05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7554 í B-deild Alþingistíðinda. (5618)

431. mál, virðisaukaskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var athyglisverð ræða sem var flutt hér áðan af einum hv. þm. Framsfl. Hv. þm. líður greinilega illa yfir því að vera barinn til að standa að afgreiðslu þessa máls og er það skiljanlegt. Þeim líður sjálfsagt illa fleirum hv. stjórnarliðum sem hafa þá á annað borð það mikla meðvitund að þeir geri sér einhverja grein fyrir því hvað hér er að fara fram. Það var þó einna kostulegast að hlusta á ummæli hv. þm. hvað varðaði hinar miklu áhyggjur af velferð landbúnaðarins í sambandi við þetta mál. Staðreyndin er auðvitað sú að hv. þm. veit og gerir sér grein fyrir að með því að lögfesta þetta frv. er stríðið tapað endanlega.

Það er enginn vafi á því að upptaka söluskatts á matvæli og í framhaldinu upptaka virðisaukaskatts er mesta áfall sem íslenskur landbúnaður hefur fengið á sig um áratuga skeið og eru þá vondar ríkisstjórnir og harðindi og kalár ekki undanskilin. Því það að hækka á einu bretti framleiðslukostnað landbúnaðarvaranna með þessum hætti um 25% eða 22%, eða hvað það nú verður að endingu að raunvirði, mun auðvitað þýða dýrari vörur þegar frá líður. Vegna þess að það er barnaskapur að láta sér detta í hug að það sé pólitísk staða í landinu til þess að auka niðurgreiðslurnar sem þessum mun nemur. Ætli mönnum reynist ekki nógu erfitt þegar frá líður að verja niðurgreiðslur svipaðar að raungildi og þær voru fyrir daga söluskatts og síðan virðisaukaskatts á matvæli? Það er nú trúa mín. Ef hv. þm. Guðni Ágústsson hefði haft fyrir því að fara yfir rauntölur um niðurgreiðslur á undanförnum árum þá hefði hann komist að því að þær eru núna lægri að raungildi en þær voru þegar þær voru hæstar fyrir daga söluskattsins. Því þær hafa verið að lækka ár frá ári sl. fimm ár. Þetta hefur m.a. komið fram í svari við skriflegum fsp. hér á Alþingi. Bæði árin 1985 og 1986. (Gripið fram í: Hækkuðu í ár.) Þær hækkuðu auðvitað eitthvað í ár. En hvað gerðist líka í ár, hæstv. fjmrh.? Ætli þurfi að segja hæstv. ráðherranum það? Þær mega hækka dálítið til að vega upp á móti þeim skatti sem nú er lagður á vörurnar.

Síðan hefur það gerst sem hv. þm. Guðni Ágústsson kom ekki að, eða ég heyrði hann a.m.k. ekki koma inn á það hér, að í þessu frv. er fallið frá hugmyndum sem voru í eldri frumvarpsdrögum að virðisaukaskatti um það að hafa landbúnaðinn og matvörurnar undanskilin og hafa þar lægri skattprósentu. Sú nýbreytni er nú sýnd í þessu frv. að ein flöt prósenta er lögð yfir allt. Í fyrri útgáfum höfðu menn þó a.m.k. tilburði uppi til þess að nálgast þetta vandamál með því að hafa sérstaka og lægri prósentu á vissum vöruflokkum.

Nei, þetta var kostuleg ræða, herra forseti, og það verður gaman að vita hvort fleiri slíkar verða hér fluttar af stjórnarliðum með „móral“ eða samviskubit eða hvað sem það nú á að kalla. Eða hvort þeir láta sér lynda það, sem er trúlegra, að þegja, hleypa í herðarnar og rétta upp höndina með þessum matar-, landbúnaðar- og landsbyggðarskatti hæstv. fjmrh.

Það þýðir auðvitað ekki að bera það á borð fyrir nokkurn mann að umhyggja framsóknarmanna muni duga til þess að allt verði í stakasta lagi þó að þessar álögur séu lagðar á. Áður hefur maður nú heyrt það að þeir ætli að standa fyrir þessu og standa fyrir hinu og meðan þeir séu í ríkisstjórn þá sé allt í lagi. Rökin gjarnan þau að það gæti verið enn þá verra. Bændur gætu farið ennþá verr út úr þessu ef framsókn væri ekki til að passa upp á hagsmuni þeirra, þó að hún sé að berja þá í leiðinni. Þeir gætu bara verið lamdir enn þá fastar ef þeir væru ekki á milli svona eins og blaut tuska til að draga úr sárasta stuðinu af högginu. Þannig hefur málflutningurinn verið.

En fram hjá þeirri staðreynd komast hv. þm. Framsfl. og hv. stjórnarliðar ekki að með þessum breytingum, söluskattinum á matvælin í haust og um áramótin, fyrst 10% eða 12%, síðan 25% og núna virðisaukaskattinn sem á að leggjast út yfir allt, þá eru þeir líklega að greiða landbúnaðinum og innlendri matvælaframleiðslu þyngsta högg sem þessar greinar hafa á sig fengið um áratuga skeið. Það er alveg borðleggjandi, herra forseti.

