09.05.1988
Efri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7770 í B-deild Alþingistíðinda. (5885)

68. mál, almenn hegningarlög

Frsm. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1075 um frv. til l. um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 sem allir fulltrúar í allshn. skrifa undir, þ.e. Jóhann Einvarðsson, Stefán Guðmundsson, Eiður Guðnason, Guðmundur Ágústsson, Guðrún Agnarsdóttir, Jón Magnússon og Salome Þorkelsdóttir. Nál. er stutt svo ég ætla að lesa það upp:

„Nefndin hefur rætt frv. og þær umsagnir sem borist hafa um það frá réttarfarsnefnd, ríkissaksóknara, Dómarafélagi Íslands og Lögmannafélagi Íslands. Er nefndin samþykk því að 202. og 203. gr. almennra hegningarlaga þarfnist endurskoðunar í anda frv.

Nefndinni hefur verið kynnt að starfandi sé nefnd á vegum dómsmrn. sem skipuð var í samræmi við ályktun Alþingis frá 22. maí 1984 og ætlað er að fjalla um rannsókn og meðferð nauðgunarmála og koma með tillögur um úrbætur á því sviði. Er búist við niðurstöðum nefndarinnar á þessu sumri.

Allshn. telur eðlilegt að frv. sé skoðað í ljósi niðurstaðna fyrrgreindrar nefndar þannig að samræmis sé gætt í tillögum um breytingar á almennum hegningarlögum hvað ákvæði núgildandi 194.–203. gr. snertir.

Í trausti þess að frv. fái þá meðferð leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Ég vil geta þess að eins og fram kemur í nál. höfum við fengið umsagnir m.a. frá Lögmannafélagi Íslands sem tekur mjög undir frv. en mælir með því að beðið verði eftir umræddu nál. sem um var rætt í nál. Dómarafélag Íslands mælir með því að frv. nái fram að ganga, en niðurstöður ríkissaksóknara og réttarfarsnefndar eru þess efnis að frv. sé til bóta en mælt er með því að beðið sé eftir heildarendurskoðun. Þess vegna mælir allshn. með því að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar með tilliti til þess að á þessum málum verði tekið við þá endurskoðun sem fer fram í sumar.