10.05.1988
Neðri deild: 103. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7941 í B-deild Alþingistíðinda. (6096)

431. mál, virðisaukaskattur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur talað hér drykklanga stund, hóf mál sitt með vel setnum þingsal fyrir framan sig. Hann hefur gert þessu máli nokkuð góð skil, svona úrdrátt úr því helsta sem skeð hefur. Mér fannst vanta eitt í ræðu hans, það að þakka þeim sem hlýddu.

Virðulegur forseti. Það gerist nú ekki mikið stærra mál á Alþingi en það sem hér hefur verið á lokastigi afgreiðslu í 3. umr., þessi gríðarlega mikla skattheimta sem er til viðbótar því sem fyrir er þegar virðisaukaskatturinn er tekinn upp í staðinn fyrir söluskattinn. En við lokaumræðu á slíku máli sem þessu tel ég að forseti ætti að athuga hvort sjónvarpið geti verið lokað því fjarvistir eru það miklar. Hér er ekkert annað en auðir stólar að undanteknum þeim þrem þm., með mér fjórum, sem eru í salnum og virðulegur forseti náttúrlega verður að vera viðstaddur, hvaða prógram sem er í sjónvarpinu. En ég held að það sé óhætt að segja að þetta er til minnkunar fyrir Alþingi og fyrir deildina að þm. skuli leyfa sér að vera í burtu og sýna stjórnarandstöðunni slíka vanvirðu eins og hún gerir með öllum þessum auðu stólum. Sem sagt, virðulegur forseti, það er ekki nóg að stjórnarandstaðan stundi hér fundi og komi þessum málum í gegn því að sjaldan hafa mál verið afgreidd eða hluti af frv. verið afgreiddur með meira en 20 stjórnaratkvæðum og svo aftur með nokkrum annaðhvort mótatkvæðum frá stjórnarandstöðunni til þess að hjálpa forseta eftir tvær eða þrjár tilraunir til atkvæðagreiðslu sem ekki dugðu, þannig að fjarvera stjórnarþingmanna er einhver sá mesti dónaskapur sem ég hef verið áhorfandi að í Alþingi síðan ég kom til þingsetu.