Maður veit ekki alveg hvar maður á að taka upp þráðinn, herra forseti, frá þeirri miklu skattalotu sem fór hér fram um áramótin því þá barst auðvitað virðisaukaskatturinn í tal. [Forseti hringir.] Herra forseti, liggur þér eitthvað á hjarta? (Forseti: Jú, það var um það talað hér fyrr í dag að halda samráðsfund kl. 4 með formönnum þingflokka. Þar sem einn þeirra, formaður þingflokks Alþb., er nú í ræðustól verður gert hlé á fundi, enda hefur fundur staðið sleitulaust síðan kl. 10 í morgun og hv. þingdeildarmenn eiga fyrir því að fá kaffihlé. Verður gert hlé á fundi og fundi fram haldið kl. hálffimm og mun þá formaður þingflokks Alþb. væntanlega halda áfram sinni ræðu.) - [Fundarhlé.]

Já, virðulegur forseti. Ég reyni þá að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið, ef ég finn hann þá. Ég hóf nú reyndar ræðu mína undir áhrifum af tölu síðasta ræðumanns, hv. þm. Guðna Ágústssonar, sem ræddi hér nokkuð frá sjónarhóli þeirra framsóknarmanna, a.m.k. geri ég því skóna að fleiri deili með honum þeim áhyggjum sem hann lýsti varðandi þetta frv. og hvernig það kemur þá ekki síst við landbúnaðinn. Þar er ég honum sammála og gott betur. Ég hygg, eins og ég sagði hér áðan, að þetta sé kannski einhver mesti ógreiði sem landbúnaðinum hefur lengi verið gerður, þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú á innan við einu ári staðið fyrir, fyrst með upptöku söluskatts á matvæli, síðan hækkun hans um síðustu áramót og svo nú áform um að innleiða hér varanlega skatt í formi virðisaukaskatts á þessar vörur. Sú uppgjöf hefur átt sér stað í þessu efni að í því frv. sem hér er nú til umræðu er ekki gert ráð fyrir neinu tilliti til stöðu matvælanna eða landbúnaðarins og ein flöt skattprósenta lögð út yfir allt.

Það er reyndar skaði, herra forseti, hversu fáir hv. þm. stjórnarliðsins leggja það á sig að fylgjast með þessari umræðu hér í þessari virðulegu þingdeild. Maður hefði talið að þegar stórmál af þessu tagi er á ferðinni þá teldu menn það ekki eftir sér fremur en þeir eiga að gera endranær að sinna sínum þingskyldum og taka hér þátt í umræðunum. Hvað sem um hæstv. fjmrh. má segja þá verður því ekki á móti mælt að talsverðar sviptingar hafa verið í kringum hann í þessum skattamálum og ýmislegt þar að gerast, ekki skal ég draga úr því. Þó að mér sé til efs að það séu allt jafnþörf verk og hann vill gjarnan telja sjálfur, hæstv. ráðherrann, og ímyndar sér eflaust að hann komist á spjöld sögunnar sem ákveðinn kraftaverkamaður í þessum efnum. Maðurinn sem bretti upp ermarnar og hjólaði í kerfið. Við skulum trúa því til þess að reyna að laga það til. En ég óttast að hann hafi ekki árangur sem erfiði, hæstv. fjmrh., og þegar upp verði staðið, nær það nú verður, í haust eða seinna, hvort sem ríkisstjórnin lifir eða deyr, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson sagði hér áðan, og mátti á honum heyra að hann efaðist mjög um heilbrigði stjórnarinnar og langlífi, að hæstv. ráðherra sitji uppi með það að hafa lagt skatt á mat og menningu, lagt skatt á alþýðuna í landinu en dagað síðan uppi, orðið „dagþrota“ eins og sagt var í smölun á mínum heimaslóðum. Þegar mönnum entist ekki birtan þá urðu menn dagþrota. Og hæstv. fjmrh. verði þar dagþrota, að hann hafi komið því í verk að leggja skatt á mat og menningu, leggja skatt á almenning, alþýðuna í landinu, en orðið úti með öll hin stóru áformin. Orðið úti með stóreignaskattinn, orðið úti með skattinn á gróðaöflin og orðið úti með hin háreistu áform um að uppræta skattsvik. Það fer auðvitað að verða fróðlegt, herra forseti, og kannski tímabært ef ríkisstjórnin er nú senn öll að gera lista yfir þau kosningaloforð hæstv. fjmrh. og Alþfl., sem ekki hafa náð fram að ganga og ekki hillir undir.

Það var nefnt hér í dag eitt af fyrstu og stóru loforðunum sem hæstv. fjmrh. gaf sem formaður Alþfl., að reka Jóhannes Nordal. Það voru heitstrengingar og svardagar. Hvað hefur skeð? Nú er ekki löng leiðin á milli þeirra nafnanna og eru þeir báðir í sama flokknum hæstv. bankamálaráðherra og hæstv. fjmrh. Væntanlega hefði hæstv. bankamálaráðherra hlýtt formanni sínum og hjálpað honum við að koma þessu loforði í framkvæmd ef þeir hefðu haft einhverja döngun í sér til þess. Það varð auðvitað að engu - þessi stóru orð urðu að engu. Svo er með stóreignaskattinn og svo má áfram telja.

Það er líka fróðlegt að fara yfir þau loforð sem hæstv. ráðherra gaf mönnum í sambandi við þennan virðisaukaskatt fyrir ekki löngu síðan. Hvað sagði hæstv. fjmrh. hér fyrir nokkrum missirum um þennan virðisaukaskatt? Það væri fróðlegt að fara aðeins ofan í það. Ég hef reyndar áður vitnað til þess og það hafa fleiri gert; getur vel verið að hæstv. ráðherra sé að verða leiður á því að það er verið að fletta upp á gömlum ræðum hans. Ja, ekki gömlum, það þarf ekki að fara nema rúmt ár aftur í tímann.

