05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7451 í B-deild Alþingistíðinda. (5508)

511. mál, viðskiptahalli

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að það eru þrír þættir sem ráða hvað mestu um viðskiptastöðu landsins út á við eða viðskiptajöfnuð. Það eru ríkisfjármál, það eru peningamál og það eru gengismál. Hann sagði að ríkisfjármálin væru í fínu lagi, þakkað sé skattaglöðum fjmrh. og Sjálfstfl., aðstoðarkokkum hæstv. fjmrh. Peningamálin væru í nokkuð góðu lagi. Hins vegar væri það þannig að það væri álitamál hversu lengi væri hægt að halda uppi þeim kaupmætti launa sem nú er í landinu miðað við þær efnahagskringumstæður sem þjóðin býr við. Á íslensku heitir þetta það að ríkisstjórnin ætlar að fella gengið þegar þingið er farið heim.