09.05.1988
Efri deild: 95. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7775 í B-deild Alþingistíðinda. (5892)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. félmn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 1069 flutti ég brtt. við 2. umr. þessa máls. Brtt. hefur þann tilgang að auðvelda sveitarfélögum að nota sér þá kosti sem felast í kaupleigukerfinu. Ég dró þessa brtt. til baka til 3. umr. vegna þess að ég vildi gera aðeins betur grein fyrir till. en mér hafði gefist kostur á við 2. umr. málsins. Till. er á þessa leið, herra forseti:

„Við þá heildarendurskoðun, sem fyrir dyrum stendur á húsnæðislöggjöfinni, skal sérstaklega athugað:

Í fyrsta lagi hvort ekki er nauðsynlegt að hafa í lögum um kaupleiguíbúðir heimild til að hækka lánshlutfall til framkvæmdaaðila þegar í hlut eiga illa stæð sveitarfélög.

Í öðru lagi að upp verði tekið í kaflanum um félagslegar kaupleiguíbúðir ákvæði sem heimila leigu samfara kaupum á tilteknum eignarhlut.

Í þriðja lagi samræmingu lánskjara mismunandi útlánaflokka.“

Í annan stað geri ég ráð fyrir því í þessari till. að inn komi nýtt ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar á þessa leið, með leyfi forseta:

„Meðan væntanleg endurskoðun laga um Húsnæðisstofnun ríkisins stendur yfir er húsnæðismálastjórn heimilt, ef sérstakar ástæður mæla með, að veita illa stöddum sveitarfélögum viðbótarlán til að gera þeim kleift að koma af stað byggingu félagslegra kaupleiguíbúða. Skal húsnæðismálastjórn heimilt að verja í þessu skyni jafngildi allt að 50 millj. kr. árlega á næstu þremur árum eða svo lengi sem endurskoðun laganna stendur yfir.“

Hér er með öðrum orðum gert ráð fyrir því að inn séu sett bráðabirgðaákvæði í sambandi við þessi kaupleigumál sem opni kaupleigukerfið fyrir illa stöddum sveitarfélögum sem augljóslega ráða ekki við byggingu kaupleiguíbúða eins og frv. lítur nú út. Þess vegna þarf að koma sérstaklega til móts við þau. Jafnframt er þetta mál tengt þeirri heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni sem gert er ráð fyrir og hæstv. félmrh. hefur lýst yfir að fram fari. Á þessum grundvelli vænti ég þess að þessi tillaga eigi skilning meðal þm. úr stjórnarflokkum ekki síður en stjórnarandstöðuflokkum og vona að hún verði hér samþykkt vegna þess að hér er um að ræða mál sem ég hef orðið var við að margir þm. hafa góðan skilning á.