rauninni sé fátt mikilvægara en að fjölga mjög verulega í þeim hópum til þess að heilbrigðisþjónustan standist þær kröfur sem eðlilegt er að gera til hennar. Þó er kannski sérstaklega nauðsynlegt, til þess að unnt sé að koma við forvarnarstarfi í heilbrigðismálum, að þessar stéttir verði til og verði öflugar, sjúkraþjálfarnir og iðjuþjálfarnir.

Af þeim ástæðum að hér er um brýnt úrlausnarefni að ræða er fsp. borin fram til hæstv. menntmrh.