En ég ætla að leyfa mér að opna hérna einu sinni enn 9. heftið af þingtíðindunum árið 1986. Þar var til umræðu einu sinni sem oftar frv. til laga um virðisaukaskatt. Þar mælti hæstv. þáv. fjmrh., Þorsteinn Pálsson, fyrir frv. og síðan tóku þeir til máls hver á fætur öðrum foringjar stjórnarandstöðunnar. Hv. þáv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hóf sitt mál með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Vegna ummæla hæstv. fjmrh. á þá leið að þrír stjórnmálaflokkar hafi lýst yfir stuðningi við tillögur um virðisaukaskatt vil ég taka það fram strax í upphafi máls míns að þingflokkur Alþfl. styður ekki þetta frv. Ég hef líka ástæðu til að ætla að því fari fjarri að stuðningur við þetta frv. sé víðtækur innan raða stjórnarflokkanna.“

Síðan sagði hæstv. núv. fjmrh., þáv. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson: „Í því efni bendi ég sérstaklega á að það eru augljós rök fyrir því að endurskoða saman lög um tekju- og eignarskatt og um virðisaukaskatt. Vegna þess að það mun ráða allnokkru um það hversu langt við viljum ganga í að aflétta tekjuskatti af launum, hvort ríkisvaldið bætir sér upp tekjumissi sinn við það, með því að halda í [ég endurtek] halda í allt of háa söluskatts- eða virðisaukaprósentu eða ekki. M.ö.o.: Ef ríkisvaldið við upptöku virðisaukaskatts vill leiða í lög ákveðnar aðgerðir til tekjujöfnunar, sem óhjákvæmilegt virðist að gera, hefur það mikil áhrif á það í hvaða átt tekjuskattsbreytingin verður.“

Svo kom, eins og hæstv. ráðherra gerir stundum, í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi.

„Í fyrsta lagi: Prósentuálagningin, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er allt of há. Það eitt út af fyrir sig veldur því að frv. er með öllu óaðgengilegt.“

Hvernig hefur gengið að létta tekjuskatti af almennum launatekjum? Hvað hefur orðið um þau áform? Ég skal fara yfir það. Það hefur verið gert með því að í tengslum við staðgreiðslukerfi skatta er augljóst mál að skattbyrði einstaklinga hefur þyngst. Hún hefur breyst, hún dreifist öðru vísi en hún hefur þyngst. Það er næstum enginn vafi á því að við verðbólgustig eins og það sem verið hefur undanfarna mánuði og verður að meðaltali á þessu ári þá þýðir staðgreiðslukerfisbreytingin, þegar málin verða gerð upp, að skattbyrði einstaklinga af tekjuskatti hefur þyngst. A.m.k. ekki lækkað, það leyfi ég mér að fullyrða. Þannig að ekki eru það rök fyrir þessari háu virðisaukaskattsprósentu sem hér er til umfjöllunar að menn hafi á móti létt þá skattbyrði af fólki með lækkun tekjuskatts, eins og uppi voru áform um hér einu sinni. Þvert á móti hafa menn einmitt verið í kerfisbreytingum hvað tekjuskattinn varðar til þess væntanlega að koma á varanlegu innheimtuformi fyrir þann skatt en ekki til þess að leggja hann niður. Varla stæðu menn í þeim ósköpum öllum saman og eyddu öllum þeim peningum, sem sú breyting mun kosta, til þess eins að leggja hann svo niður eftir eitt eða tvö eða nokkur ár.

Hæstv. fjmrh. er því í raun og veru kominn í allhroðalega mótsögn við sína fyrri afstöðu í þessum efnum. Þar sem hann bölsótaðist út í virðisaukaskatt á þeirri forsendu að skattprósentan væri allt of há, svipuð eða eilítið hærri heldur en hér er gerð tillaga um, og taldi að stuðningur sinn við áform um lækkun tekjuskatts færi fyrst og fremst eftir því hvaða skattprósentu yrði áformað að taka upp í virðisaukaskatti.

Nú stendur hæstv. ráðherrann að því með nokkurra mánaða millibili að viðhalda sambærilegri, jafnvel meiri skattbyrði á einstaklinga í formi tekjuskatts og mæla fyrir frv. til laga um virðisaukaskatt með sambærilegri skattprósentu. Og það með einni flatri prósentu út yfir allar vörur, breiðari skattstofn en menn voru með í huga í fyrri virðisaukaskattsfrv. Svona hroðalega er nú komið fyrir þessum loforðum sem hæstv. fjmrh., þáv. hv. þm. og formaður Alþfl. bæði fyrr og nú, gaf kjósendum úr ræðustóli Alþingis fyrir tveimur árum síðan.

Það má meta það, herra forseti, út frá fræðilegu sjónarmiði hvort virðisaukaskatturinn sem slíkur sé til bóta og þá hve mikilla bóta og fara yfir kosti hans og galla. Það gera auðvitað flm. frv. í grg. og það er næsta kostuleg lesning. Kaflafyrirsagnir í grg. eru vel þess virði fyrir hv. þingdeildarmenn að staldra ofurlítið við þá. Það er t. d. spurt á bls. 20 í frv., kafla 2.3: „Er virðisaukaskatturinn gallalaus?" Þetta er nokkuð skemmtileg kaflafyrirsögn. Já, það er einhver ástæða til þess að menn setja svona lagað á prent, þessa spurningu. Mönnum hefur greinilega dottið í hug að hér væri fundið algjörlega gallalaust skattform.

