05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7489 í B-deild Alþingistíðinda. (5550)

360. mál, umferðarlög

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Undir nál. um frv. til breytingu á umferðarlögum skrifa ég með fyrirvara. Beinist sá fyrirvari að öðrum þætti þessara breytinga, en það er stofnun Bifreiðaeftirlits ríkisins hf. Áður en ég fer yfir þau atriði sem ég tel aðfinnsluverð vil ég vegna ræðu síðasta ræðumanns, hv. 4. þm. Vesturl., taka undir það, sem kom fram í ræðu hans, að það væri margt óljóst í frv. sem sérstaklega lýtur að framkvæmdinni og ýmsum öðrum þáttum eins og þeim hvernig fyrirkomulag á að vera með þessar stöðvar, hvort þær eigi að vera í Reykjavík einvörðungu eða hvort það eigi að vera nokkrar stöðvar vítt og breitt um landið og hvernig eigi að haga eftirliti á minni stöðum.

Þá vil ég taka undir með hv. 4. þm. Vesturl. að frv. ber þess merki að vera stæling frá öðrum löndum, bæði er varðar fastnúmerakerfið og svo það fyrirkomulag að hafa þetta í höndum einkaaðila. Ég verð því miður að taka undir það líka að þau frumvörp sem hafa komið hingað í þessa deild eru öll því marki brennd að það er verið að koma okkur Íslendingum inn í kerfi nágrannaþjóðanna, kerfi sem gerir ráð fyrir milljóna þjóðfélögum og ég get tekið undir það með hv. 4. þm. Vesturl. að ég held að við ættum, a.m.k. á sumum sviðum, að halda okkar sérkennum.

Í mínum huga skiptir það meira máli að auðvelda afgreiðslu þessara umskráningarmála en að halda í þetta kerfi sem við höfum í dag. Þess vegna get ég tekið undir það að tekið verði upp nýtt kerfi, hvort sem það heitir fastnúmerakerfi eða eitthvað annað, til að auðvelda umskráningu bifreiða. Ég held að það kerfi sem er við lýði í dag þjóni hagsmunum almennings mjög illa. Ég vil sem sagt taka undir það að komið verði upp fastnúmerakerfi.

Að gera Bifreiðaeftirlitið að hlutafélagi með þátttöku hagsmunaaðila tel ég hins vegar vera spor í ranga átt þótt ég sé almennt hlynntur því að einkaaðilar taki að sér rekstur fyrirtækja sem engin þörf er á að verði í höndum ríkisins.

Ferðaskrifstofa ríkisins, Landssmiðjan og Gutenberg eru fyrirtæki sem ættu að vera í höndum einkaaðila og get ég fallist á að þau verði seld. En ég tel mjög vafasamt að fela einkaaðilum stjórn fyrirtækja sem eiga að gæta öryggis á hinum ýmsu sviðum, eins og Bifreiðaeftirlitsins, Siglingamálastofnunar og Rafmagnseftirlitsins. Þegar um slíkar stofnanir er að ræða sem gæta eiga öryggiseftirlits er það mín skoðun að þær eigi að vera í höndum ríkisfyrirtækja, ekki þó í þeim skilningi að einkaaðilum sé ekki treyst til slíks heldur hitt að þessar stofnanir eigi að hafa tiltrú almennings og að tryggt sé að þau verði rekin með hagsmuni almennings að leiðarljósi og einungis fagleg sjónarmið verði látin ráða ákvörðunum.

Hins vegar er það mín skoðun að þessar stofnanir eigi að vera sjálfstæðar og eigi að vera eins óháðar æðri stjórnvöldum um rekstrarfé og hægt er. Það sem hefur staðið Bifreiðaeftirliti ríkisins fyrir þrifum er að það fyrirtæki hefur verið á föstum fjárlögum og ríkisvaldið hefur skammtað því fé. Með því að koma því þannig fyrir að Bifreiðaeftirlitið hafi fasta tekjustofna og meira sjálfstæði í sínum rekstri tel ég að koma megi því til betri vegar en nú er.

Þá kem ég ekki auga á nauðsyn þess að hagsmunaaðilar verði látnir reka Bitreiðaeftirlitið nema ef vera skyldi að þátttaka þeirra gæti haft áhrif á kröfur sem gerðar eru til ökuhæfra bifreiða. Ef það eru einu rökin er ég hræddur um að við séum komnir á villigötur.

Hv. frsm. allshn. benti á þau beinu tengsl við neytendur sem það mundi hafa í för með sér að gera Bifreiðaeftirlitið að hlutafélagi. Ég er ekki sammála því að það skapist betri tengsl milli þessarar stofnunar og neytenda en nú er ef þetta verði gert að hlutafélagi. Þá talaði hann um hagkvæmni og skilvirkni og get ég við vissar kringumstæður fallist á að það felist í því ákveðið hagræði að hafa eftirlitið í höndum einkaaðila og helst að þá er ekki um að ræða ríkisstarfsmenn. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þau rök sem eru á móti vegi þyngra og sérstaklega vegi sú trú almennings að þarna sé um hlutlausan aðila að ræða mjög þungt. Svo er hitt að þarna er verið að koma á einokunarfyrirtæki. Ég held að það sé af hinu slæma og það verði mjög erfitt fyrir stjórnvöld að hafa áhrif á þær kröfur sem gera skal til skoðunar bifreiða.

Ég hef því þá trú að það sjónarmið að losa eigi ríkið við ýmsa starfsemi verði að hafa takmörk og það borgi sig ekki að flana að neinu í þessu efni. Eins og ég sagði áðan er ekki nóg að vísa til framkvæmda erlendis eða einhverrar stefnuyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar heldur verður að marka um það stefnu hvaða fyrirtæki eigi að selja og á hvaða sviðum. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir mér er að gæta hagsmuna þegnanna, hvort það fyrirkomulag sem hér er lagt til að tekið verði upp gæti hagsmuna þegnanna betur en það sem við erum að leggja af eða hvort til sé eitthvert milliþrep þar sem hagsmunum þegnanna er enn betur borgið.

En ég vil sem sagt ítreka að ég get fallist á þann hluta er mælir fyrir um fastnúmerakerfið en ég dreg mjög í efa að hið síðara sé til bóta, að gera þetta að hlutafélagi með þátttöku hagsmunaaðila. Þá mætti líka í framhaldi af því spyrja hæstv. viðskrh. hve stóran hlut í þessu hlutafélagi ætlunin er að selja þessum aðilum og hvernig verði ráðið í það hvað hver aðili má eiga mikið.