06.05.1988
Sameinað þing: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7606 í B-deild Alþingistíðinda. (5644)

Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Við erum auðvitað að ræða hið mikilsverðasta mál sem eru byggðamál í landinu og því miður verð ég að segja að mér finnst þessi umræða hafa farið heldur út og suður hjá okkur eins og oft vill verða þegar við ræðum um byggðamál. Það er kannski þess vegna sem árangurinn er ekki meiri.

Ég vildi aðeins koma inn á það sem hv. síðasti ræðumaður var að fjalla um í sambandi við Byggðastofnun sjálfa og að við hefðum ekki, vegna þess að ég á sæti í stjórn þeirrar stofnunar og hef átt, staðið í stykkinu í sambandi við að verða við beiðni úr kjördæmi hv. þm. um að veita um 700 þús. kr. styrk til að gera úttekt á atvinnustarfsemi á Akranesi. Það er sannast sagna að segja frá því að Byggðastofnun fær vitaskuld oft og tíðum beiðnir um slíkt og við höfum ekki getað orðið við því. Það er sannast mála. En ég verð að segja það sjálfur sem dreifbýlismaður og gamall þátttakandi í sveitarstjórnarmálum að ég vil ekki trúa því að við séum svo aum, sem úti á landsbyggðinni búum, ef við í alvöru erum að tala um að taka okkur tak, að við leysum ekki slík mál. Ég verð að segja það.

Hins vegar vil ég að það komi hér sterklega fram að Byggðastofnun hefur gert þær áætlanir sem hér var verið að tala um, m.a.s. í kjördæmi hv. þm. Byggðastofnun hefur gert áætlanir t.d. um Dalabyggð, ákaflega veikt byggðarlag. Byggðastofnun gerði það. Hún gerði meira. Hún framkvæmdi það, eins og hv. þm. var einmitt að segja, að láta heimamenn vinna verkið. Sú áætlun var unnin af hinum hæfasta heimamanni sem þekkti mjög til. Hann var fenginn til starfa á vegum stofnunarinnar og látinn vinna það verk.

Hvað gerði Byggðastofnun með Vestfirði? Vestfirðingar fóru fram á að það yrði gerð róttæk byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Hafnaði Byggðastofnun því? Nei. Byggðastofnun varð við því og fékk þaulreyndan sveitarstjórnarmann af Vestfjörðum til að vinna þá áætlun, Vestfjarðaáætlunina, róttæka byggðaáætlun fyrir Vestfirði.

Hvað gerði Byggðastofnun meira? Byggðastofnun tókst einmitt á hendur að gera úttekt og könnun með heimamönnum, Vegagerð ríkisins og Byggðastofnun um jarðgangagerð á Vestfjörðum. Hún var unnin í fullu samráði við heimamenn. Auðvitað má deila um niðurstöðurnar, en Byggðastofnun. var þarna tilbúin til starfa þegar til hennar var leitað.

Ég get nefnt annað dæmi, Út-Hérað. (SighB: Árneshrepp.) Já, já, ég nefni Út-Hérað. Það var unnið af heimamönnum líka. Kunnugur sveitarstjórnarmaður var fenginn til að vinna byggðaáætlun fyrir svokallað Út-Hérað. (SvG: Þetta er þá allt í lagi bara.) Það er ekki allt í lagi, en við skulum tala um þessi mál á annan hátt og í annarri tóntegund og öðrum dúr. Þá fyrst, hv. þm. Svavar Gestsson, þingmaður Reykjavíkur, er einhver von á því að við leysum þessi mál. (SvG: Jæja?) Já. Þá fyrst er von á því ef við þekkjum þann vanda sem við er að fást. En við þurfum að gera það fyrst.

Það þarf ekki að eyða fleiri orðum í þessa byggðaáætlun. Ég vildi bara nefna þetta. Ég gæti talið upp enn þá fleiri.

Það má einnig segja frá því að Byggðastofnun hefur núna í vaxandi mæli, sérstaklega eftir að breytt var úr Framkvæmdastofnun í Byggðastofnun, tekið upp að gerast beinn þátttakandi í atvinnufyrirtækjum á landsbyggðinni með því að gerast virkur hluthafi til að koma þessum fyrirtækjum á legg. Ég er sannfærður um að það er skynsamlegt. Ég gæti t.d. nefnt eitt fyrirtæki, úr því að menn eru farnir að nefna svæði og fyrirtæki, og tekið dæmi á Suðurlandi, fyrirtæki sem heitir Límtré og átti vissulega í mjög miklum fjárhagslegum erfiðleikum, leitaði til Byggðastofnunar. Byggðastofnun fór mjög grannt ofan í rekstur þess fyrirtækis, kom inn í það með hlutafé, endurskipulagði fyrirtækið algerlega upp. Undanfarin ár hefur þetta fyrirtæki skilað mjög góðri afkomu og er orðið fyrirmyndarfyrirtæki. Þegar svo var komið þá ákvað Byggðastofnun að selja hlutafé sitt í þessu fyrirtæki. Það tel ég skynsamlegt þegar svo er komið fyrir þessum fyrirtækjum og æskilegast væri auðvitað að heimamenn gætu komið þar til. Svona vildi ég sjá Byggðastofnun vinna og leggja það fjármagn sem þannig fengist til þess að styðja önnur fyrirtæki annars staðar.