Í kafla 2.2, bls. 19, undir fyrirsögninni „Eiginleikar virðisaukaskatts“, er sagt, með leyfi forseta: „Virðisaukaskattur eyðir sjálfkrafa flestum göllum söluskattskerfisins.“ Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að þvílík áróðursmennska í formi þskj., í stjfrv., er alveg neðan við allar hellur. Maður ætlast til þess að í grg. með frv., ég tala nú ekki um stjfrv., sé reynt að leggja fram hlutlausar, hlutlægar upplýsingar um málin - en frasi af þessu tagi, virðisaukaskatturinn eyðir sjálfkrafa flestum göllum söluskattskerfisins. Síðan er spurt: Er virðisaukaskatturinn gallalaus? Og menn svara sér sjálfir og komast í raun og veru að því að hann sé svo til gallalaus. Þetta sé nánast alfullkomið. T.d. séu ræðuhöld um meiri skriffinnsku og fyrirhöfn á misskilningi byggð að mestu leyti. Það sem menn séu að finna að þessu næstum að segja alfullkomna kerfi sé yfirleitt á misskilningi byggt.

Nei, herra forseti. Þetta er harla sérkennilegur málflutningur. Ég verð að segja það eins og er. Ég hefði tekið miklu meira mark á málflutningi hæstv. fjmrh. og grg. frv. ef menn hefðu hreinlega viðurkennt að auðvitað er virðisaukaskattur langt frá því að vera gallalaus og fullkomin aðferð eins og allar aðrar slíkar, langt frá því. En þessi rembingur, að reyna að halda því fram bæði í ræðu og riti að hér sé í raun og veru búið að uppgötva hið endanlega réttlæti í skattamálum og að gallar fyrri aðferða hverfi bara eins og dögg fyrir sólu, gufi upp, eyðist af sjálfu sér, er heldur barnalegur. Það sæmir varla reyndum hv. þm. og núv. hæstv. fjmrh. að bera slíkt á borð og er hann þó alkunnur og þekktur áróðursmaður. Auðvitað er staðreyndin sú að virðisaukaskattur er eins og aðrar slíkar skepnur langt frá því gallalaus, langt frá því að hann einn og sér tryggi það að það verði ekki áfram undandráttur, ekki áfram skattsvik, og síðan hefur hann ómótmælanlega í för með sér útgjöld og fyrirhöfn og ýmsa erfiðleika sem lenda ekki bara á hinu opinbera skattkerfi heldur líka á þolendunum, bæði einstaklingunum og þá ekki síður öllum þeim sem gera eiga skattskil og fjölgar um fleiri, fleiri þúsund.

Ég verð líka að segja, herra forseti, að það sem mér hefur þótt nokkuð ámælisvert í sambandi við þessa skattaumræðu, sérstaklega virðisaukaskattinn, er sú tilhneiging, þeir tilburðir sem ég vil leyfa mér að segja að hafi verið uppi, til að blekkja fólk. Því var haldið fram hér í haust og vetur að nú stefndi allt í virðisaukaskatt í einni prósentu alls staðar í heiminum. Ég fór og náði mér í ýmsar upplýsingar um þau efni og það væri hollt fyrir hv. þm. Guðna Ágústsson að hlusta á þetta mál því hann var uppi með vangaveltur um þetta og var að biðja hæstv. fjmrh. um svör. Ég skal svara hv. þm. og upplýsa hann í eitt skipti fyrir öll að það er tómt rugl, svo ekki sé sagt lygi, að halda því fram að þróunin í heiminum, í OECD-löndunum, þar sem þessi skattur fyrst og fremst er við lýði, sé í átt til einnar skattprósentu eða hafi verið. Ég fór í Fjárlaga- og hagsýslustofnun, ég fór til Þjóðhagsstofnunar, ég fór til Seðlabankans í nóvember og desember í haust og bað um gögn um virðisaukaskatt. Ég leitaði jafnvel út fyrir landsteina til að fá um þetta efni upplýsingar vegna þess að mér bauð í grun að málin væru ekki eins einföld og postular virðisaukaskattsins voru að reyna að telja mönnum trú um hér uppi á Íslandi. Ég þóttist vita, hafa um það tilteknar vísbendingar, að málin stæðu ekki eins og hér var verið að reyna að telja fólki trú um. Og úr því merka bókasafni Seðlabankans, sem mér er sagt að enginn maður hafi komið inn í nema bókaverðir, fékk ég þessa skýrslu og ég ætla að tala af talsvert meiri lotningu um bókasafn Seðlabankans héðan í frá því það kom sér ágætlega að fá þetta gagn og ég las upp úr því hér fyrir jólin eins og einhverjir muna e.t.v. Þetta er skýrsla um það hvernig skattheimtu af þessu tagi er háttað í öllum OECD-löndunum, hvaða áform eru þar uppi og hvernig prósentur skiptast o.s.frv. Það muna e.t.v. einhverjir eftir því að ég las hvert einasta OECD-land yfir hv. þingdeildarmönnum. Ég hygg að það hafi verið í desember öðru hvoru megin við hina heilögu jólahátíð. Ég man líka eftir því að hv. þm. Eggert Haukdal kom inn í dyrnar illa sofinn þegar ég var að ræða um Tyrkland og skattheimtuna þar og hrökklaðist út aftur og hélt að hann hefði villst.

