10.05.1988
Neðri deild: 103. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7934 í B-deild Alþingistíðinda. (6077)

466. mál, ferðamál

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vek bara athygli á því að það væri ekkert nýmæli að lögbinda það með hvaða hætti starfsfólkið skyldi standa að því að taka við eignarhlut í Ferðaskrifstofu ríkisins. Það eru í gildandi lögum skýr ákvæði um það með hvaða hætti eignarþátttöku starfsfólksins, ef til kemur. skuli háttað. Hér er einfaldlega verið að leggja til með þessari brtt. að því fyrirkomulagi verði haldið sem var einróma, ef ég man rétt, samþykkt hér á þingi þegar ný lög um skipan ferðamála tóku gildi eftir heildarendurskoðun þess lagabálks eins og hann leggur sig. Þá var sett í lögin alveg skýrt ákvæði um það hvernig eignaraðild starfsfólksins skyldi háttað ef til kæmi og hér er einfaldlega lagt til að það ákvæði haldi sér inni í lögunum. Þó að vísu, vegna þess hvernig þetta mál hefur borið að, það þyrfti þá að vera bráðabirgðaákvæði, má það einu gilda. Aðalatriðið er að afstaða þm. sé skýr og þeir fá hér tækifræi til þess að gera upp hug sinn í atkvæðagreiðslu um það hvort þeir styðji það fyrirkomulag sem verið hefur í þessum efnum eða hvort menn vilji breyta til og þá hvort einhverjum hv. þm., sem áttu aðild að því á sínum tíma 1985 að setja þessi lög, hefur snúist hugur.