Ég get líka nefnt fyrirtæki í Norðurlandi eystra, við Skógarlón í Öxarfirði, ákaflega veikt svæði sem hér hefur verið nefnt og hv. þm. Steingrímur Sigfússon var að fjalla hér um það kjördæmi. Ég tel ástæðulaust fyrir fólk úr Norðurl. e. að tala í einhverjum neikvæðum tón til Byggðastofnunar. Það er ástæðulaust. Byggðastofnun hefur vissulega reynt að koma til liðs við þau veiku byggðarlög sem þar eru og ég gæti nefnt um það mörg dæmi.

Menn hafa einnig verið að fjalla um fjármagn Byggðastofnunar og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sýndi hér í gær, þegar hann ræddi um þessi mál, töflu úr skýrslu Byggðastofnunar sem er um framlög á fjárlögum til byggðamála. Það er rétt, þessi tafla er alveg hárrétt og segir vissulega sína sögu. En sagan er samt ekki öll sögð og ég segi það sem þátttakandi að þessari ársskýrslu að það hefði mátt vera þarna annað rit við hliðina sem hefði sýnt einnig hvert hefur verið ráðstöfunarfé Byggðastofnunar á þessum tíma. Ég veit það og við vitum það öll að það er mikill munur á því hvort það hafa verið bein framlög til stofnunarinnar eða ráðstöfunarféð. En staðreyndin er sú að ráðstöfunarfé Byggðastofnunar hefur verið mjög svipað þessi ár sem hér er verið að tala um. Ég er ekki með það hér nákvæmlega en ég held að það sé ekki langt frá sannleikanum að segja að ráðstöfunarfé sjóðsins hefur verið mjög svipað.

Hins vegar tel ég að framlag til byggðamála þyrfti að verða miklu hærra. Við vitum að í stjórnarsáttmálanum stendur að unnið skuli að byggðamálum og ég er sannfærður um að vilji núverandi ríkisstjórnar stendur til þess að efla starfsemi Byggðastofnunar og taka á byggðamálum. En þessi ríkisstjórn er nú bara rétt að hefja göngu sína, hún er ekki búin að starfa í eitt ár enn og það er ástæðulaust að dæma það að fullu og telja að við viljum þar ekkert koma til. (HG: Er það mat framsóknar að það sé rétt að byrja?) Ríkisstjórnin? Ríkisstjórnin er ekki ársgömul enn þannig að það er ekki bara mat framsóknarmanna, staðreyndin í málinu er þessi. En það hafa nú fleiri komið að byggðamálum en ég ætla ekki að fara að ræða það.

En er það nú staðreynd að ekkert hafi verið gert hér á Íslandi í byggðamálum á undanförnum árum? Erum við alveg sanngjarnir landsbyggðarmenn að segja það að ekkert hafi gerst í byggðamálum? Vitaskuld hefur ekki verið um neina þróun að ræða í byggðamálum. Staðreyndin er sú að það er miklu frekar um byltingu að ræða. En ég undirstrika það að það er vissulega margt eftir enn ógert þrátt fyrir það.

Hver er ástæðan fyrir því núna að Háskóli Íslands er fullur út úr dyrum? Ætli það séu ekki yfir 5000 nemendur í Háskóla Íslands? Hvaðan skyldi fjölgunin vera? Gæti það verið að það væri af landsbyggðinni? Vegna hvers er það af landsbyggðinni? Það skyldi þó ekki vera að ástæðan væri m.a. sú að það er búið að byggja upp fjölbrautaskóla á Vesturlandi, það er búið að byggja upp menntaskóla á Ísafirði, það er búið að byggja upp fjölbrautaskóla á Sauðárkróki, það er búið að byggja upp verkmenntaskóla á Akureyri, það er búið að byggja upp menntaskóla á Egilsstöðum, það er búið að byggja upp fjölbrautaskóla á Suðurlandi og það er búið að byggja upp fjölbrautaskóla á Suðurnesjum. Gæti ekki verið að þetta hefði hjálpað börnum okkar til þess að komast í framhaldsnám? Er þetta ekki byggðamál? Er það ekki byggðamál það sem gert hefur verið í vegagerð á Íslandi? Er það ekki byggðamál? Áður töldum við a.m.k. að eitt af brýnustu byggðamálunum væri samgönguþátturinn.

Svo má bæta við í sambandi við samgönguþáttinn úr því að hæstv. samgrh. kemur hér inn uppbyggingu flugvallanna. Er það ekki byggðamál? Hefur það ekki verið gert? (Gripið fram í). Og verið að gera það líka á Egilsstöðum og menn hafa tekið þar myndarlega á, hv. þm., en það þarf líka að muna það og virða sem gert er. Við fáum fólk hvorki til að setjast að fyrir norðan eða austan, ef menn tala alltaf um alla hluti í neikvæðum tón og telja okkar fólki trú um að það sé ómögulegt og algerlega vitlaust að byggja upp og búa úti á landi.