En það er þannig, hv. þm., að þegar maður fer yfir þessi OECD-lönd kemur það í ljós að það sem á að fara að gera hér uppi á Íslandi yrði undantekningin, ekki reglan. Það yrði nær undantekningunni og þekkist í raun og veru eiginlega ekki nema eitt land, Danmörk, þar sem þetta er með sama hætti og hér á að fara að praktisera. Almenna reglan er sú að virðisaukaskattur, eða hliðstæður skattur af þessu tagi, er í fyrsta lagi lagður á í fleiri en einu skattþrepi og í öðru lagi eru iðulega ýmsar nauðsynjar undanskildar með öllu. Og skattprósentur upp á eitt, tvö eða fáein prósent eru algengar á matvæli, barnaföt og ýmsar slíkar brýnustu nauðsynjar fjölskyldnanna. Þetta er staðreynd málsins og hér vona ég að menn hætti að tala um þessa hluti eins og það sé sjálfsagt og hægt að rökstyðja það með vísan til annarra landa að hér eigi að taka upp einn flatan virðisaukaskatt á allar vörur, þar með talin matvæli og aðrar lífsnauðsynjar. Þannig standa nú þessi mál annars staðar.

Það hefur verið vitnað til Evrópubandalagsins og sagt: Hinn stóri, sameiginlegi markaður og allt þetta og þróunin þar. Hver verður niðurstaðan þar? Hún verður sú, ef áform efnahagsráðunauta og stjórnar Efnahagsbandalagsins ná fram að ganga, að það verði lagður á virðisaukaskattur í tveimur þrepum, lág prósenta á bilinu 4,5 til 9% á matvæli og fleiri nauðsynjar og svo hærri prósenta á ýmsar aðrar vörur. Það er alveg öruggt mál að það verður aldrei, ekki næstu 20, 30, 40 árin lagður á í Efnahagsbandalagslöndunum matarskattur af því tagi sem hér á að fara að gera, aldrei. Eina landið sem berst þar um er aumingja Danmörk, ekki vegna þess að þá langi til að skattleggja matvæli og þeim sé það sáluhjálparatriði, heldur einfaldlega vegna þess að danski ríkissjóðurinn má ekki við þeim tekjumissi sem það mundi þýða að fara með hluta skattstofnsins niður í þessa lágu prósentu. Eðlilega eru þeir í vandræðum með að samþykkja þessi áform um virðisaukaskatt í tveimur prósentum.

Alþýðusamband Íslands hefur mótmælt þessum skattáformum sérstaklega, eðlilega, vegna þess að þar vita menn hverjir koma til með að bera hitann og þungann af þessum skatti ef hann verður á lagður. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt að þessi skattur er þyngstur í skauti lágtekjufólkinu. Því er ómótmælt að hann kemur betur út fyrir hina tekjuhærri í þjóðfélaginu. Um það ber öllum efnahagsspekingum saman.

Alþýðusamböndin á Norðurlöndum hafa með sér margvíslegt samstarf og eitt af því sem Alþýðusamband Íslands hefur notið góðs af í því samstarfi er að þangað hafa menn getað sótt upplýsingar um reynslu nágrannaþjóðanna af þessu fyrirkomulagi. Það hafa menn gert og Alþýðusamband Íslands hefur að öðrum aðilum ólöstuðum líklega sett sig einna best inn í þessi mál. Ég á í mínum fórum þykkar skýrslur á sænsku og norsku sem Alþýðusamband Íslands hefur fengið frá hinum Norðurlöndunum til þess að afla sér upplýsinga og móta afstöðu sína til þessa máls. Niðurstaða Alþýðusambands Íslands er eindregin hafandi kynnt sér þessi mál vel. Ég bendi á greinargerð sem lögð var fyrir sambandsstjórnarfund Alþýðusambandsins um mánaðamótin nóvember/desember 1987 og samþykkt þar, þar sem stefna Alþýðusambandsins var í raun og veru mörkuð í þessu máli. Það er eindregin niðurstaða Alþýðusambandsins að leggjast gegn þessum áformum og sérstaklega þeirri ósvinnu að ætla sér að skattleggja matvæli og aðrar nauðsynjar rétt eins og hverja aðra vöru vegna þess að menn sjá ekki þörfina á að gera það og menn sjá ekki rökin fyrir því að gera það. Ef það væri eftirlitsatriði og tryggði betri skattskil að hafa þessa vöruflokka inni í kerfinu, bókfæra þá inni í virðisaukaskattinum, ætti sami árangur að nást hvað það varðar þó að skattprósentan væri lægri. Þetta kæmi eftir sem áður þar inn í reikningana.

Síðan er það fróðlegt, herra forseti, að fara yfir þau rök önnur sem menn hafa kannski helst fært fyrir þessum virðisaukaskatti, að hann muni reynast mjög gagnlegt tól til að koma í veg fyrir skattsvik og undandrátt. Og þá var gjarnan talað um matarskattinn í því sambandi, að hann væri nauðsynlegur til þess að ekki væri verið að afgreiða í sömu búðinni annars vegar skattskyldar og hins vegar ekki skattskyldar vörur. Hér eru menn aftur komnir í dálitla mótsögn við sjálfa sig vegna þess að það kemur í ljós að helstu svið undanskots í þessum efnum eru ekki þar. Fyrir lá skattsvikaskýrslan svonefnda um það mál. Þar kemur fram svart á hvítu að matarskatturinn breytir engu um þær greinar þar sem menn óttast að undanskotin hafi verið mest. Verslunin er nefnilega alls ekki í efsta sæti í þessum efnum. Það eru ýmsar aðrar greinar eins og kemur fram í þeirri ágætu skýrslu.

