12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

80. mál, snjóflóðahætta

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Þau voru skýr og greinileg. Það er ánægjulegt að verið sé að vinna að þessum málum, mati á hættu og hættusvæðum. Mig undrar nokkuð að ekki skuli vera meiri þrýstingur frá sveitarfélögum á fjármagn úr þeim sjóði sem þegar er til staðar, 23 millj. sem hæstv. ráðherra upplýsti að væru tiltækar í þessu skyni. En eins og fram kom í máli ráðherrans þá skýrist það væntanlega af því að því hættumati sem um er að ræða er ekki lokið á viðkomandi stöðum. Þó veit ég að slíkt mat fór fram í Neskaupstað á árunum 1975 og 1976 og tillögur voru gerðar af Geoteknisk Institut í Osló um aðgerðir, byggingu varnarvirkja.

Ég hygg að það skorti nokkuð á að sveitarfélög hafi haft upplýsingar um það fjármagn sem til ráðstöfunar gæti verið í þessu skyni og m.a. af þeim sökum var þessi fsp. fram borin, svo og sú staðreynd að hér er um mjög dýrar framkvæmdir að ræða þannig að það er í rauninni vonlítið fyrir sveitarfélög að ætla sér að ráðast í þær. Þá á ég við byggingu varnarvirkja til að verja þá byggð sem þegar er risin en þær framkvæmdir geta skipt tugum milljóna fyrir tiltölulega lítil byggðasvæði. Þess vegna er mjög brýnt að ríkisvaldið leggi af mörkum eða hafi tiltækt fjármagn til þess að fjármagna, eins og 11. gr. laga um snjóflóðavarnir getur um, það mikinn hlut, að framkvæmdir strandi ekki á fjármagni eftir að skynsamlegum undirbúningi er lokið.

Í 11. gr. laga um snjóflóðavarnir segir, með leyfi forseta:

„Fé ofanflóðasjóðs, sbr. 10. gr., skal notað til að greiða kostnað við varnir gegn ofanflóðum sem hér segir:

1. Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats.

2. Greiða má allt að 4/5 hlutum af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og fasteignum vegna varna telst með framkvæmdakostnaði.

3. Greiða má allt að 4/5 hlutum kostnaðar við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna á snjóalögum með tilliti til snjóflóðahættu.

Félmrh. ákveður úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum Almannavarna ríkisins.“

Herra forseti. Hér kemur fram að ríkinu er heimilt að greiða um 80% af kostnaði við varnarvirki gegn snjóflóðum og það er vissulega góð heimild, en fjármagn þarf að vera til staðar. Ég vænti að þessi fsp. og upplýsingar leiði til þess að sveitarfélög sem í hlut eiga svo og ríkisvaldið taki á þessum málum eins og brýn nauðsyn er á.