Ég get nefnt sjálfvirkan síma, ég get nefnt sjónvarp. Hvað með rafvæðingu landsins? Hvað með uppbyggingu skipastólsins? Hvar hafa skipin lent sem hafa verið byggð upp? Hafa þau fyrst og fremst komið til Reykjavíkur? Ætli það sé staðreyndin? Hverjar ætli tölurnar séu þar um? Nei, sem betur fór hefur landsbyggðin fyrst og fremst notið þeirrar uppbyggingar.

Hvað með útfærslu landhelginnar í 758 þús. km2? Ætli það sé ekki eitt stærsta byggðamálið? (HG: Er það byggðamál?) Það er byggðamál en ekki bara landsbyggðarinnar. Það er byggðamál. Hvað með uppbyggingu heilsugæslustöðvanna? Ég held að þetta sé nóg upptalning í bili til þess að sýna það að menn hafa verið að vinna. Hins vegar hafa orðið breytingar í okkar þjóðfélagi. Það þarf enginn að vera hissa á því þó að það hafi aðeins hrikt í um stund miðað við þær breytingar sem við höfum staðið frammi fyrir bæði í sjávarútvegi og landbúnaði.

Menn tala um það hér og sérstaklega var það nú um áramót, það er fastur liður þegar menn tala um fiskveiðistefnuna, að stjórnun fiskveiða sé af hinu verra fyrir landsbyggðina. Árið 1960 veiddu Grænlendingar um 450 þús. tonn. Árið 1985 veiddu Grænlendingar um 14 þús. tonn. Svo halda menn að það sé óhætt að sækja í hafið eins og hvern og einn lystir. Hvar stæðum við Íslendingar ef ekki hefði komið til stjórnun. Vissulega hefur þessi takmörkun á sókn haft áhrif á byggðir landsins. Og vissulega hafa þær skipulagsbreytingar sem orðið hafa í landbúnaði einnig haft áhrif á byggð landsins. En nauðsynlegt var að taka upp nýja hætti og breytta í landbúnaði. Ég held að það blandist engum hugur um það. Gallinn var sá að menn voru búnir að vera of kærulausir of lengi. Menn brugðust of seint við en hafa þó með þeim búvörulögum sem sett voru dregið ákveðna markalínu og ákveðið að hopa ekki lengra og byggja þaðan upp sókn til nýrra búhátta í sveitum og efla hefðbundnar greinar. En vitaskuld hefur þetta komið við um sinn.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að eyða hér lengri tíma en ég vil minna á eitt atriði í lokin vegna þess að í mínum huga er það brýnt mál fyrir okkur að finna leið til þess að fá menntað fólk sem hefur notið þess að fara í langskólanám aftur út á landsbyggðina. Það er mikið og brýnt mál og hvernig við getum náð hluta af þeirri aukningu sem verður í þjónustustörfunum. (ÓÞÞ: Þriðja stjórnsýslustigið.) Þriðja stjórnsýslustigið, segir hv. þm. Vissulega má ræða það en það má þá segja frá því í þessu sambandi (Gripið fram í: Hvað segir þm. um það?) að Byggðastofnun hefur ákveðið það og ríkisstjórnin staðfest það í sínum stjórnarsáttmála að byggja upp stjórnsýslumiðstöðvar í öllum dreifbýliskjördæmum landsins. Í mínum huga er þetta eitt allra stærsta byggðamálið sem við erum að fást við í dag, þ.e. að koma þessum stjórnsýslumiðstöðvum upp. Ákveðnir hafa verið þrír staðir þar sem byrjað skal á þessari starfsemi, þ.e. Akureyri, Ísafjörður og Egilsstaðir. Framkvæmdir eru hafnar á Akureyri, það er byrjað að ráða fólk til starfa og þetta er stórmikið mál að koma þessum stofnunum upp og flytja starfsemina frá Reykjavík út í þessar stofnanir. Það er mikið mál. Og ég trúi því og treysti að eins og stendur í stjórnarsáttmálanum getum við gengið þar rösklega til verks og hafið framkvæmdir ekki bara á Akureyri heldur þurfum við að fara á fleiri stöðum í framkvæmdir í sambandi við uppbyggingu þessara stjórnsýslumiðstöðva. Ég átti fund á vegum Byggðastofnunar austur á fjörðum á sl. ári með sveitarstjórnarmönnum þar. Þá töldu þeir að þetta væri eitt af stærstu málunum sem sveitarstjórnarmenn á Austfjörðum væru að fjalla um núna, þ.e. að koma þessari starfsemi upp á Egilsstöðum. Vissulega greindi menn á hvar átti að staðsetja þessa stofnun, hvort hún átti að vera á Egilsstöðum eða einhvers staðar annars staðar, en það er annað mál. En Byggðastofnun tók ákvörðun um það að hún skyldi sett niður á Egilsstöðum.

Ég vildi aðeins blanda mér inn í þessar umræður. Við ræðum byggðamálin hér of sjaldan. Þau eru stór en ef við viljum ræða um þau til þess að ná árangri þá skulum við gera það af meiri hófsemi heldur en oft vill verða.