Það er líka hollt, herra forseti, að hafa það í huga að bestu fáanlegar upplýsingar, bæði héðan frá Íslandi og nálægum löndum, um umfang svartrar atvinnustarfsemi benda ekki til þess að hún hafi verið meiri hér en í nálægum löndum. En í þessum nálægu löndum, á hinum Norðurlöndunum og víða annars staðar í Evrópu, er einmitt virðisaukaskattur. Og ég spyr: Ef virðisaukaskatturinn er svona geysilega gott og árangursríkt tæki til að koma í veg fyrir undanskot, til að koma í veg fyrir dulda atvinnustarfsemi, af hverju er þá ástandið ekkert betra þar sem hann hefur nýlega verið innleiddur eða hefur jafnvel verið lengi við lýði?

Niðurstaða mín af því að skoða hlutföll í þessum efnum er sú að það verði ekki séð að íslenska skattkerfið, hvað sem um það má segja að öðru leyti, hafi leitt til neitt meira eða stærra neðanjarðarhagkerfis að hlutfalli hér en algengt er í öðrum löndum. Það er talið sem sagt að innan þessa dulda hagkerfis sé hér velta sem svarar til kannski 4–6% af vergri landsframleiðslu þau ár sem þetta var sérstaklega kannað og ef við skoðum t.d. umfang nótulausra viðskipta hér og á Norðurlöndunum verður ekki annað séð en að Ísland standi bera heldur vel því umfang nótulausra viðskipta virðist vera meira á hinum Norðurlöndunum en hér að bestu manna yfirsýn, samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum.

Virðisaukaskattur er ekkert töfraorð í þessum efnum. Það vita allir sem hafa kynnt sér skattamál annarra landa að það eru til alveg jafneinfaldar aðferðir í raun og veru til þess að komast fram hjá virðisaukaskatti, alveg nákvæmlega eins. Það þarf að standa svolítið öðruvísi að því. Við getum tekið dæmi um það hvernig menn þurfa þá að bregðast við þegar virðisaukaskattur kemur í staðinn fyrir söluskatt. Nú skulum við segja að maður ætli með eitthvert tiltekið tæki í viðgerð. Ég vil ekki vera að nefna bifreið af því að þá héldu menn að mér væri sérstaklega illa við bifvélavirkja. En við skulum segja að einhver einstaklingur sé með eitthvert tiltekið tæki í sínum fórum og það bili og hann þurfi að fá það viðgert. Hann fer með tólið á verkstæði, svona lítið notalegt verkstæði þar sem vinna einn eða tveir menn. Í gildandi söluskattskerfi hefði verið einfaldast fyrir þessa tvo aðila að koma sér saman um það að þessi viðskipti færu ekkert á nótur. Hvorugur aðilinn fengi í sínar hendur neina pappíra um það þannig að ekki yrði hægt að rekja neitt ef farið yrði ofan í saumana á þessum málum.

Það mætti halda að þetta yrði snúnara í virðisaukaskattinum, sérstaklega ef t.d. þarf að setja varastykki í apparatið. Þá þarf að kaupa varastykkið og á því er ákveðinn innskattur o.s.frv. og þar með yrðu viðskiptin öllsömul bókhaldsfærð, kæmu inn í bókhald með einhverjum hætti. Hvað gera menn þegar virðisaukaskattur er kominn á í slíkum tilfellum? Það er einfalt. Verkstæðismaðurinn segir við Jón Jónsson sem kom með hlutinn til viðgerðar: Ef þú skreppur sjálfur niður í umboð og kaupir varastykkið og efnið sem ég þarf til að gera við hlutinn fyrir þig borgar þú einhvern smáinnskatt af því. Ég tek svo að mér að setja þetta í tækið fyrir þig, gera það upp og leggja fram vinnuna og enginn veit að hluturinn hafi nokkurn tíma komið inn á verkstæði hjá mér, ekki frekar en að þú hefðir gert þetta allt saman heima hjá þér. Málið leyst. Svona er hægt að taka dæmin áfram ef menn vilja. Það þarf ekki annað en að reyna að hugsa það hvernig þessir hlutir geta gengið fyrir sig úti í daglega lífinu og þá sjá menn að auðvitað er hægt að fara fram hjá þessu alveg nákvæmlega, nákvæmlega eins. Það er nánast hverfandi munur á því og því sem er í núgildandi kerfi ef menn á annað borð vilja standa í svona æfingum. Þeim mun auðveldara er þetta sem aðföng eru minni og vinna og þjónusta stærri hluti af viðskiptunum í hvert og eitt sinn, þeim mun auðveldara. Þetta gefur auðvitað auga leið.

Þá þurfa menn að fara að hugsa: Er þetta þá allt saman þess virði? Er það þess virði að standa í þessum æfingum, að fjölga starfsmönnum opinberra aðila sem mörgum finnst vera nógu margir, stækka báknið um fleiri tugi og jafnvel hundruð manna, að fjölga framteljendum um tugi þúsunda í landi þar sem ýmiss konar smáatvinnurekstur er mjög almennur, að leggja það á einyrkja, sjómenn, bændur og smáfyrirtæki að fara út í svona bókhald í einhverri óljósri von um að það bæti eitthvað skattskil. Ég held að menn verði að hugsa þetta dæmi alveg til enda. Mér er sagt að þær æfingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur þegar staðið fyrir í skattamálum hafi bakað ýmsum smærri aðilum í viðskiptum og í atvinnulífi meiri háttar vandræði. Mér er sagt að einstaklingar sem fram að þeim tíma að hæstv. ríkisstjórn, ríkisstjórn báknsins, tók við völdum gátu séð um sitt eigið bókhald, séu nú að bogna og gefast upp og þurfi að leita á náðir bókhaldsskrifstofa og sérfræðinga og kaupa þá þjónustu dýrum dómum — eða hætta, sem er reyndar býsna algengt þessa dagana. Svo dynja fyrst ósköpin yfir þegar virðisaukaskatturinn bætist við allt saman, bætist við staðgreiðsluna og aðrar æfingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir.

Herra forseti. Um frv. að öðru leyti má segja það að það undrar mann nokkuð að mál sem hefur verið að velkjast í kerfinu, verið á undirbúningsstigi, ef svo má segja, að því er virðist í ein 15 ár, skuli koma hér inn í þingið á síðustu dögum svo hrátt og illa undirbúið að það þarf langan lista af fyrirvörum til þess að sveigja menn og telja menn á að samþykkja óbermið. Þá er mönnum lofað því að þetta og þetta og þetta og þetta verði nú strax tekið til skoðunar og athugað hvort ekki sé hægt að laga það og koma því betur fyrir. Þetta er heldur lágkúruleg útkoma fyrir hæstv. ríkisstjórn, að standa uppi með þetta plagg í höndunum á síðustu dögum þingsins og þurfa að hafa þennan langa fyrirvaralista á. Ég hygg að það séu ein 10–15 atriði sem á að setja í alveg sérstaka könnun og rannsókn í sumar af því að menn viti í raun og veru ekkert hvað þeir eru að afgreiða í frv. Það fyrsta er skattprósentan. Það á auðvitað að setja það í alveg sérstaka rannsókn hvort hún eigi að vera 22% eða eitthvað annað. Það er alveg óútkljáð. Er það þó ekkert smáatriði. Maður skyldi ætla að það varðaði einhverju þegar menn eru að samþykkja þetta kerfi hver prósentan á að vera. Nei, bíðum með það. Athugum það í sumar.

Svo er með byggingarstarfsemina. Þar er einn stór hausverkur. Hann á bara allan að skoða í sumar. Orku til hitunar húsnæðis. Sérstök nefnd í það. Hvernig þetta hittir atvinnulífið, fiskveiðar og fiskvinnslu, menningar- og listastarfsemi, jafnræði í samkeppni einkaaðila og opinberra aðila, útgáfa tímarita, skattskil af viðskiptum bænda og afurðastöðva, gjaldfrestur af innflutningi, virðisaukaskattur af fólksflutningum o.s.frv., öllu vísað til nefndar. Þetta þarf allt að skoða betur. Það er lítið að verða eftir af gripnum. Það er fátt eitt sem ekki þarf að skoða betur nema fyrirsögnin. Ég hef engar tillögur heyrt um að það þurfi að setja nefnd í að skoða fyrirsögn frv. Hún er líklega í lagi.

Það liggur við að það hefði mátt í staðinn fyrir þetta frv. afgreiða eina línu og gera að lögum eina línu: Stefnt skal að því að taka upp virðisaukaskatt í einhverri mynd á miðju ári 1989. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka upp einhvers konar virðisaukaskatt í einhverri mynd, sem hún ætlar að reyna að koma sér saman um í sumar, um mitt ár 1989. Lög þessi öðlast þegar gildi. — Það hefði verið alveg jafngott í raun og veru og sparað mikinn pappír ef hæstv. ríkisstjórn hefði farið svoleiðis í málið. Það er í raun og veru það sem verið er að gera hér. Og það vekur auðvitað furðu hafandi í huga hvað langan aðdraganda þetta mál á, herra forseti.

Það er ekki margt fleira sem ég sé sérstaka ástæðu til að fara yfir við 1. umr. málsins. Þetta er í mínum huga mjög stórt mál og kemur ekki til greina af minni hálfu að hraða umfjöllun um það með óeðlilegum hætti á nokkurn hátt. Þetta er ekki mál af því tagi sem réttlætanlegt er að sulla í gegn lítt athuguðu eða lítt skoðuðu vegna þess að einhverja langar til að senda þingið heim núna eftir nokkra daga. Það verður bara að hafa það. Ég ræði um þetta mál eins lengi og ég tel þurfa og eins mikið og ég tel þurfa því að þetta er ekki mál af því tagi sem réttlætanlegt er að sýna eitthvert kæruleysi gagnvart.

Að lokum ætla ég að hverfa aftur til upphafsins og ræða pínulítið um matarskattinn, skattinn á matinn og menninguna, því það er auðvitað það stórpólitíska sem hér er að eiga sér stað. Þar vill svo vel til að á ferðinni er einfalt atriði sem réttlætiskennd hvers einasta manns gerir kleift að dæma á staðnum og stundinni ef svo má að orði komast. Þá getur hæstv. fjmrh. leitt fram alla sína spekinga, teflt fram öllum sínum sérfræðingum, látið þá skrifa þindarlaust í Morgunblaðið og annars staðar greinar um hvað matarskattur sé mikil gersemi og hann má jafnvel kaupa endalausar heilsíður í dagblöðum undir þetta efni, reyna að fá þjóðina til að trúa því að það sé henni sérstakt bjargræði að borga skatt af matvælum. Það gengur ekki upp. Og þetta veit auðvitað hæstv. ráðherra. Hann tommar ekki móti þeirri einföldu staðreynd að fólki finnst matvælin vera grundvallarlífsnauðsynjar af því tagi sem síðast af öllu á að leggja skatta og álögur á. Það er þannig út um allan heim og þá fyrst hafa ríkisstjórnir, hvort sem heldur er hér eða í Póllandi eða Chile eða Argentínu eða hvar sem það nú er, lent í alvarlegum erfiðleikum þegar þær hafa rokið til og ætlað að hækka matvælin.

Nú er það svo, herra forseti, að ýmislegt bendir því miður til þess að íslenskur almenningur þurfi að búa sig undir eitthvað krappari kjör, í fyrsta lagi vegna þess að þessi ríkisstjórn er hinum almenna launamanni andsnúin. Þetta er fyrst og fremst ríkisstjórn peningaaflanna í landinu sem gætir hagsmuna þeirra og er reyndar til þess sett, Alþfl. kannski óafvitandi. Hann gerir það samt, plataður af harðlínuöflunum, Sjálfstfl. og Framsfl., sem hafa þetta litla lamb í bandi og í skítverkunum fyrir sig eins og að leggja á matarskatt. Það er alvarleg staðreynd, einmitt í ljósi þess að hér á að fara að festa í sessi þennan matarskatt, að niðurstöður kjarasamninga nú, afstaða ríkisstjórnarinnar og ýmis önnur atriði, sem tína mætti til, benda því miður til þess að almennt launafólk þurfi að búa sig undir krappari kjör á næstunni. Í því ljósi er matarskatturinn jafnvel enn verri en menn hafa rætt um hingað til. Þá mun reiði fólks yfir þessum ósanngjarna skatti magnast og er hún þó ærin fyrir. Og enn þá vonlausara verður þá áróðursstríð hæstv. fjmrh. að reyna að telja fólki trú um að þetta sé réttlætismál eins og hann sagði í auglýsingunni í blöðunum, að matarskatturinn og tilheyrandi væri einfaldara, skilvirkara og réttlátara en það skattkerfi sem fyrir var. Hafi það verið erfitt á meðan þjóðinni var talin trú um að hún byggi við góðæri og allt væri í lukkunnar velstandi, og margir trúðu því og auðvitað ýmsir höfðu það gott, þá verður held ég enn erfiðara að vinna það stríð þegar tímarnir fara harðnandi eins og þeir gera því miður sjálfsagt ef þessi ríkisstjórn situr áfram við völd og lifir. En um það eru vissulega skiptar skoðanir eins og kom fram í ræðu framsóknarmannsins áðan, hv. þm. Guðna Ágústssonar.

Herra forseti. Þetta frv. fer nú sína venjulegu leið til nefndar og verður þar sjálfsagt athugað af samviskusemi eftir því sem frekast eru tök á. Tíminn er of naumur til að gera því þar þau skil sem vert væri og skylt væri ef meiningin er að ljúka þingstörfum eftir fáeina daga. En ég endurtek þó að a.m.k. af minni hálfu verði tekinn sá tími sem óhjákvæmilegur verður talinn í að skoða þetta mál hvað sem öllum áformum um þinglok líður, enda dynja þær hörmungar víst nógu fljótt yfir sem væntanlegar eru eftir þinglausnir ef marka má ýmsar fregnir af stjórnarheimilinu og væri vissulega kostur ef hægt væri að koma því þannig fyrir að þetta frv. yrði ekki lögfest heldur biði þess að ríkisstjórnin sýndi á spilin því það snertir kjör almennings í landinu og gæti verið að einhverjum snerist hugur og bindið losnaði frá auganu á einum og einum manni varðandi þennan matarskatt ef hann sæi fyrir sér í sömu andrá þær ráðstafanir sem hæstv. ríkisstjórn er að sögn með á prjónunum í efnahagsmálum almennt.

Hæstv. fjmrh. hefur fært þau rök fyrir því að þessi matarskattur sé í raun og veru jafnaðarmennska að með því sé verið að treysta tekjustofna ríkissjóðs. Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðherra. Það er vissulega það eina sem hann hefur sagt 100% rétt um þetta mál. Þetta er einhver öruggasta leið til að afla ríkissjóði tekna sem til er í heiminum, þ.e. að skattleggja matvælin. Ætli það sé ekki eitt af því síðasta sem menn spara við sig, þ.e. maturinn. En það er sérkennilegur endi á hlutunum að byrja þarna hjá hæstv. ráðherra og formanni hins svonefnda jafnaðarmannaflokks á Íslandi, hæstv. fjmrh. Jóni Baldvin Hannibalssyni. Ef það fer svo, sem ég var að velta fyrir mér fyrr í ræðunni, að hæstv. ráðherra verði svo dagþroti í smöluninni og komi aldrei meiru í verk í þessum skattamálum en að leggja á matarskattinn getur vel verið að hann komist fyrir vikið á spjöld sögunnar. Ég ætla ekki að draga úr því. Það getur vel farið svo að einhver fátækleg orð muni standa á spjöldum sögunnar um hæstv. fjmrh. En það eru ábyggilega ekki þau meðmæli sem hann hefur vonast til að þar yrðu.